spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentPaulie Malignaggi heldur áfram að hrauna yfir Conor McGregor

Paulie Malignaggi heldur áfram að hrauna yfir Conor McGregor

Boxarinn Paulie Malignaggi var fenginn til að aðstoða Conor McGregor í undirbúningnum fyrir boxbardagann gegn Floyd Mayweather. Hann hefur nú yfirgefið æfingabúðirnar og lét Conor heyra það í The MMA Hour í gær.

Paulie Malignaggi var æfur yfir myndum af æfingum hans og Conor sem fóru á netið. Hann tilkynnti fyrir helgi að hann myndi yfirgefa æfingabúðirnar og lét gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Hann greindi nánar frá æfingunum í viðtali við Ariel Helwani í gær.

Paulie Malignaggi er fyrrum atvinnumaður í boxi og tvöfaldur heimsmeistari. Hann var fenginn til að hjálpa Conor í undirbúningi sínum fyrir hans fyrsta atvinnubardaga í boxi. Malignaggi flaug tvisvar til Las Vegas en í fyrra skiptið tók hann átta lotur. Í seinna skiptið tóku þeir 12 lotu sparr sem er óvenjulegt. „Það býst enginn við að taka 12 lotur í röð. Bardagamaðurinn sem er að undirbúa sig tekur 12 lotur í röð en við mismunandi æfingafélaga,” sagði Paulie Malignaggi.

Malignaggi hafði áður tekið átta lotu sparr þar sem Conor gekk vel. Næst þegar hann mætti voru menn á borð við Lorenzo Fertitta og Dana White í æfingasalnum. Malignaggi leið eins og Conor ætlaði að sýna sig fyrir viðstöddum. „Sparrið var mjög leynilegt, ég gat ekki einu sinni tekið minn þjálfara með til að vera í horninu mínu. Allir þurftu að geyma símana í kassa svo enginn gæti tekið eitthvað upp eða tekið myndir. Samt var hann með háttsetta menn þarna í æfingasalnum.“

Malignaggi sagði að Conor hefði verið að standa sig vel fyrstu loturnar en í síðustu sex lotunum var hann mun opnari fyrir höggum. „Skrokkhöggin fóru að hafa meiri og meiri áhrif á hann. Hann hætti að rífa kjaft þar sem hann þurfti að spara eins mikla orku og hann gat. Hann kýldi ekki eins mikið eftir það. Hann náði nokkrum góðum höggum inn fyrstu fimm loturnar.“

Mynd: Dave Fogarty.

Á einni af myndunum sem fóru á netið virtist eins og Conor hafi kýlt Malignaggi niður. Malignaggi segir hins vegar að sér hafi verið ýtt niður. „Það fyndna við þetta er að þetta var á einu af hans verstu augnablikum. Hann hrynti mér á gólfið þegar hann var að reyna að jafna sig og ná andanum en ég stóð strax aftur upp.“

„Eftir loturnar taldi ég að við hefðum grafið stríðsöxina. En eftir samtal við Conor í klefanum sá ég hversu mikið fífl hann er. Eftir 12 harðar lotur finnur maður fyrir virðingu gagnvart æfingafélaganum. Við tókum mynd í hringnum, allir klöppuðu og það skipti engu máli hvor vann þar sem við vorum þarna í 36 mínútur að reyna að berja hvorn annan.“

„Ég bað Conor um að setja ekki myndirnar á samfélagsmiðla. Allir fjölmiðlar vilja spyrja mig út í þessar myndir. Það er erfitt fyrir mig að virða þagnarskylduna um æfingarnar þegar hann er að setja allar þessar myndir af mér á samfélagsmiðla. Hann horfir á mig glottandi, hlær að mér og byrjar að labba burt. Hann segir; ‘ég veit ekki með það Paulie, við náðum nokkrum góðum þarna í síðustu tveimur lotunum’.“

„Á þessum tímapunkti beið ég bara eftir að Ashton Kutcher kæmi inn og sagði að ég hefði verið tekinn (Punk’d). Ég hélt að þetta væri grín. Ég ætlaði ekki að trúa því að hann væri svona mikill asni.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular