Næsti áfangastaður Paige VanZant verður Bare Knuckle Fighting Championship. Paige VanZant hafnaði tilboði frá Bellator.
Samningur Paige VanZant við UFC rann út fyrr í sumar eftir bardagann gegn Amanda Ribas. Það var fyrsti bardagi hennar í 18 mánuði og tappaði VanZant út þegar fyrsta lotan var hálfnuð.
Það var vitað mál að VanZant vildi kanna virði sitt á opnum markaði og fá tilboð frá öðrum bardagasamtökum en UFC. Flestir töldu að Bellator myndi ná í hana en VanZant hafnaði Bellator.
VanZant kaus frekar að semja við Bare Knuckle Fighting Championship (BKFC) þar sem hún mun keppa í boxi án hanska (bara vafningar). BKFC hefur verið að hasla sér völl síðustu tvö ár og samið við bardagamenn á borð við Artem Lobov, Jason Knight og Paulie Malignaggi.
Í samtali við ESPN sagðist VanZant vilja breyta ímynd sinni. VanZant vill ekki vera þekkt fyrir að vera bara snoppufríð og vill sýna hörku sína. Í BKFC er algengt að stórir skurðir myndist og er VanZant óhrædd við að fá slæma skurði.