UFC 245 fer fram í kvöld þar sem þrír titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.
Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman gegn Colby Covington
Pétur Marinó Jónsson: Algjör 50/50 bardagi sem erfitt er að spá í. Báðir 15-1, báðir frábærir glímumenn, báðir pressa fram og held ég að þetta verði bara tveir hrútar sem lenda saman strax í byrjun. Þetta verður algjört grind og held að þetta verði mjög jafnt allan tímann. Hvor mun brotna fyrr? Hver nær fyrstu fellunni? Hvor nær að stjórna hinum lengur? Þetta eru spurningar sem við fáum væntanlega svör við í kvöld og get ég ekki beðið eftir að sjá það. Ég get auðveldlega séð báða vinna en tippa á Colby. Held að Colby geti gert aðeins meira standandi og í clinch baráttum sem mun skila honum fleiri lotum. Hann verður með aðeins fleiri högg í þessum stöðubaráttum sem mun skila honum sigri. Usman er samt með 100% felluvörn í UFC og þetta verður jafnt allan tímann.
Er líka smá hræddur um að Usman komi emotional inn í þennan bardaga eftir allt skítkastið frá Colby. Usman að tala um að Colby muni „feel the wrath of every immigrant in this country when I put my hands on him.“ Það er heilmikil pressa sem hann er að setja á sig og í fyrsta sinn er eitthvað meira undir fyrir hann heldur en bara að vinna bardaga. Ég held að það gæti truflað hann í bardaganum án þess að þykjast vera einhver persónulegur íþróttasálfræðingur hans. Ég tippa á Colby eftir dómaraákvörðun en get vel séð báða vinna. Það verður síðan mjög áhugavert að sjá viðbrögð þess sem tapar.
Óskar Örn Árnason: Hrikalega spennandi bardagi sem virkar í mínum augum hnífjafn á pappírunum. Colby er vinnusamari en Usman höggþyngri. Colby er sennilega tæknilega betri glímumaður en Usman er stærri og (mögulega) sterkari. Ég held að þetta fari allar fimm lotunar og veðja á að meistarinn haldi beltinu. Usman á stigum.
Guttormur Árni Ársælsson: Frábær bardagi og mjög jafn held ég. Það gleymist oft í trúðalátunum en Colby er hörku fighter – sigrar gegn Lawler, Maia og dos Anjos segja allt sem segja þarf. Usman leit frábærlega út gegn Woodley en ég held að hann muni ekki líta eins vel út gegn Colby. Á meðan Usman er kraftmeiri er Colby einn vinnusamasti bardagakappinn í UFC og þú færð aldrei sekúndu til að anda. Ég segi að Colby þreyti Usman og sigri á stigum.
Arnþór Daði Guðmundsson: Jæja, þá fáum við loksins uppgjörið sem við erum búin að bíða eftir. Eftir marga mánuði af því að hlusta á Colby drulla yfir hvaða lífveru sem er þá er hann búinn að tala sig upp í titilbardaga gegn Kamaru Usman, sem hann hefur drullað einna mest yfir. En burtséð frá þeim hluta bardagans, sem er aðdragandi og ruslatal, þá er þetta mjög spennandi og áhugaverður bardagi. Eins leiðinlegur og Colby getur verið, er ekki hægt að neita því að hann er frábær bardagamaður sem nýtir sýna styrkleika til fulls á sama tíma og hann kemur í veg fyrir að andstæðingurinn geti notað sína. Hann og Usman eru báðir glímumenn, en Colby er sennilega betri í hreinu wrestling. Hann leyfir sínum andstæðingum aldrei að ná andanum og er alltaf kominn ofan í þá að bögga þá og kaffærir þá hreinlega. Usman hefur verið að vinna sína bardaga á svipaðan hátt, nema að hans stíll byggir meira á stuttum hrinum og sprengikrafti. Það er engin leið fyrir mig að sjá hvor þeirra gæti haft betur, en ég mun ekki meika það að sjá Colby með belti aftur þannig að ég vona að Usman sigri. Usman sigrar eftir einróma dómaraákvörðun.
Kamaru Usman: Óskar, Arnþór
Colby Covington: Pétur, Guttormur
Titilbardagi í fjaðurvigt: Max Holloway gegn Alexander Volkanovski
Pétur Marinó Jónsson: Þetta er flottur bardagi og er Volkanovski flottur bardagamaður sem ég fíla. Ég hef vanmetið hann undanfarið og tippaði bæði á Mendes og Aldo þegar hann mætti þeim. Það er ástæða fyrir því að hann er 7-0 í UFC og kominn í titilbardaga. Hann er bara frábær bardagamaður sem á þennan bardaga skilið. Samt sem áður er Holloway ríkjandi meistari og ekki að ástæðulausu. Held að höggfjöldinn hjá Holloway verði Volkanovski um megn og svo er Holloway með frábæra felluvörn. Þetta veltur á því hvor nær að halda bardaganum í sinni fjarlægð. Holloway vill halda Volkanovski frá sér með beinum höggum. Volkanovski vill vera nær þar sem hann getur komið með króka í vasanum, olnboga í clinchinu og tekið Holloway niður. Það er samt tvennt við Holloway sem veldur mér áhyggjum; hann er að skera mikið niður og virðist vera sama þegar hann fær högg í sig. Hvenær verður niðurskurðurinn það erfiður að það hefur áhrif á frammistöðu hans? Hvenær fær hann það þungt högg í sig að hann rotast? Þó Volkanovski sé flottur held ég að Holloway taki þetta bara á stigum.
Óskar Örn Árnason: Volkanovski er góður standandi en hann er glímumaður. Til að vinna þarf hann sennilega að ná Max í gólfið en það hefur reynst öllum öðrum mjög erfitt, nánast ómögulegt. Ég held því að Max nái að útboxa Volkanovski og annað hvort klára hann mjög seint eða taka þetta á stigum. Skýt á Holloway TKO í 4. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Volkanovski er frábær og ég held að Dustin Poirier hafi sýnt fram á það hvernig er hægt að vinna Holloway. Volkanovski og Poirier eru með svipaða faðmlengd og mér fannst Volkanovski sýna góða takta standandi gegn Chad Mendes – góð stunga, fín spörk og virðist vera frábær íþróttamaður. Holloway er auðvitað alltaf Holloway en ég set spurningamerki við hvernig ástandið er á honum og tel að úrslit þessa bardaga muni ráðast af því hvaða Holloway mætir í búrið á laugardaginn. Ég ætla að tippa á upset og segi að Volkanovski sigri þetta á stigum.
Arnþór Daði Guðmundsson: Holloway er langbestur í fjaðurvigtinni þessi misserin, það segir manni samt ekki að hann sé ósigrandi líkt og Dustin Poirier sýndi okkur. Hins vegar er Max ótrúlega heppinn að geta skorið niður í fjaðurvigtina svona langt inn í ferilinn. Ofan á það að vera með frábæra höku og vinnusemi, þá græðir hann líka á skrokknum á sér með því að vera lengri og hærri en andstæðingar sínir. Volkanovski er lítill kubbur, ekki ólíkur Chad Mendes. Hann hefur verið á frábærri sigurgöngu undanfarið og sigrað Darren Elkins, Chad Mendes og Jose Aldo í síðustu þremur bardögum. Ég skýt samt á að Holloway sé ennþá bestur í flokknum. Holloway sigrar eftir einróma dómaraákvörðun.
Max Holloway: Pétur, Óskar, Arnþór
Alexander Volkanovski: Guttormur
Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Germaine de Randamie
Pétur Marinó Jónsson: Ég er nokkuð spenntur fyrir þessum bardaga og er þetta flott áskorun fyrir Nunes. Germaine de Randamie er drullu öflug og með góð vopn til að meiða Nunes. Væri til að sjá de Randamie setja bara alvöru pressu á meistarann og vaða bara í hana. Setja smá pressu á Nunes. Það væri smá gaman ef de Randamie kæmi á óvart og myndi rota Nunes. Þetta hafa verið svo þægilega miklir yfirburðir hjá Nunes að undanförnu. Nunes er samt góð alls staðar en held hún taki enga sénsa og taki þetta bara í gólfið eins og síðast. Nunes er svart belti í BJJ og miklu betri en de Randamie í gólfinu. Nunes með TKO í gólfinu í 2. lotu.
Óskar Örn Árnason: Germaine de Randamie er frábær striker en hún er miklu verri en Nunes á gólfinu. Nunes getur slegið en mun sennilega fara strax í felluna og hamra GDR með G and P. Nunes TKO 1. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: De Randemie er byrjuð að tala um að setjast í helgan stein og um leið og slíkt tal hefst þá eru úrslitin oft eftir því. Á sama tíma er Nunes á þvílíkri siglingu og er að öllum líkindum besta kona sem við höfum séð í MMA frá upphafi. Nunes pakkar GDR saman í fyrstu lotu.
Arnþór Daði Guðmundsson: Fyrsti af þremur titilbardögum kvöldsins. Hér mætir drottningin í MMA mögulega besta tæknilega strikernum í þyngdarflokknum. Nunes hefur verið að sigra flesta af sínum síðustu bardögum standandi og því er þetta sérlega áhugaverð viðureign. Nunes er sennilega höggþyngri en de Randamie tæknilegri með betri hreyfingar. Nunes hefur verið að lenda bombunum að undanförnu og ég held að hún haldi áfram að hitta. Nunes sigrar með TKO í 3. lotu.
Amanda Nunes: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Germaine de Randamie: ..
Bantamvigt: Marlon Moraes gegn Jose Aldo
Pétur Marinó Jónsson: Maður getur efast heilmikið um þennan niðurskurð hjá Aldo í bantamvigt en hann leit samt bara vel út í vigtuninni í gær. Sprækur og ferskur en ekki titrandi á vigtinni eins og maður bjóst frekar við. Það er síðan annað mál hvernig hann lítur út þegar líður á bardagann í kvöld. Ég held að Moraes sé hraðari en 33 ára Jose Aldo og sé bara betri bardagamaður í dag. Það er sjaldan einhver töfralausn að fara upp eða niður um flokk á þessu stigi ferilsins. Moraes vinnur eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Aldo er ekki beint traustvekjandi gangandi um eins og beinagrind degi fyrir bardagann. Moraes tapaði illa síðast en er almennt algjör killer. Aldo er auðvitað frábær en það er yfirleitt engin töfralausn að fara í léttari þyngdarflokk, hvað þá ef þú þarft næstum að drepa þig til að ná vigtinni. Ég held að Moreas taki þetta nokkuð örugglega. Moraes KO í 2. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Aldo hefur átt erfitt uppdráttar frá því að Conor sigraði hann en maður hefur séð glitta í gamla góða Aldo, t.d. í sigrum hans gegn Jeremy Stephens og Renato Moicano. Núna færir hann sig niður um þyngdarflokk og því stórt spurningamerki hvernig niðurskurðurinn verður en Aldo var í vandræðum með að ná vigt í fjaðurvigt svo spurning hvernig þetta verður í bantamvigtinni. Moraes er erfiður andstæðingur en ég hallast að því að Aldo komi öllum á óvart og sigri með TKO í 2. lotu.
Arnþór Daði Guðmundsson: Moraes tapaði sínum síðasta bardaga í titilbardaganum gegn Henry Cejudo um bantamvigtartitilinn og þar sem það er lítið að ske í þyngdarflokknum eins og er þá er fínt að fá svona bardaga til að hrista upp í hlutunum. Moraes er sennilega næstbesti bardagamaðurinn í flokknum á eftir Cejudo þar sem Dillashaw er í banni og Cody Garbrandt er orðinn ósýnilegur. Á sama tíma er Aldo á skrýtnum stað á ferlinum. Hann var ósigrandi áður en Conor rotaði hann 2015. Síðan þá hefur hannn tapað tveimur titilbardögum gegn Max Holloway en líka sigrað flotta bardagamenn. Hann á sennilega ekki séns í fjaðurvigtartitilinn á meðan Holloway er ennþá meistari þar en það að skera niður í 135 pund er ekki besta hugmyndin fyrir 33 ára gamlan Aldo. Aldo leit út eins og beinagrind alla vikuna og minnti á Conor á sínum tíma í fjaðurvigtinni. Ég held að niðurskurðurinn hafi of mikil áhrif á Aldo og hann komist aldrei í gang. Moraes sigrar eftir dómaraákvörðun.
Marlon Moraes: Pétur, Óskar, Arnþór
Jose Aldo: Guttormur
Bantamvigt: Petr Yan gegn Urijah Faber
Pétur Marinó Jónsson: Þetta mun ekki enda vel. Ég veit ekki í hvaða heimi Urijah Faber er í. Hann heldur að hann geti orðið meistari, verandi 40 ára gamall. Það er bara ekki að fara að gerast. Faber var síðast meistari 29 ára gamall. Hann gat ekki orðið meistari 31 árs gegn Dominick Cruz, 32 ára gegn Renan Barao, 35 ára gegn Renan Barao eða 37 ára gegn Dominick Cruz. Hann er bara ekki nógu góður til að vinna þessa bestu og hefur ekki verið það í 10 ár. Hvað fær hann til að halda að hann geti það 40 ára gamall? Faber er ekki með neitt nema mjög gott wrestling og góða yfirhandar hægri. Það er ekki að fara að vera nóg gegn Petr Yan, hvað þá gegn Henry Cejudo. Petr Yan er ekki næs bardagamaður, hann vill meiða menn og er ekki að fara að vera næs við Faber af því hann er einhver goðsögn. Yan sigrar Faber með TKO í 3. lotu.
Óskar Örn Árnason: Old man Faber er að láta sig dreyma. Hann er fertugur, var hættur en snéri nýlega aftur eftir þrjú ár og sigraði ungan og nokkuð góðan andstæðing. Nú er hann hins vegar kominn í djúpu laugina á móti rosalegum gaur sem er nr. 4 á styrkleikalistanum. Ég held að Yan valti yfir hann en held þó að Faber noti reynsluna til að komast í gegnum þrjár lotur. Yan á stigum.
Guttormur Árni Ársælsson: Yan er örugglega besti boxarinn í deildinni og Faber á að vera löngu hættur. Yan sigrar örugglega með TKO í 2. lotu.
Arnþór Daði Guðmundsson: Faber er kominn aftur, orðinn 40 ára eftir 3 ár í burtu, fékk einn upphitunarbardaga og honum er hent beint fyrir ljónin. Maður veit ekki hversu sniðug hugmynd það er fyrir Faber að berjast á þessum tímapunnkti. Hann virðist hafa það ansi gott að stjórna TAM gymminu sínu og ætti í raun ekki að þurfa að berjast en stundum er kláðinn svo mikill að það þarf að klóra. Petr Yan er bardagamaður sem á eftir að berjast um titilinn í nánustu framtíð. Hefur sigrað John Dodson og Jimmie Rivera á árinu og litið vel út vægast sagt. Hérna er framtíðin að mæta fortíðinni og eins mikið og ég held upp á Faber þá held ég að hann eigi ekki séns á móti Yan. Yan sigrar eftir dómaraákvörðun.
Petr Yan: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Urijah Faber: ..