Argentínumaðurinn sívinsæli Santiago Ponzinibbio er enn án andstæðings eftir að Rafael dos Anjos fékk óvæntan andstæðing. Rafael dos Anjos mætir Kevin Lee í maí og situr Ponzinibbio því eftir með sárt ennið.
Ponzinibbio hefur lengi verið að eltast við bardaga gegn dos Anjos. Ponzinibbio sigraði síðast Neil Magny í nóvember á heimavelli og hefur unnið sjö bardaga í röð. Í janúar sagði hann í viðtali við MMA Fighting að dos Anjos væri sá andstæðingur sem hann vildi berjast við.
Ponzinibbio vildi fá dos Anjos í Argentínu í nóvember en eiginkona dos Anjos var barnshafandi og vildi dos Anjos ekki yfirgefa konuna sína til að fara alla leið til Argentínu á þeim tímapunkti. Hann tók því frekar bardaga gegn Kamaru Usman í Las Vegas.
Eftir sigur Ponzinibbio á Magny óskaði hann aftur eftir því að berjast við dos Anjos en það verður ekkert úr því. Nú segir dos Anjos að Ponzinibbio hafi hafnað því að berjast við Darren Till í mars í London.
People keep telling me to fight Ponzinibio, I wanted that fight too but he turned down Till in London now UFC don’t want to give him anybody higher than him on the rankings.Thats not my fault, i’m an employee and I follow orders.
— Rafael dos Anjos (@RdosAnjosMMA) March 24, 2019
Fyrr á árinu sagði Stephen Thompson að Ponzinibbio hafi hafnað bardaga gegn sér og því hafi Thompson barist við Anthony Pettis sem berst að öllu jöfnu í léttvigt. Darren Till fékk síðan Jorge Masvidal í London þar sem Masvidal rotaði Till.
Ponzinibbio virðist því hafa hafnað tveimur bitastæðum bardögum til þess eins að berjast við dos Anjos. Að sögn dos Anjos ætlar UFC að refsa honum með því að bjóða honum aðeins andstæðinga sem eru neðar en hann á styrkleikalistanum. Ponzinibbio hefur nú lýst því yfir að hann vilji mæta Tyron Woodley en Argentínumaðurinn er í 8. sæti á styrkleikalistanum.
Sjálfur mun Rafael dos Anjos mæta Kevin Lee í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Rochester þann 18. maí. Þetta verður fyrsti bardagi Lee í veltivigt en hann hefur alla tíð barist í léttvigt.