Fyrir skömmu lenti MMA goðsögnin og fyrrverandi léttþungavigtarmeistari UFC, Mauricio „Shogun“ Rua í þeirri skelfilegu upplifun að vera rændur af fjórum mönnum sem voru vopnaðir rifflum. Þessi reynsla hefur vakið hann til umhugsunar um stöðu mála í heimalandi sínu.
Þann 27. apríl síðastliðinn borðaði Shogun kvöldmat með umboðsmanni sínum og UFC-bardagamanninum Demain Maia í Barra da Tijuca í Rio de Janeiro. Þegar hann var á leið heim til Niteroi, sem er borg í Rio de Janeiro-ríki, var hann rændur. Hann var um einn og hálfan kílómetra frá Rio-Niteroi brúnni þegar glæpamenn neyddu hann til að stöðva bílinn.
„Ég var í myndatöku fyrir Venum með Jose Aldo og vinur minn, Pixote, skutlaði mér,“ sagði Rua. „Eftir það sóttum við Eduardo (umboðsmann Rua) og Demian á hótelinu þeirra og fórum í kvöldmat á veitingahúsi. Við horfðum á UFC og skildum þá svo eftir á hótelinu þeirra,“ sagði Rua.
„Pixote var að skutla mér heim þegar bíll stoppaði fyrir framan okkur og fjórir menn með byssur stukku út. Við gátum ekkert gert. Þeir sögðust vita hver ég væri og að ég ætti ekki að reyna neitt. Ég skildi allt eftir í bílnum. Ég hugsaði um að ná í veskið og símann en þeir hefðu kannski haldið að ég væri að sækja byssu, þannig að ég skildi allt eftir. Við þurftum svo að labba rúma 3 kílómetra að næstu lögreglustöð.“ Rua segist feginn að enginn meiddist.
Öruggt yfir HM, en hvað svo?
Rua segir að án efa verði mikið af auka öryggisráðstöfunum í gangi á meðan heimsmeistaramótið í knattspyrnu fer fram í Brasilíu í sumar en hann veltir fyrir sér hvað gerist eftir mótið.
„Það verður öruggt hér á meðan HM er í gangi, því það verður meira af lögreglumönnum og hermönnum á götunum, en hvað svo?“ spyr Shogun. „Hvað með afganginn af ævi okkar? Verður þetta eins og í dag? Það er enginn tilgangur í að vera með sérstaka áætlun í gangi á meðan HM fer fram og enda hana svo. Við borgum skatta til að fá öryggi allt árið, ekki bara í einn mánuð á meðan HM stendur yfir.“
Rua kennir brasilísku ríkisstjórninni um glæpina í Brasilíu: „Í landi eins og Brasilíu, þar sem leysa þarf alvarleg vandamál tengd glæpum, ofbeldi og heilbrigðisþjónustu, eyðir ríkisstjórnin peningum í íþróttir. Þeir nota peningana ekki á réttan hátt í Brasilíu. Ríó og Sao Paulo eru hættulegustu borgirnar, en allt landið er hættulegt.“