Robert Whittaker sigraði Jared Cannonier á UFC 254 síðasta laugardag. Whittaker ætlar að taka sér gott frí áður en hann tekur næsta bardaga.
Robert Whittaker er lítið að hugsa um næsta bardaga þó hann sé í lykilstöðu í millivigtinni. Dana White, forseti UFC, finnst spennandi að gefa Whittaker annað tækifæri gegn meistaranum Israel Adesanya þrátt fyrir að það sé aðeins rúmt ár síðan Adesanya sigraði Whittaker með yfirburðum.
Whittaker á von á sínu fjórða barni og vill ekki hugsa um neitt annað næstu mánuði.
„Jólin eru á næsta leiti og svo eigum við von á barni í Janúar. Ég vil ekki þurfa að hugsa um bardaga fram að fæðingunni. Ég hef þurft að hugsa um bardaga í kringum fæðingu allra barna minna. Þar var ég að hugsa um komandi bardaga og fékk ekki að njóta augnabliksins. Ég ætla ekki að gera það fyrir mitt næsta barn,“ sagði Whittaker á blaðamannafundinum eftir bardagann.
Whittaker er því ekki að flýta sér að fá næsta titilbardaga gegn Israel Adesanya en vill auðvitað mæta honum aftur.
„Adesanya er erfiður bardagi. Ég er spenntur fyrir að mæta honum aftur en það er mjög erfiður bardagi. Hann er svo ógeðslega góður og er bara að verða betri og hefur þegar unnið mig. En mér finnst ég hafa nokkur brögð í erminni sem ég á inni. Ég held ég geti gert þetta öðruvísi næst.“
„Ég veit að hann er að reyna að gera fullt núna. Við ættum kannski ekki að hugsa um annan bardaga milli okkar strax. Hann getur farið upp í léttþungavigt eða þungavigt. Hann má gera það sem hann vill, mér er sama. Ég vil njóta jólanna, eignast mitt 4. barn og svo vonandi mætumst við.“
Whittaker greindi frá því fyrr á þessu ári að hann hefði glímt við kulnun og var ánægjan af æfingum ekki sú sama. Hann er því meðvitaður um að fara ekki of snemma í næsta bardaga – sama hver áskorunin verður.
„Ég vil berjast aftur við Adesanya einn daginn. Hvort sem það er á ferlinum eða út á bílastæði sem tveir gamlir kallar einn daginn. Ég held að leiðir okkar munu mætast einn daginn. Þetta er eitthvað sem ég verð að gera sem bardagamaður en ég hef ekki of miklar áhyggjur af hverjum ég mæti næst.“