spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 205

Spá MMA Frétta fyrir UFC 205

UFC 205 fer fram í kvöld eins og flestum ætti að vera kunnugt um. Líkt og fyrir öll stóru bardagakvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.

conor McGregor Eddie Alvarez UFC New York

Titilbardagi í léttvigt: Eddie Alvarez gegn Conor McGregor

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður svo rosalegur bardagi! Gæti farið á alla vegu en held að þetta verði svipað og bardaginn gegn Chad Mendes. Alvarez á eftir að ná að gera sitt, þjarma Conor að búrinu, nota dirty boxing, ná jafnvel 1-2 fellum upp við búrið en Conor mun samt ráða ágætlega við það og koma sínum höggum inn. Sé fyrir mér að Conor muni nota hliðarspörk og framspörk til að halda Alvarez frá sér sem mun virka nokkuð vel og svo mun hann finna opnun fyrir þessa vinstri hönd sína. Alvarez er oft kýldur niður og ég held að Conor muni kýla hann niður í 1. lotu. Harðjaxlinn Alvarez lifir af en Conor kýlir hann svo aftur niður í 2. lotu og þá mun Conor klára bardagann. Þetta verður erfiður bardagi en Conor mun standa uppi sem sigurvegari. Conor McGregor eftir TKO í 2. lotu og verður þar með tvöfaldur meistari.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að þetta sé ágætis match-up fyrir Conor. Ég gæti trúað að við sjáum varkáran Alvarez sem vill draga þennan bardaga aðeins á langinn og láta reyna á þolið hjá McGregor. McGregor reynst hins vegar of nákvæmur fyrir Alvarez og klárar hann með TKO í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Er að pissa á mig er svo spenntur. Það er svo mikið undir. Ég á persónulega eftir að vera skjálfandi af stressi. Ég held að Conor hafi svolítið endurhugsað nálgunina sína þegar kemur að undirbúningi fyrir bardaga og við munum sjá hann mæta til leiks með leikáætlun í stað þess að hann mæti bara til að head-hunta þó það verði áfram aðalmarkmiðið. Held að Conor sé agaðri og rólegri og taki sér tíma til að koma sér ekki í slæma stöðu. Eddie er hins vegar trukkur. Ef hann finnur lyktina af blóði þá setur hann í næsta gír. Hann er samt smá opinn fyrir höggum og hikar ekki við að taka við einu til að hitta tveimur. Það verður honum að falli og Conor nær að vera hreyfanlegur og koma inn höggum. Eddie mun ekki geta notað glímuna sína eins mikið og hann myndi vilja. Conor brýtur hann niður og sigrar með TKO í 3 lotu.

Óskar Örn Árnason: Stór viðburður í hvert sinn sem Conor berst og sérstaklega núna. Eddie Alvarez er ekkert grín. Hann er með mikla reynslu, getur slegið og glímt og er með gott úthald. Veikleikinn hans hefur stundum verið sá að hann getur verið villtur en berjist hann agað er mjög erfitt að eiga við hann. Þetta gæti orðið mjög langt kvöld fyrir Írann en segjum að ævintýrið haldi áfram og að Conor roti Eddie Alvarez í annarri lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Jólin eru komin, er búinn að bíða eftir þessum bardaga eins og lítið barn. Ég hef trú á að þetta geti verið einn af bestu bardögum ársins. Conor hlýtur að ætla að nota Cerrone vs. Alvarez sem blueprint fyrir þennan bardaga – nota faðminn og nákvæmnina til að taka Alvarez í sundur. Alvarez er skuggalegur sjálfur og mun væntanlega reyna clinch-a við Conor, ná honum niður og testa þolið hans. Ég held hins vegar að Alvarez á það til að taka við miklum skaða snemma og byrjar seint og það muni verða honum að falli. Conor er það höggþungur að hann mun nýta sér það og vera óhræddur að fara í jörðina með honum. Conor TKO í annarri lotu.

Eddie Alvarez:
Conor McGregor: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar, Sigurjón.

ufc-205-woodley-thompson-poster-660x330

Titilbardagi í veltivigt: Stephen Thompson gegn Tyron Woodley

Pétur Marinó Jónsson: Ég á hrikalega erfitt með að spá fyrir þennan bardaga. Engum nema Matt Brown fyrir 100 árum síðan hefur tekist að stöðva hinn 33 ára Wonderboy og hefur hann bætt sig mikið síðan þá. Margir hafa reynt en fáum tekist að leysa þessa ráðgátu. Tyron Woodley hefur verið að æfa með mörgum karate strákum (ekki bara Sage Northcutt) og gæti verið fáranlega vel undirbúinn í þetta. Ég held að Tyron Woodley geti rotað Thompson með bombu líkt og hann gerði við Lawler en mér finnst líklegra að Thompson geri þetta svipað og gegn Rory MacDonald. Thompson sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er búinn að vanmeta Wonderboy allan hans UFC feril og alltaf verið að bíða eftir að hann verði exposed. Nú held ég að það sé kominn tími til að stökkva á Wonderboy lestina. Matt Brown sýndi lykilinn að því hvernig á að sigra Wonderboy en ég held að hann sé búinn að bæta sig mikið síðan. Hann sigrar með headkick KO í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Næstum því uppáhalds bardaginn minn í kvöld. Nær Woodley að halda sér nálægt Wonderboy og grinda upp við búrið eða ná honum niður? Nær Wonderboy að halda fjarlægðinni og koma inn þessum höggum og spörkum og hægt og rólega brjóta Woodley niður eins og hann gerði á móti Rory McDonald? Woodley getur samt alltaf náð inn einni bombu eins og á móti Robbie Lawler. Erfitt. Ég ætla að synda á móti straumnum og giska á að Tyron Woodley haldi beltinu. KO/TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Er Tyron Woodley bara önnur útgáfa af Johnny Hendricks? Ef svo er þá verður þetta auðvelt fyrir Thompson. Woodley er skarpur náungi og hann veit að glíman er hans besta vopn í þessum bardaga. Hann mun skjóta og gera það snemma. Spurningin verður því, getur Thompson haldið þessum bardaga standandi? Þetta mun taka smá tíma en Thomspon sigrar að lokum á tæknilegu rothöggi, segjum í þriðju lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Woodley þarf að sýna að síðasti bardagi hafi ekki verið heppni, að hann sé eitthvað meira en wrestler með sterka hægri. Thompson er með svakalegt striking og snillingur að halda fjarlægð. Woodley þarf að finna leið til að ná að komast að Thompson og ná honum niður. Held hins vegar að Thompson muni halda fjarlægðinni og klára Woodley í 3. lotu.

Tyron Woodley: Arnþór
Stephen Thompson: Pétur, Guttormur, Óskar, Sigurjón.

205_boutann_jjkk_1024x512_eng

Titilbardagi í strávigt: Joanna Jedrzejczyk gegn Karolina Kowalkiewicz

Pétur Marinó Jónsson: Frammistöða Karolinu í UFC hafa ekki verið neitt alltof sannfærandi að mínu mati. Höggin hennar virka hálf máttlaus og það er eitthvað sem vantar. Ég held að þetta verði hálfgert rúst, með fullri virðingu fyrir Karolinu, og Joanna klárar þetta með TKO í 3. lotu eftir gríðarlega sannfærandi frammistöðu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég fíla þær báðar en ég held að Joanna sé of góð fyrir hana. Joanna hefur litið rosalega vel út undanfarið og ég efast um að Karolina sé tilbúin. Joanna sigrar á stigum í skemmtilegum bardaga.

Arnþór Daði Guðmundsson: Pólland vs. Pólland. Þetta er næstum eins og Joanna sé að fara að slást við ódýru útgáfuna af sjálfri sér. Ég hugsa að Joanna haldi sig bara á sömu braut og hún hefur verið á og tuski Karolinu aðeins til. Hún er eins nákvæm og skurðlæknir með höggin sín. Held samt að Karolina sé hörð og haldi út allar fimm loturnar. Joanna tekur þetta örugglega eftir dómaraákvörðun, 50-45 eða 49-46.

Óskar Örn Árnason: Það eru kannski ekki margir sem gefa Karolina Kowalkiewicz mikla möguleika gegn meistaranum Joanna Jędrzejczyk en eftir endalausa röð óvæntra úrslita er ljóst að það eina sem maður veit er að maður veit ekki neitt. Kowalkiewicz er góð en hún virkar ekki tilbúin í mannlega splípirokkinn. Jędrzejczyk sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Jedrzejczyk er þvílíkur töffari og ég hef mjög gaman af henni. Þær eru búnar að mætast einu sinni áður í áhugamannabardaga og þar vann Jedrzejczyk. Ég held að það hafi lítið breyst síðan þá. Því miður held ég að Kowalkiewicz eigi engin svör og munum við sjá Jedrzejczyk outstrike-a Kowalkiewicz. Joanna með TKO í 4. lotu.

Joanna Jedrzejczyk: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar, Sigurjón.
Karolina Kowalkiewicz: ..

weidman-romero

Millivigt: Chris Weidman gegn Yoel Romero

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mikill Chris Weidman maður og held að þetta verði erfiður bardagi. Enn einn 50/50 bardaginn á kvöldinu. Ég held að Romero eigi eftir að byrja þetta vel, jafnvel meiða Weidman í 1. lotu með bombu, en Weidman kemur til baka. Weidman tekur lotu tvö og þrjú eftir vandræði í 1. lotu og sigrar þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er örugglega sá bardagi sem ég er spenntastur fyrir, að undanskildum McGregor-Alvarez. Romero er algjört beast en þetta er erfitt match-up fyrir hann. Ég sé ekki fyrir mér að hann sé að fara að out-wrestla Weidman og ég gruna að hann sé lakari standandi einnig. Weidman sigrar á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Virkilega áhugaverður bardagi. Ef þú hélst að Weidman hefði vinninginn í líkamlegu atgervi eða wrestling þá máttu labba út. Romero er frík. Kannski verður ring rust í gangi hjá Romero og kannski er Weidman ennþá að jafna sig eftir tapið á móti Luke Rockhold. Þetta kemur allt í ljós. Weidman er skuggalega hægur á meðan sprengikrafturinn hjá Romero er eins og dýnamít. Hendurnar hans eru það líka, erfiður bardagi að skora. Ég er smá skotinn í Weidman og held að þolið hans sé betra og hann þreyti Romero. Weidman eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er mjög áhugaverður bardagi þar sem báðir eru frábærir glímumenn sem hafa þróast út í elítu MMA bardagamenn. Weidman er þekktur fyrir ómannlega hörku en Romero er eins og mannleg górilla. Hjartað segir Weidman en ég óttast að þungar hendur Romero munu finna höku hans frekar snemma. Romero sigrar á rothöggi í 2. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Þetta er einn af aðalbardögunum á þessu bardagakvöldi að mínu mati. Weidman þarf að vinna þennan bardaga til að vera relevant í titillmyndinni í þessum þyngdarflokki á meðan Romero þarf að koma til baka eftir bann og sýna að hann eigi skilið bardaga við Bisping. Romero er þvílíkur wrestler og mun án efa reyna að nota það. Weidman er hins vegar mjög góður wrestler sjálfur auk þess er hann með jiu-jitsu í heimsklassa og með gott striking. Weidman mun halda þessum bardaga uppi og mun vinna hann á dómaraákvörðun.

Chris Weidman: Pétur, Guttormur, Arnþór, Sigurjón.
Yoel Romero: Óskar.

tate-pennington

Bantamvigt kvenna: Miesha Tate gegn Raquel Pennington

Pétur Marinó Jónsson: Raquel Pennington hefur sýnt miklar framfarir á undanförnum árum og unnið þrjá í röð. Ég held þó að það sé stórt bil á milli þeirra sem eru topp 5 í þyngdarflokknum (Tate, Rousey, Nunes og co) og þeirra sem eru þar fyrir utan. Pennington er þar fyrir utan og held ég að þetta verði öruggur sigur fyrir Tate. Miesha Tate sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Tate virðist vera þessi týpa sem sigrar alla í sínum þyngdarflokki en er ekki alveg nógu góð til að vera meistarinn, svona kvenkyns Urijah Faber. Tate sigrar Pennington örugglega með armbar í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Held að Tate sé betri wrestler og hafi vinninginn þar þó þær séu báðar góðar í gólfinu. Tate nær að halda sér ofan á en ef bardaginn verður standandi þá fer það bara eftir því hvor er heppin. Held að Tata sé einfaldlega bara of góð fyrir Pennington. Ekta bardagi sem fer allar loturnar. Langar samt að fá finish og mitt gisk er Tate eftir uppgjafartak í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Miesha Tate sigar örugglega eftir dómaraákvörðun.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Tate hefur mikla reynslu fram yfir Pennington. Þær eru báðar góðar í gólfinu en held að Tate sé betri wrestler og hafi auk þess betra striking en Pennington. Tate mun nýta sér þessa reynslu, halda bardaganum uppi og vinna á dómaraákvörðun.

Miesha Tate: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar, Sigurjón.
Raquel Pennington:

khabib-johnson

Léttvigt: Khabib Nurmagomedov gegn Michael Johnson

Pétur Marinó Jónsson: Ég er spenntur fyrir því að sjá Khabib aftur en finnst eins og hann verði að gera eitthvað rosalegt í kvöld til að fá þennan titilbardaga sem hann talar svo mikið um. Að mínu mati er Tony Ferguson á undan honum í röðinni en nóg um það. Michael Johnson er frábær bardagamaður og gæti valdið Khabib meiri vandræðum en maður heldur. Ég vona að þetta verði hörku bardagi en ef Khabib er í sama formi og hann var þegar hann tók Rafael dos Anjos í kennslustund þá á hann að taka þetta. Khabib sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Annar bardagi sem ég held að verði virkilega spennandi. Annað hvort er Khabib að fara að kasta Johnson um búrið eins og tuskudúkku eða Johnson er að fara að útboxa Khabib í þrjár lotur. Óskhyggjan segir að hið fyrra muni eiga sér stað. Khabib sigrar örugglega eftir dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég held að Khabib sé of sterkur fyrir Johnson. Bardaginn helst standandi í mínútu áður en Khabib stekkur á hann og rífur Johnson niður í gólfið og mýkir hann aðeins upp með höggum. Sama saga í næstu lotu. Khabib TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Khabib er almennt viðurkenndur sem sá besti í léttvigt en það má ekki gleyma því að um tvö og hálft ár eru síðan hann sigraði Rafael dos Anjos. Síðan þá hefur hann barist við meiðsli og sigrað Darrell Horcher sem átti ekkert erindi í þann bardaga. Við vitum hverju búast má við frá Johnson en í hvaða standi er Nurmagomedov þessa dagana? Það er spurningin. Þetta verður erfiðara en marga grunar en Khabib mun nota glímuna og tryggja sér sigur á stigum.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Nurmagomedov er skrímsli og að mínu mati ókrýndur meistari í þessum þyngdarflokki. Eina spurningin er hvort að hann sé búinn að vera of lengi frá og hvernig þessi meiðsli hafi haft áhrif á hann. Johnson er að koma sterkur til baka eftir tapið á móti Diaz og sýndi á móti Poirier hvað hann er með fáranlega hraðar hendur og höggfastur. Því miður fyrir Johnson þá held ég að hann muni ekki ná að halda fjarlægð og muni Nurmagomedov taka hann niður eins og honum sýnist. Nurmagomedov vinnur á dómaraákvörðun eða death by suplex.

Khabib Nurmagomedov: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar, Sigurjón.
Michael Johnson: ..

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular