Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentSagan á bakvið eitt frægasta kast sögunnar

Sagan á bakvið eitt frægasta kast sögunnar

suplexÁ myndinni hér að ofan má sjá eitt þekktasta kast í sögu glímunnar. Kastið framkvæmdi Wilfried Dietrich á Ólympíuleikunum 1972.

Ólympíuleikarnir 1972 fóru fram í München í Vestur-Þýskalandi og var því Þjóðverjinn Wilfried Dietrich á heimavelli.

Á myndinni hér að ofan kastar hann hinum 198 kg Chris Taylor frá Bandaríkjunum yfir sig. Kastið skilaði honum fullnaðarsigri í glímu þeirra í Grísk-Rómverskri glímu.

Dietrich var hörku glímumaður og keppti fimm sinnum á Ólympíuleikunum. Hann keppti bæði í Grísk-Rómverskri glímu og frjálsri glímu (freestyle) og keppti í þungavigt. Hann hlaut fimm gullverðlaun á Ólympíuleikunum og fimm heimsmeistaratitla á ferli sínum.

Þó Chris Taylor hafi ekki litið út fyrir að vera mikill íþróttamaður var hann frábær glímumaður og hlaut brons á Ólympíuleikunum 1972. Hann þótti einnig merkilega snöggur miðað við stærð sína og tæknilegri en marga grunaði.

Sagan af kastinu er ansi skemmtileg. Eins og má sjá var Chris Taylor risavaxinn maður. Til að geta framkvæmt „suplex“ kast eins og Dietrich gerir á myndinni þurfti Dietrich að geta náð utan um hann og gripið höndunum sínum saman.

Jim Peckham var aðstoðarþjálfari bandaríska liðsins á þeim tíma og man vel eftir atvikinu fræga. „Þetta var svona fimm til tíu mínútum áður en glíman byrjaði og Dietrich kom upp að Chris og sagði ‘mikið er gaman að sjá þig!’. Í staðinn fyrir handaband faðmaði hann Chris þétt að sér. Ég reyndi að koma í veg fyrir þetta en ég var of seinn. Þetta gerði hann til að athuga hvort hann gæti náð utan um Chris til að ná kastinu.“

Þetta er eitt frægasta atvik í sögu glímunnar og kallað The Hug. Dietrich vissi þarna að hann gæti náð utan um Taylor og gat því farið í þetta fræga kast. Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

Heimild: Kyle Klingman

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular