Nú á dögunum komst MMA vefsíðan MMA Junkie yfir skjal sem varpar ljósi á stefnu UFC næstu misseri. Skjalið var hannað fyrir hugsanlega fjárfesta en það er eitt og annað sem þar kemur fram sem aðdáendum íþróttarinnar kann að þykja áhugavert.
Eins og margir muna var UFC selt fyrir skömmu skemmtanarisanum WME-IMG á fjóra milljarða dollara sem samsvarar um 444 milljörðum íslenskra króna (miðað við gengið 111) sem er um þriðjungur af heildarskuldum íslenska ríkisins. Sú spurning sem vaknaði hjá mörgum eftir söluna var, hvað á eftir að breytast með nýjum eigendum?
Allt virðist stefna í færri og stærri viðburði sem kannski það sem margir voru að vonast eftir. Búið er að segja upp talsvert mörgum starfsmönnum og bardagamönnum og sú þróun mun sennilega halda eitthvað áfram.
Eitt af því sem fram kemur í skjalinu er að um helmingur tekna UFC eru svo kallaðar „Pay per view“ (PPV) tekjur þar sem áhorfendur greiða fyrir einstaka viðburði. Það vita allir að stjörnur eru mikilvægar en hversu mikilvægar er eitthvað sem bara tölur geta leitt í ljóst.
Árið 2015 náðu bardagakvöld með Conor McGregor og Rondu Rousey að afla um 60% PPV tekna það árið. Það þýðir að á fimm af 41 bardagakvöldi með þessum stjörnum aflaði UFC 30% af heildartekjum ársins bara úr PPV sölum sem er nokkuð magnað.
Hluti af fyrirkomulagi nýrra eiganda eru himinháir bónusar til yfirmanna nái þeir ákveðnum markmiðum. Það eru kannski ekki bónusarnir sjálfir sem skipta máli heldur markmiðin þar sem þau gefa vísbendingu um hvert UFC stefnir. Samkvæmt skjalinu var EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta) UFC frá júní 2015 til júní 2015 um 170 milljónir dollara. Eitt af nýju markmiðunum er að koma þeirri tölu í 350 milljónir dollara fyrir árslok 2018.
Til að ná því markmiði þarf að auka tekjur og auvitað skera kostnað. Helsti kostnaðarliðurinn í fyrirtæki eins og UFC eru laun en stefnan er að lækka launakostnað úr 55,4 milljónum dollara í 27 milljónir sem þýðir miklar uppsagnir.
Ofan á þetta á að lækka kostnað við The Ultimate Fighter úr 27,6 milljónir dollara í 10 milljónir en sennilega munu ekki margir gráta það. Í skjalinu er einnig talað um að draga úr kostnaði þegar kemur að t.d. ferðakostnaði og sérstökum ráðgjöfum. Hugsanlega eru þessir ráðgjafar menn á borð við Chuck Liddell, Forrest Griffin og Matt Hughes sem gegna hinum ýmsu skrautstörfum hjá UFC eftir að þeir hættu.
Það er ljóst að framundan verða áframhaldandi breytingar hjá UFC sem hljóta að valda talsverðum titringi á meðal starfsmanna og bardagamanna. Fyrir hinn almenna áhorfanda verður kannski ekki svo slæmt að fá færri og stærri kvöld líkt og þekktist hér áður fyrr.
Hugsanlega má reikna með að þessir TUF Latin America, TUF Brazil og aðrir alþjóðlegir TUF þættir munu hverfa á brott sem er ekkert svo slæmt. Vonandi mun þó UFC halda áfram að halda bardagakvöld í Evrópu og þá sennilega á Bretlandseyjum en munu sennilega ekki reyna að komast inn á nýja markaði eins og Króatíu, Holland og Asíu.
Hvernig sem þetta þróast verður áhugavert að fylgjast með úr fjarlægð.