spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentRobert Whittaker: Var kominn í andlegt þrot

Robert Whittaker: Var kominn í andlegt þrot

Robert Whittaker hætti við bardaga sinn gegn Jared Cannonier í mars. Lítið var vitað hvers vegna hann dró sig úr bardaganum en nú hefur Whittaker rofið þögnina.

Robert Whittaker var millivigtarmeistari UFC en tapaði beltinu til Israel Adesanya í október 2019. Whittaker vildi fara aftur í búrið sem fyrst og var bókaður í bardaga gegn Jared Cannonier í mars. Um 6 vikum fyrir bardagann greindi UFC frá því að Whittaker myndi ekki berjast.

Lítið var vitað um hvers vegna Whittaker gæti ekki barist. Dana White, forseti UFC, sagði að ástæðan væri ótrúleg óeigingirni Whittaker og að hann væri ótrúleg manneskja. Því var haldið fram að Whittaker hefði gefið veikri dóttur sinni beinmerg og hefði því þurft að fara í aðgerð.

Sá orðrómur var ekki á rökum reistur en nú hefur Whittaker sagt að hann hafi verið kominn í andlegt þrot. Allt hrundi á jóladag þegar hann var á æfingu fjarri fjölskyldu sinni.

„Ég stoppaði æfinguna. Ég stóð þarna og spurði mig hvað í fjandanum ég væri að gera? Það var jóladagur og fjölskylda mín var einhvers staðar annars staðar. Á þessu augnabliki hrundi allt,“ sagði Whittaker við Daily Telegraph í Ástralíu.

„Þetta var bilun. Í hvert sinn sem ég missti af viðburði eða þurfti að fara snemma, í hvert sinn sem ég þurfti að æfa yfir páskana eða yfir jólin var eins og að vera kýldur niður. Þetta var högg eftir högg eftir högg. Ég var gjörsamlega brunninn út.“

„Ég vissi þá að þetta væri ekki eðlilegt og ég gæti ekki haldið svona áfram. Þegar ég kom heim tilkynnti ég liðinu mínu strax að allt yrði sett á pásu.“

Whittaker hóf ferilinn í veltivigt en þegar hann fór upp í millivigt 2014 jók hann æfingaálagið. Árangurinn í kjölfarið var frábær en Whittaker þurfti að færa margar fórnir. Hinn 29 ára Whittaker er þriggja barna faðir og átti erfitt með að samræma fjölskyldulífið með bardagaferlinum.

„Ég fórnaði öllu. Ég var með gott skipulag og það virkaði. Ég hélt því bara áfram en ég gat ekki gert það endalaust. Ég var bara ekki heima. Ég velti því fyrir mér hvort ég væri að upplifa kulnun. Eftir hvern bardaga var alltaf annar titilbardagi næst á dagskrá. Ég þurfti að ýta frá mér neikvæðu hugsununum og halda bara áfram. Við vorum að æfa mjög skynsamlega en andlega var ég kominn í þrot. Maður getur bara gert það í ákveðinn tíma þangað til þú ert skyndilega kominn í bardaga þar sem þú ert ekki upp á þitt besta.“

Eftir tapið hjá Whittaker gegn Adesanya taldi Whittaker sig geta gert mun betur. „Ég var ekki ég sjálfur í bardaganum,“ sagði Whittaker meðal annars eftir bardagann.

Whittaker hefur ekki hugmynd um hvar orðrómurinn um beinmerginn byrjaði en börnin hans eru öll við góða heilsu.

Óljóst er hvenær Whittaker getur snúið aftur í búrið. Næst á dagskrá hjá honum er að gefa sér meiri tíma með börnunum sínum og minnka æfingaálagið. „Ég elska að berjast og ég er góður í því. En ég get ekki haldið áfram eins og ég var að gera.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular