Fyrrum léttvigtarmeistarinn Rafael dos Anjos er kominn með sinn annan bardaga í veltivigtinni. Dos Anjos mætir Neil Magny á UFC 215 þann 9. september í Kanada.
Rafael dos Anjos átti fína frumraun í veltivigtinni í sumar. Dos Anjos sigraði þá Tarec Saffiedine á UFC bardagakvöldinu í Singapúr í júní. Dos Anjos var léttvigtarmeistari UFC í rúmt ár en tapaði beltinu til Eddie Alvarez. Dos Anjos lýsti hræðilegri reynslu sinni í niðurskurðinum niður í léttvigt og ákvað hann að setja heilsuna í forgang og færa sig upp í veltivigt. Dos Anjos skipar nú 10. sæti styrkleikalistans í veltivigtinni.
Neil Magny hefur verið lengi frá vegna meiðsla en er sá bardagamaður sem allir virðast vilja mæta. Magny skipar 6. sæti styrkleikalistans og telja margir það óverðskuldað. Colby Covington, Santiago Ponzinibbio og fleiri hafa óskað eftir að berjast við Magny. Magny hefur glímt við erfið meiðsli á undanförnum mánuðum en síðast sáum við hann vinn Johny Hendricks á UFC 207 í desember.
Þetta ætti að verða áhugaverð viðureign enda er Magny einn sá hávaxnasti í veltivigtinni og með afar langan faðm. Magny er með 203 cm langan faðm á meðan dos Anjos er með 178 cm langan faðm.
UFC 215 fer fram í Edmonton í Kanada en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Demetrious Johnson og Ray Borg um fluguvigtartitilinn. Amanda Nunes og Valentina Shevchenko mætast svo í næstsíðasta bardaga kvöldsins og þá fáum við þungavigtarslag á milli Junior dos Santos og Francis Ngannou sama kvöld.