Thursday, May 2, 2024
HomeForsíða"Rússarnir" í UFC

“Rússarnir” í UFC

Nokkur fjöldi rússneskra bardagamanna hafa barist í UFC að undanförnu með góðum árangri og eru fleiri á leiðinni. Þetta eru þeir Khabib Nurmagomedov, Adlan Amagov og Rustam Khabilov og eru þeir allir ósigraðir í UFC. Það sem er skemmtilegt við þessa kappa er að þeir koma allir frá fylkinu Dagestan eða Tjetseníu. Einnig er Adam Khaliev búinn að semja við UFC (á enn eftir að berjast sinn fyrsta UFC bardaga) en hann kemur frá Tjetseníu.

Dagestan er fylki í Rússlandi með 2,9 milljónir íbúa með gríðarlega mikla og sterka glímuhefð og þá sérstaklega í borginni Khasavyurt. Frá Khasavyurt (með 131.000 íbúa) hafa komið átta gullverðlaunahafar í glímu á síðustu fjórum Ólympíuleikum og að minnsta kosti 12 heimsmeistarar. Bardagakappar frá Dagestan og Tjetseníu keppa fyrir Rússland en telja sig ekki vera frá Rússlandi heldur frá Dagestan og Tjetseníu. Þannig eru þeir Nurmabomedov, Amagov og Khabilov allir sagðir vera Rússar  í UFC en telja sig ekki vera rússneska. Glímuhefðin er svo sterk í Dagestan að glímumenn frá Kóreu, Kúbu og fleiri löndum hafa farið þangað til að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana.

Það hefur þó ekki alltaf verið auðvelt fyrir þessa kappa að keppa fyrir Rússland. Buvaysar Saytiev keppti fyrir Rússland á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996 þegar hann var aðeins 21 árs gamall. Honum leið fáranlega í rússneska glímugallanum á meðan vinir hans voru heima í Tjetseníu að berjast í stríði við rússneska herinn. Hann lét það ekki hafa mikil áhrif á frammistöðu sína og varð Ólympíumeistari.

Khabib Nurmagomedov hefur unnið alla bardaga sína (21 talsins) þar af fimm í UFC. Nurmagomedov mun líklegast keppa næst gegn Gilbert Melendez á UFC 169 en sigurvegarinn þar fær sennilega titilbardaga. Nurmagomedov á met yfir flestar fellur í einum bardaga en í bardaga hans gegn Abel Trujillo náði hann 21 fellu!

Rustam Khabilov (17-1) hefur sigrað alla þrjá bardaga sína í UFC en hann vakti mikla athygli í fyrsta UFC bardaganum sínum. Í þeim bardaga rotaði hann andstæðing sinn með því að henda honum á hausinn (suplex)! Síðast sigraði hann Jorge Masvidal eftir dómaraákvörðun en þar sýndi hann gríðarlega flott „striking“.

 

Adlan Amagov er ósigraður í tveimur UFC bardögum en rothögg hans gegn TJ Waldburger á UFC 166 vakti mikla athygli. Hann kom í UFC eftir að hafa verið í Strikeforce en þar tapaði hann einum bardaga (gegn Robbie Lawler með rothöggi) en sigraði tvo.

Allir æfa þeir í Bandaríkjunum í topp klúbbum, Khabilov og Amagov hjá Greg Jackson og Nurmagomedov hjá AKA.

Það verður gaman að sjá hvað Adam Khaliev muni gera og vonandi verður það eitthvað í líkingu við þetta:

Það er ótrúlega gaman að sjá þesa „rússnesku“ bardagamenn koma í UFC. Þessir menn minna um margt á Ivan Drago í Rocky IV, tilfinningalausar vélar sem halda ótrauðir áfram. Dagestan og Tjetsenía eiga gríðarlega mikinn fjölda af hæfileikaríkum bardagamönnum. Auk fyrrnefndra bardagamanna er KSW meistarinn Mamed Khalidov frá Tjetseníu en hann er einn besti millivigtarmaður heims sem er utan þessara stóru samtaka á borð við Bellator og UFC. Honum hefur þó verið boðið að koma til UFC en fær víst meiri pening í KSW. Bellator kappinn Shahbulat Shamhalaev kemur frá Dagestan og einnig Boxarinn Khabib Allakhverdiev (19-0). Það er nokkuð ljóst að bardagaíþróttir eiga vel heima í Dagestan og Tjetseníu og spurning hvort að við munum einhvern tíman sjá UFC meistara frá „Rússlandi“.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. Skemmtileg umfjöllun um áhugavert svæði. Svæði bæði vestar- og sunnar á kákasussvæðinu t.d. Ossetía, og Georgía, hafa einnig alið marga mjög góða bardagaíþróttamenn þó Dagestan sé stærst.

    Hér er smá umfjöllun ef menn hafa áhuga og það eru önnur áhugaverð myndbönd í related : http://www.youtube.com/watch?v=ePS267QkcmI

    Ég hafði einmitt velt fyrir mér hugsunum íþróttamanna frá þessu svæði gagnvart Rússlandi. Pútín fagnaði með Tagir Khaybulaev þegar hann vann gull í -100kg flokki í júdó á ólympíuleikunum í London sem bar rússnenska fánann þá einnig á baki sér, en hann er múslimi frá Dagestan. Það er spurning hvort sú hegðun hafi komið frá honum sjálfum eða vegna pressu/hræðslu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular