spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓvenjulegur nýr þjálfari Diego Sanchez

Óvenjulegur nýr þjálfari Diego Sanchez

Diego Sanchez er kominn með nýjan þjálfara sem enginn hefur heyrt um áður. Sá hefur enga reynslu við þjálfun í MMA og er töluvert frábrugðinn öðrum þjálfurum í MMA heiminum.

Diego Sanchez hefur nánast allan sinn feril verið hjá Jackson-Winkeljohn sem er einn virtasti bardagaklúbbur heims og þeir Greg Jackson og Mike Winkeljohn mjög virtir sem þjálfarar.

Fyrir þremur vikum ákvað Sanchez hins vegar að segja skilið við Jackson-Winkeljohn þar sem hann taldi sig ekki vera að fá þá athygli sem hann þurfti. Þá réði hann Josh Fabia sem sinn eina þjálfara en hann hafði áður unnið aðeins með honum fyrir Mickey Gall bardagann.

Fabia kallar sig græðara og hefur bakgrunn í ólympískri glímu. Fabia er stofnandi School of Self-Awareness og verður eini hornamaður Sanchez í kvöld. Fabia hefur aldrei þjálfað MMA bardagamann áður og aldrei verið í horninu í miðjum bardaga.

„Ég hef blandað saman gamalli speki ásamt nútíma tækni. Það er mjög einstakt og ólíkt öllu öðru, það er ólíkt öllu öðru sem þekkist. Ég er að skoða hluti sem hafa verið til staðar frá upphafi tímans á Jörðinni og til dagsins í dag. Ég hef því dýrmæta þekkingu á bardagalistum sem hjálpa Diego. Ég er að kenna honum að hafa stjórn á sér og hvernig á að vera meðvitaður um sjálfan sig og umhverfið,“ sagði Fabia við MMA Junkie í vikunni.

„Þú getur bætt skilningarvitin og orðið eitthvað sérstakt. Þú getur skapað orku innra með þér sem er ekki sambærileg við neinn annan. Diego er í aðstæðum þar sem eitthvað þarf að breytast. Margir fara í skóla í 10 til 15 ár og fá allar þessar gráður. Hversu margir af þeim kunna að anda? Fólk kann ekki að sinna grunnvirkni líkamans en vill rífa kjaft.“

Fabia vinnur með lögreglumönnum og öryggisgæslu en einnig með fólki út um allan heim í þúsundatali að eigin sögn. Fabia segist hafa hjálpað fólki með áföll og hafi hjálpað Sanchez á öllum stigum bardagans. Fabia heldur á púðum fyrir hann, glímir við hann, sér um matinn og sinnir flestu hjá Sanchez fyrir bardagann.

„Ég sinni níu störfum. Þetta er ólíkt því sem Wink og Greg og allir aðrir þjálfarar í heiminum eru að gera. Það er enginn að gera þetta svona. Það er enginn sem getur gert þetta svona því það eru allir sérfræðingar á einu sviði og öllu er skipt niður.“

Sanchez og Fabia æfa með óheðfbundnum hætti. Fabia lætur Sanchez æfa með bundið fyrir augun, notar prik, kýlir úr sitjandi stöðu, elta blöðru og fleiri óhefðbundnar æfingaaðferðir. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Sanchez berst í kvöld.

Sanchez er á mikilvægum stað ferilsins en bardaginn í kvöld verður hans síðasti á samningnum hans við UFC. Sanchez mætir Michael Chiesa á UFC 239 í nótt.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular