Annað bardagakvöldið af þremur þessa helgina fer fram í kvöld og birta pennar MMA Frétta spá sína fyrir TUF Finale.
Titilbardagi í strávigt kvenna: Joanna Jedrzejczyk gegn Claudia Gadelha
Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður drullu jafnt og skemmtilegt. Ég gæti trúað því að Claudia eigi eftir að byrja mjög vel og vera jafnvel yfir á stigum eftir þrjár lotur. Joanna Champion hefur hins vegar stærra vopnabúr og nær að halda bardaganum standandi. Claudia þreytist og Joanna sigrar síðustu tvær loturnar sem færir henni sigur eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Þetta var mjög jafnt síðast svo spurningin er hver er orðin betri síðan þá. Ég ætla að veðja á JJ, hún hefur barist oftar og litið mjög vel út. Joanna Champion á stigum.
Brynjar Hafsteins: Ef þú ert Muay Thai eða sparkbox aðdáandi þá ertu aðdáandi Joanna Jedrzejczyk. Gullfalleg tækni. Fyrri bardaginn var gríðarlega spennandi en mér fannst þá og finnst núna Joanna hafa yfirburði standandi og það er erfitt að taka hana niður. Joanna eftir dómaraúrskurð.
Joanna Jedrzejczyk: Pétur, Óskar, Brynjar.
Claudia Gadelha: …
Léttvigt: Will Brooks gegn Ross Pearson
Pétur Marinó Jónsson: Það gerist alltaf eitthvað óvænt og þó að ég hafi mikla trú á Will Brooks í UFC held ég að hann tapi óvænt hér í kvöld. Hector Lombard og Eddie Alvarez töpuðu báðir sínum fyrsta bardaga í UFC eftir að hafa komið úr Bellator og ég held að það sama verði upp á teningnum núna. Pearson er góður bardagamaður, nær að halda þessu standandi og sigrar á stigum.
Óskar Örn Árnason: Pearson er grótharður en Brooks á að vinna þennan bardaga. Ef hann lendir í vandræðum standandi, sem er ekki ólíklegt, ætti hann að geta tekið Pearson niður og glímt hann í drasl. Brooks á stigum.
Brynjar Hafsteins: Pearson er mjög skemmtilegur bardagamaður og er svona pínu lyklapétur fyrir þá bestu í léttvigtini. Hann er með tæknilegt box sem getur reynst Brooks erfitt ef hann Brooks setur ekki saman spörk, fellur og box. Ef Brooks berst sinn bardaga þá sigrar hann á uppgjafartaki í 2 lotu.
Will Brooks: Óskar og Brynjar.
Ross Pearson: Pétur.