Saturday, April 20, 2024
HomeErlentPólland fylgist vel með Jan Blachowicz

Pólland fylgist vel með Jan Blachowicz

Jan Blachowicz mætir Dominick Reyes á laugardaginn um lausan titilinn í léttþungavigt. Sá pólski á sér fjölmarga aðdáendur í heimalandinu en bardaginn ætti að vera stærri.

Pólverjinn Jan Blachowicz var KSW meistarinn í léttþungavigt en lét beltið af hendi þegar hann kom í UFC árið 2014. Blachowicz var í brasi til að byrja með í UFC (fjögur töp í fyrstu fimm bardögunum) en hefur nú unnið sjö af síðustu átta bardögum sínum.

Blachowicz er 37 ára gamall og fær nú titilbardaga í fyrsta sinn í UFC. Pólland hefur áður átt meistara í UFC en Joanna Jedrzejczyk var lengi vel ríkjandi meistari í strávigt kvenna.

Daniel Alot.

Daniel Alot er 23 ára pólskur bardagamaður sem hefur verið búsettur á Íslandi í 10 ár. Alot er með þrjá sigra og eitt tap sem áhugamaður í MMA en hann æfir í Mjölni. Daniel er því vel með á nótunum þegar kemur að MMA senunni í Póllandi.

„Þessi titilbardagi ætti að vera mun stærri heima í Póllandi. Að mínu mati ætti þetta að vera eins og landsleikur í fótbolta þar sem landið bara stoppar en það er ekkert þannig núna,“ segir Daniel um áhugann á bardaganum í Póllandi.

„MMA aðdáendur munu auðvitað vaka eftir þessu en venjulegir íþróttaáhugamenn eru ekki mikið að spá í þessu. Ef Gunnar Nelson væri að fá titilbardaga í UFC myndu allir á Íslandi horfa en í Póllandi er fólk ekki alveg að fatta hversu stórt þetta er fyrir Jan. KSW er líka stærra í Póllandi heldur en UFC.“

KSW eru bardagasamtök í Póllandi sem eru mjög stór á evrópskum mælikvarða. Bardagakvöldin þeirra eru fjölmenn (kringum 12-16.000 áhorfendur) og fá góða umfjöllun í heimalandinu – mun meiri umfjöllun en UFC. KSW á til að mynda áhorfendamet í MMA heiminum þegar 57.766 manns sáu Mamed Khalidov sigra Borys Mankowski á stórum fótboltaleikvangi árið 2017.

„Fólk fylgist með Jan og hann hefur mætt í vinsæla spjallþætti fyrir þennan bardaga en þetta er ekki eins og þegar Mamed Khalidov berst eða Mariusz Pudzianowski, þá eru allir að horfa.“

Fyrrum aflraunamaðurinn Mariusz Pudzianowski er gríðarlega stórt nafn í Póllandi. Eftir að hafa verið fimmfaldur heimsmeistari í aflraunum snéri hann sér að MMA og hefur hann nú barist 20 MMA bardaga á þeim 11 árum sem hann hefur stundað íþróttina. Pudzianowski hefur nánast eingöngu barist í KSW.

„Fyrsti MMA bardaginn hans Pudzianowski er sennilega einn stærsti bardagi í sögu Póllands. Hann hefur líka komið með mikinn áhuga á íþróttinni og margir byrjuðu að æfa MMA bara út af honum. Íþróttin stækkaði verulega í Póllandi þegar hann byrjaði að keppa,“ segir Daniel.

„Þó Jan sé í UFC þá er þessi titilbardagi ekki að fá eins mikla athygli. Það spilar kannski inní að Jan er ekki eins áhugaverður persónuleiki og Khalidov eða Pudzianowski. Hann er enginn showman og gerir bara sitt. Hann er með sína aðdáendur og er þekktur en er ekki nógu áhugaverður karakter.“

Dominick Reyes er talinn sigurstranglegri á laugardaginn en Daniel hefur trú á landa sínum. „Ég held hann taki þetta. Ég segi að Jan klári þetta með rothöggi í 3. lotu.“

Daniel Alot.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular