spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 228

Spá MMA Frétta fyrir UFC 228

UFC 228 fer fram í nótt þar sem hörku bardagar verða á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í veltivigt: Tyron Woodley gegn Darren Till

Pétur Marinó Jónsson: Erfitt að segja fyrir þennan bardaga og 50/50 bardagi að mínu mati sem er alltaf spennandi. Tyron Woodley er auðvitað með þennan wrestling bakgrunn sem hann hefur lítið sýnt í UFC og spurning hvort hann muni nota fellurnar meira núna. Við höfum heldur aldrei séð Till á móti svona wrestler eins og Woodley. Tyron er oft vanmetinn, hann er underdog núna líkt og í öllum titilbardögum sínum nema á móti Maia. Hann er auðvitað svo óvinsæll og held það liti smá spána hjá mörgum (og þar á meðal hjá mér). Tyron er með þennan mikla sprengikraft í svona 7-8 mínútur, svo er mesta sprengjan farin. Till þarf að passa sig fyrstu tvær loturnar, þreyta Woodley og halda sér standandi. Ef hann getur látið Woodley hafa mikið fyrir þessu fyrstu tvær loturnar, sparkað og kýlt í magann og dregið þetta í seinni loturnar held ég að hann eigi góðan séns á sigri. Ég verð samt að viðurkenna að ég er alltaf að bíða eftir því að Darren Till verði svona exposed. Að hann sé ekkert svona góður og muni enda sem svona miðjumoðs gaur í millivigt. Held þetta verði ágætis bardagi þar sem Till vinnur eftir dómaraákvörðun í frekar jöfnum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er rosa hræddur um að þetta verði endurtekning á Woodley-Thompson eða Till-Thompson. Báðir munu byrja mjög varkárir og ég held að þetta fari allar fimm loturnar. Mér finnst einhver meðbyr með Till og ég hugsa að stíllinn hans henti ágætlega gegn Woodley; risastór og langur og virðist vera með fína felluvörn. Till heldur fjarlægð og sigrar þetta eftir klofna dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Geggjaður titilbardagi ef þeir verða ekki of passívir eins og hætta er á. Held samt að Till muni taka sénsa en T-Wood mun svara með bombum og fellum. Till er líklegur en ég vel samt Wooodley, hann finnur leið til að sigra á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Maður er búinn að vera milli heims og helju að sjá hvort að Darren Till muni ná vigt fyrir bardagann og gefur okkur svo bara puttann í vigtuninni og vigtar 169 pund. Hann er samt alltof stór fyrir veltivigtina og ætti ekki að eiga nema 2-3 bardaga eftir þar. Þetta verður áhugaverður bardagi fyrir margar sakir. Stærðarmunurinn er mikill á þeim, Till hefur sýnt að hann kemst í gegnum 5 lotur og hann er ekki alveg eins varkár og Stephen Thompson. Ef Till leyfir Woodley ekki að stjórna bardaganum á eigin hraða þá gætum við mögulega fengið að sjá nýjan meistara. Woodley hefur tvö vopn, fellurnar og hægri hendina. Hann hefur ekki mikið verið að nota wrestling-ið á síðustu árum en það gæti verið vopn í þessum bardaga. Verum bjartsýn og vonum að Till sigri og hristi aðeins upp í veltivigtarflokknum. Till sigrar á dómaraákvörðun.

Tyron Woodley: Óskar
Darren Till: Pétur, Guttormur, Arnþór

Strávigt kvenna: Karolina Kowalkiewicz gegn Jessica Andrade

Pétur Marinó Jónsson: Tvær mjög öflugar í strávigtinni. Báðar eru með tvo sigra í röð en Andrade hefur unnið öflugri stelpur en Karolina. Þetta verður líka áhugavert ef þetta dregst á langinn þar sem Jessica byrjar mjög geyst á meðan Karolina er dálítið lengi í gang og verður betri eftir því sem líður á bardagann. Jessica kýlir og kýlir en Karolina er hörð og stendur þetta allt af sér. Það verður samt ekki nóg og vinnur Jessica þetta á stigum, 29-28.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að Andrade sé of stór biti fyrir Karolinu. Hún sýndi góða takta gegn Teciu Torres í seinasta bardaga og ég held að hún gæti gert atlögu að titilinum á næstu misserum. Andrade með TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Spennandi bardagi, sigurvegarinn ætti að fá Rose í vetur svo það er mikið í húfi. KK hefur unnið Rose en ég held að hún komist ekki framhjá pressu Andrade. Andrade nagar KK niður og sigrar á TKO í þriðju lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Áhugaverður bardagi í strávigtinni og gæti skorið úr um það hvor þeirra fær næsta tækifæri gegn Rose Namajunes. Andrade er eins og bolabítur og vill reyna að rota Karolinu á meðan Karolina er teknískari. Ég reikna með að Andrade nái inn bombu og klári Karolinu með höggum í gólfinu. Andrade sigrar með TKO í 3. lotu.

Karolina Kowalkiewicz:
Jessica Andrade: Pétur, Guttormur, Óskar, Arnþór

Fjaðurvigt: Zabit Magomedsharipov gegn Brandon Davis

Pétur Marinó Jónsson: Mjög svekkjandi að Yair Rodriguez skyldi hafa dottið út. Mann langar að sjá Zabit á móti alvöru andstæðingi, helst bara topp 10 bardaga strax. Ég held að Zabit sé pottþétt tilbúinn í topp 10 en er ekki alveg sannfærður um að hann verði einhver meistari. Þess vegna langar mig að sjá hann vera aðeins testaðan, sjá úr hverju hann er gerður í alvöru bardaga. Ég held að hann smashi bara Brandon Davis og klárar hann með rear naked choke í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Langt síðan að ég hef verið jafn spenntur fyrir bardagakappa eins og Zabit. Ég er að vona að hann setji á wrestling clinic og kasti Davis eins og brúðu um búrið. Fái svo alvöru topp 10 bardaga næst. Zabit sigrar eftir TKO í þriðju.

Óskar Örn Árnason: Hrikalega ánægður með Davis að taka þennan bardaga. Þetta verður alveg smá erfitt en Zabit er bara of góður. Rússinn tekur þetta á uppgjafartaki í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég get alveg viðurkennt það að Zabit er búinn að vinna mig yfir og ég er þvílíkt spenntur að sjá hann aftur. Leit hrikalega vel út í síðasta bardaga og átti svo að fá gott próf á móti Yair Rodriguez en súrt að sjá þann bardaga detta út. Við verðum bara að fagna því að sjá hann yfirhöfuð og gerum ráð fyrir því að hann sé að fara að kjöldraga Davis og vinna öruggan sigur á uppgafartaki í 2. lotu.

Zabit Magomedsharipov: Pétur, Guttormur, Óskar, Arnþór
Brandon Davis:

Bantamvigt: Jimmie Rivera gegn John Dodson

Pétur Marinó Jónsson: Þoli ekki John Dodson. Það er eitthvað við hann sem fer í mínar fínustu. Þetta eru tveir kubbar en Rivera er meiri kubbur og tekur þetta eftir dómaraákvörðun í fínum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Rivera var á svaka skriði áður en hann tapaði fyrir Marlon Moraes í síðasta bardaga. Var búinn að vinna 19 í röð og sigra menn eins og Urijah Faber og Thomas Almeida. Ég held að Dodson eigi eftir að lenda í vandræðum núna þegar hann er að eldast og fer að hægja á honum. Hann er orðinn 33 ára og reiðir sig gífurlega á hraðann. Svo hefur hann alltaf farið í taugarnar á mér svo mér leiðist ekki að veðja gegn honum. Segjum Rivera eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Dodson var alltaf gaurinn sem var á leið í beltið en ég veit ekki með það í dag. Rivera hefur verið sannfærandi fyrir utan stórt bakslag gegn Moraes. Held að Rivera taki þetta nokkuð örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Virkilega áhugaverður bardagi. Rivera var á geggjuðu runni þar til hann tapaði gegn Marlon Moraes og spurningin er hvernig það tap situr í honum. Dodson er alltaf á sínum stað og er sneggri en andskotinn. Hann verður að finna leið til að nýta hraðann gegn Rivera. Ég sé fram á að Rivera nái að loka á Dodson og knýja fram sigur á dómaraákvörðun.

Jimmie Rivera: Pétur, Guttormur, Óskar, Arnþór
John Dodson:

Veltivigt: Abdul Razak Alhassan gegn Niko Price

Pétur Marinó Jónsson: Tveir sem elska að klára bardaga sína og það er alltaf skemmtilegt. Price étur alveg ágætlega mikið af höggum og verður erfitt að lifa af ef Abdul smellhittir. Price hefur samt sýnt að hann getur oft jafnað sig eftir að hann er vankaður. Ég held hann éti bombu en nái að þrauka og klári svo Abdul í 2. lotu með uppgjafartaki.

Guttormur Árni Ársælsson: Fullkominn bardagi til að byrja þetta kvöld. Ég var mjög peppaður fyrir Alhassan eftir að hann gjörsamlega murkaði Charlie Ward en varð fyrir vonbrigðum með hann í bardaganum gegn Omari Akhmedov. Þar sýndist mér hann vera gæjinn sem er orðinn ástfanginn af höndunum sínum og gat ekki skipt um leikáætlun þegar hann var að tapa bardaganum. Svaka svart belti í júdó en ég hef bara aldrei séð hann nota það. Að því sögðu er hann auðvitað með hlægilega mikinn höggþunga eins og recordið hans sýnir. Segjum að hann haldi uppteknum hætti og roti Price í fyrstu.

Óskar Örn Árnason: Tveir skemmtilegir gaurar sem gætu orðið eitthvað. Held samt að Alhassan sé efnilegri, tek hann á 1. lotu rothöggi.

Arnþór Daði Guðmundsson: Fínasti opnunarbardagi á aðalhluta kvöldsins. Alhassan er gæji með geggjað record sem tapaði síðast á móti fyrrverandi andstæðing Gunnars Nelson, Omari Akhmedov. Recordið hans segir 9 rothögg í 9 sigrum svo það má svo sem búast við einhverri bombu. Price er síðan spennandi gæji með flott record. Hann á sigur gegn öðrum andstæðingi Gunnars, Alan Jouban.
Ég ætla að skjóta á að Price sigri með TKO í 2. lotu.

Abdul Razak Alhassan: Guttormur, Óskar
Niko Price: Pétur, Arnþór

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular