spot_img
Saturday, November 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentPirraður Dana White svarar Conor

Pirraður Dana White svarar Conor

Conor McGregor segist vera hættur í MMA. Dana White svaraði Conor McGregor á dögunum.

Nú á dögunum tilkynnti Conor McGregor enn eina ferðina að hann væri búinn að leggja hanskana á hilluna og sagði hann ástæðuna vera að honum fyndist íþróttin og darraðadansinn í kringum hana ekki spennandi lengur. Conor virðist vera óáhugasamur fyrir þeim bardögum sem standa honum til boða eins og staðan er í dag og ákvað því í framhaldinu að segja þetta gott. Dana White segir að Conor geti sjálfum sér um kennt eins og MMA Fighting greinir frá.

Síðastliðin mánudag veitti Conor ESPN viðtal um starfslokin þar sem hann greindi frá því hann hafi beðið um að fá bardaga gegn Justin Gaethje eftir að hann sigraði Tony Ferguson og tryggði sér þar með brágðabirgðabeltið í léttvigtinni. Samkvæmt Conor hafi UFC hins vegar ekki viljað verða við ósk þeirri.

Að öllu óbreyttu mun Gaethje mæta Khabib Nurmagomedov síðar á árinu og greindi Raphael Marinho, blaðamaður hjá Combate, frá því í gær að viðræður væru nú í gangi um að bardaginn um léttvigtarbeltið færi fram þann 19. september.

Eitthvað virðist þráðurinn í Dana White vera farinn að styttast og hefur hann núna svarað þessu útspili Conor og sagt frá því að Conor hafi staðið til boða að stíga inn og berjast á UFC 249 með stuttum fyrirvara ef þess þyrfti. Conor hafnaði því tilboði.

„Hann vill berjast við Gaethje. Gaethje er bara núna búinn að tryggja sér bardaga við Khabib,“ sagði Dana White í viðtali við ESPN og hélt áfram: „Hann [Gaethje] vann Tony, Conor átti séns á að grípa það tækifæri ef annað hvort Khabib eða Tony myndu forfallast.“

„Hann [Conor] sagði þá að hann væri ekki varamaður fyrir einn eða neinn og myndi alls ekki gera það. Ef hann hefði stigið upp þá væri hann í stöðu til að berjast upp á titilinn, hann gerði það ekki, Gaethje gerði það svo Gaethje fær titilbardagann.“

Það er engum blöðum að fletta að Conor McGregor er lang stærsta stjarnan í UFC og ein sú stærsta í bardagaíþróttum. Þar af leiðandi hefur hann meiri ítök en flestir kollegar sínir og hafa menn verið boðnir og búnir til að verða við vilja hans í gegnum tíðina. Dana White ætlar ekki að láta hagga sér í þetta skiptið.

„Það er bara kergja í Conor McGregor núna, ég meina sjáðu hvað er í gangi, sjáðu hverju við erum að áorka. Við erum að fara á Yas-eyjar til að setja á bardaga af því það er nær ómögulegt að koma alþjóðlegum bardagamönnum inn í landið núna. Við erum að reka alþjóðlegt fyrirtæki og við erum þeir einu sem geta boðið uppá íþróttaviðburði í beinni akkúrat núna. Ef við höldum áfram að djöflast í Bandaríkjunum þá verð ég fljótur að brenna í gegnum alla amerísku bardagakappana“.

Dana hélt svo áfram og talaði ekki undir rós hvað Conor varðar. „Núna er búið að ganga frá Yas-eyjum, þetta er klárt. Þetta bara snýst um að Conor er pirraður yfir því að fá ekki það sem hann vill og hann er ekkert að fara að fá þetta. Ekki sjens“.

Tíminn verður að leiða það í ljós hvort fyrrum tvöfaldi meistarinn standi við stóru orðin og snúi aldrei framar í búrið.

spot_img
spot_img
spot_img
Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular