spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 218

Spá MMA Frétta fyrir UFC 218

UFC 218 fer fram í nótt þar sem þeir Max Holloway og Jose Aldo mætast í aðalbardaga kvöldsins. Hörku bardagar verða á dagskrá og líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fjaðurvigt: Max Holloway gegn Jose Aldo

Pétur Marinó Jónsson: Endurtekið efni og stutt síðan við sáum þennan bardaga. Fyrri bardaginn var mjög skemmtilegur og jafn framan af. Aldo átti alveg sín augnablik en síðan tók Holloway bara yfir og hrökk í gang. Á þessu stigi ferilsins býst maður bara við að Aldo dali meira og meira á meðan Holloway heldur áfram að bæta sig. Bilið ætti því að verða stærra núna en í sumar. Það er samt kjánalegt að afskrifa Jose Aldo alveg. Maður heldur að hann sé búinn, hungrið farið og skrokkurinn bara ekki sá sami eftir marga erfiða bardaga.

Aldo er stærsti underdog-inn á aðalhluta bardagakvöldsins en það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Við höfum séð menn rífa sig upp úr lægð og ná fyrri hæðum (Robbie Lawler) en mun algengara að sjá menn dala meira. Ég er smá hræddur um að sigurinn hjá Holloway verði enn meira sannfærandi núna en síðast enda hefur harða hakan hans Aldo dalað. Holloway tekur þetta með TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Ég hugsa að Aldo gæti komið mörgum á óvart, sérstaklega ef það er rétt sem sagt er að hann gat ekki sparkað síðast en muni bæta úr því núna. Aldo mun byrja vel (aftur) en niðurstaðan verður sú sama. Holloway kemur sterkur inn um miðjan bardagann og afgreiðir Aldo með höggum í þriðju eða fjórðu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Jæja, endurat sem fáir voru spenntir fyrir. A.m.k. var ég mun spenntari fyrir Holloway – Edgar. En gerum það besta úr þessu. Aldo er ennþá frábær bardagamaður og sagan segir að hann hafi verið meiddur í síðasta bardaga þeirra og ekki getað notað spörk eða fellurnar í fyrri bardaganum. Aldo hefur einnig verið sprækur í að koma sterkari í enduratinu gegn fyrri andstæðingum sínum (Edgar og Mendes). Hins vegar er Holloway alltaf að verða sterkari og sterkari og lítur betur út í hvert einasta skipti sem hann berst. Ég geri ráð fyrir því að útkoman verði sú sama og í fyrri bardaganum. Aldo byrjar vel en Holloway tekur yfir þegar líða fer á bardagann. Holloway sigrar eftir dómaraákvörðun.

Max Holloway: Pétur, Óskar, Arnþór
Jose Aldo:

Þungavigt: Francis Ngannou gegn Alistair Overeem

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður rosalega spennandi. Ég held að þetta eigi eftir að byrja smá rólega. Overeem á eftir að vera mjög hreyfanlegur fyrstu lotuna, gera bara nánast ekki neitt nema að hringsóla í kringum Ngannou. Það verður planið hans en svo í 2. lotu fer hann að reyna að ná clinchinu meira og koma með nokkur hné þar. Planið mun ganga upp hjá Overeem þangað til Ngannou hittir beint á kjammann með vel tímasettu höggi. Ég trúi því að Ngannou sé sérstakur efniviður. Ngannou klárar Overeem með TKO seint í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þessi bardagi ætti að segja okkur hvort Ngannou sé bara enn einn ágætis þungavigtarkappinn eða hvort hann sé framtíðar meistari og stjarna. Overeem gæti hæglega unnið þennan en við skulum spá Ngannou sigri í annarri lotu, rothögg.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta er bardagi sem getur farið á tvo vegu. Annars vegar getur Overeem mætt og verið tæknilegur, haldið fjarlægðinni og unnið Ngannou á stigum. Hins vegar getur Overeem mætt í hringinn, sleppt allri leikáætlun og Ngannou rænir sálinni hans með rothöggi í fyrstu lotu.
Mér finnst seinni kosturinn líklegri.

Francis Ngannou: Pétur, Óskar, Arnþór
Alistair Overeem:

Fluguvigt: Henry Cejudo gegn Sergio Pettis

Pétur Marinó Jónsson: Ég var mjög hrifinn af því sem Henry Cejudo var að gera í sínum síðasta bardaga. Ég hef lengi beðið eftir því að hann springi út og komi með alvöru frammistöðu en mér fannst hún koma gegn Wilson Reis. Ég vona að hann haldi áfram á sömu braut og ætla bara að reikna með því. Cejudo kemur inn með geggjaða frammistöðu og klárar Pettis með TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Mikilvægur bardagi í fluguvigt og ætti að skera úr um hver fær að berjast við DJ ef samningar nást ekki við TJ. Cejudo tekur Pettis í gegn með fléttum og fellum og sigrar örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Mikilvægur bardagi í fluguvigtinni. Sigurvegarinn ætti að fá titilbardaga ef TJ fær hann ekki. Cejudo hefur tapað áður gegn Mighty Mouse, en litið vel út síðan, og sérstaklega gegn Wilson Reis. Pettis hefur verið á ágætis siglingu, en ég held að Cejudo sé of sterkur andstæðingur, með gott box og heimsklassa wrestling.

Henry Cejudo: Pétur, Óskar, Arnþór
Sergio Pettis:

Léttvigt: Eddie Alvarez gegn Justin Gaethje

Pétur Marinó Jónsson: Þvílík vitleysa sem þessi bardagi er! Eins og að setja Mentos í Diet Coke! Þetta verður bara rugl, menn að kýla hvorn annan og hrynja í gólfið. Ætla ekki að koma með einhverja tæknilega spá. Það er bara eitthvað að fara að gerast og verður algjör ringulreið eins og Joe Rogan orðaði það. Ætla að segja að Gaethje detti minna í gólfið og vinnur á TKO. Myndi segja í 2. lotu en sé núna að allir bardagarnir hjá mér enda með TKO í 2. lotu. Segjum þá bara TKO sigur í 1. lotu hjá Justin Gaethje.

Óskar Örn Árnason: Meðbyrinn er með Gaethje en ég ætla að taka séns á Eddie Alvarez. Þetta getur ekki orðið annað en stríð og sennilega einn besti bardagi ársins. Spái því að báðir verði vankaðir en endar með því Alvarez rotar Gaethje í þriðju lotu og minnir hressilega á sig.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta er virkilega spennandi bardagi. Alvarez hefur aðeins barist einu sinni síðan hann tapaði léttivigtartitlinum til Conor McGregor en það var bardagi sem var dæmdur ógildur vegna ólöglegra hnésparka. Gaethje er ósigraður á ferlinum (18-0) og er spennandi andstæðingur gegn Alvarez. Alvarez sigrar eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Eddie Alvarez: Óskar, Arnþór
Justin Gaethje: Pétur

Strávigt kvenna: Tecia Torres gegn Michelle Waterson

Pétur Marinó Jónsson: Ég held meira með Waterson heldur en Torres. Finnst eins og Torres hafi alla burði til að verða mjög skemmtileg bardagakona en finnst hún of oft spila þetta öruggt. Torres mun nota yfirburðar styrk sinn í að halda Waterson upp við búrið og skora nokkur stig þar. Waterson mun hafa fá svör við því og Torres tekur þetta eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Góð byrjun á geggjuðu kvöldi. Bardagi sem ætti að verða fjörugur. Á pappír virkar þetta nokkuð jafn bardagi, gæti sveiflast í báðar áttir. Ég held samt að Torres sé hreinlega betri, held að hún taki þetta á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Michelle Waterson leit vel út þegar hún sigraði Paige VanZant en tapaði síðan fyrir ríkjandi fluguvigtarmeistaranum, Rose Namajunas. Torres hefur einnig tapað fyrir Rose en litið ágætlega út síðan. Hef ekkert mikið um þennan bardaga að segja en mér finnst líklegt að Torres sigri á einróma dómaraákvörðun.

Tecia Torres: Pétur, Óskar, Arnþór
Michelle Waterson:

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular