spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentPaige VanZant fer upp um flokk - féll í yfirlið í síðasta...

Paige VanZant fer upp um flokk – féll í yfirlið í síðasta niðurskurði

Paige VanZant hefur sagt skilið við strávigtina og ætlar nú upp í fluguvigt. Paige VanZant sagði að niðurskurðurinn í strávigtina hefði verið gífurlega erfiður og nú sé kominn tími á að berjast í þyngri flokki.

Hin 23 ára Paige VanZant er 4-2 á ferli sínum í UFC. Hún hefur ekkert barist síðan í desember 2016 þegar hún tapaði fyrir Michelle Waterson með uppgjafartaki í 1. lotu. Núna er hún komin með næsta bardaga í nýjum þyngdarflokki.

„Þetta er stór niðurskurður fyrir mig. Ég er mun þyngri en fólk heldur. Ég var hreint út sagt að drepa mig fyrir þessa íþrótt. Það hefur liðið yfir mig á baðherberginu mínu [í niðurskurðinum] fyrir síðustu tvo til þrjá bardaga mína. Fyrir minn síðasta bardaga leið yfir mig og læknarnir voru næstum búnir að banna mér að keppa,“ sagði VanZant við The MMA Hour á mánudaginn.

VanZant yfirgefur nú 115 punda strávigt og fer upp í 125 punda fluguvigt kvenna. Fluguvigt kvenna er nýstofnaður þyngdarflokkur og hafa nokkrar bardagakonur í UFC lýst því yfir að þær séu á leið í nýja þyngdarflokkinn. Jessica Eye er ein þeirra sem er á leið í fluguvigtina eftir veru í bantamvigt (135 pund) og mætast þær VanZant og Eye á UFC 216. Það verður áhugavert að sjá hvernig stærðarmunurinn verður á þeim VanZant og Eye enda önnur barist í strávigt á meðan hin hefur barist í bantamvigt.

Helsta ástæðn fyrir þessari breytingu hjá VanZant er gífurlega erfiður niðurskurður. Fyrir hennar síðasta bardaga voru foreldrar VanZant viðstaddir allt ferlið. Það var í fyrsta sinn sem þeir sáu hana skera niður og leist þeim ekki á blikuna.

„Foreldrar mínir höfðu aldrei séð mig skera niður en þau horfðu á síðasta niðurskurð. Þau sögðust afnema mér ef ég myndi gera þetta aftur. Þeim fannst þetta ekki vera þess virði að skaða sjálfan sig fyrir þetta.“

Sem betur fer er 125 punda þyngdarflokkurinn kominn í UFC. UFC leitar nú að fyrsta meistaranum í 26. seríu TUF en þar berjast 16 konur í útsláttarmóti og verður sigurvegarinn fyrsti fluguvigtarmeistari UFC. Líklega verður sigurvegarinn úr viðureign VanZant og Eye nálægt titilbardaga eftir seríuna.

„Loksins er verið að byggja upp 125 punda þyngdarflokkinn þannig að það er tímabært að prófa það. Ég er mikill talsmaður jákvæðrar líkamsmyndar og ég var að berjast við átröskun til að ná vigt. Og þá verður þetta ekki skemmtilegt lengur. Ég hata að skera niður, ég hataði ferlið. Það er auðvitað ekki gaman að falla í yfirlið á baðherbergisgólfinu af því þú ert að drepast í baðinu.“

VanZant er nokkuð stór stjarna og fengið mörg tækifæri utan UFC svo sem þátttaka í Dancing with the Stars og fleira. Þrátt fyrir þessi tækifæri er hún ekkert á leiðinni úr MMA. „Fólk er klikkað ef það heldur að ég sé á leiðinni að hætta. Ég er ekki að fara neitt og ætla að berjast lengi. Ég er fyrst og fremst bardagakona. Auðvitað mun ég sækjast eftir öðrum tækifærum sem mér bjóðast og myndi aldrei hafna þeim ef það er eitthvað sem ég hef ástríðu fyrir. En ég er fyrst og fremst bardagakona.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular