UFC 249 fer fram í kvöld þar sem tveir titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.
Titilbardagi í léttvigt: Tony Ferguson gegn Justin Gaethje
Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svo sturlaður bardagi og einn sá besti sem UFC gæti mögulega sett saman þó það sé algjörlega galið að UFC sé með bardagakvöld þessa dagana. Sem betur fer fyrir Gaethje var UFC 249 frestað um þrjár vikur. 5 vikur í undirbúning fyrir Tony Ferguson er töluvert betra en bara 2 vikur. Gaethje hefur bætt sig á undanförnum árum og orðinn aðeins skynsamari. Hann er líka með betri sjón eftir að hafa farið í aðgerð og getur núna séð andstæðinginn sinn sem var eitthvað sem hann gat ekki gert áður! Núna er hann að klára þessa bardaga í 1. lotu og það er hættulegt fyrir Tony Ferguson.
Tony er með magnað þol en hann á það til að byrja rólega. Hann hefur auk þess verið kýldur niður í 1. lotu gegn Anthony Pettis og Lando Vannata. Ég get alveg séð Gaethje skemma Khabib-Tony 6 með því að klára Tony bara í 1. lotu. Hann er með kraftinn og Tony orðinn 36 ára gamall. Tony Ferguson er samt bara eitthvað svo klikkaður! Ef hann kemst í gegnum 1. lotuna gegn Gaethje og dettur í taktinn sinn er ekkert að fara að stoppa hann. El Cucuy lætur sjá sig í 2. lotu og hakkar Gaethje niður, sker Gaethje með olnbogum, fer í skrokkunni, setur upp hátt tempó sem Gaethje ræður ekki við. Tony Ferguson með TKO í 4. lotu.
Óskar Örn Árnason: Geggjaður fight og Justin á alltaf punchers chance. Held samt að Tony muni naga hann niður og klára með uppgjafartaki í þriðju lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er ekki Tony vs. Khabib en hörku bardagi engu að síður. Ég held að Tony reynist of klókur fyrir Justin og klári hann með submission í þriðju lotu.
Halldór Halldórsson: Hugurinn segir Ferguson en hjartað segir Gaethje, ætla að fylgja hjartanu. Gaethje lendir þungri hnefasamloku í bardaga sem hann er að tapa frekar sannfærandi. Tony gleymir sér í pressunni og mun það vera glufan sem Justin þarf til að enda bardagann á snöggu augabragði. Justin Gaethje K.O. í 3. lotu.
Tony Ferguson: Pétur, Óskar, Guttormur
Justin Gaethje: Halldór
Titilbardagi í bantamvigt: Henry Cejudo gegn Dominick Cruz
Pétur Marinó Jónsson: Ef ég ætlaði að byggja mína spá á Dominick Cruz eins og hann var árið 2016 þegar hann barðist síðast, þá myndi ég tippa á Cruz. Það er bara svo erfitt að tippa á Cruz á þegar hann hefur ekki barist síðan í desember 2016. Er hann ennþá jafn góður? Er hann ennþá jafn hraður? Er hann ennþá með jafn hraða fótavinnu? Dominick Cruz er með einstakt hugarfar sem hefur komið honum í gegnum öll þessi meiðsli en maður veit ekki hvernig skrokkurinn hans er eftir þessa fjarveru. Ef Cruz tekst að vinna er það einhver magnaðasta endurkoma í sögu MMA sem ég myndi elska að sjá. En Cruz er bara of stórt spurningamerki núna. Hann er samt með frábært þol og gott wrestling sem gæti valdið Cejudo vandræðum. Cruz vinnur einhverjar lotur en Henry Cejudo vinnur eftir dómaraákvörðun á endanum.
Óskar Örn Árnason: Það væri ótrúlega gaman að sjá Cruz taka titilinn en mér finnst það mjög ólíklegt eftir 4 ára fjarveru. Held að Cruz byrji vel en Cejudo pressar og nær jafnvel að klára í fjórðu lotu eða svo.
Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að þessi velti allur á því hvernig Cruz mætir til leiks. Hann virðist vera í hörku formi og ég tippa á decision frá The Decisionator.
Halldór Halldórsson: Óvissan með Dominick er of mikil svo unnt sé að spá honum sigri að þessu sinni. Þótt að Henry sé kjánalegur er hann úrvals bardagamaður sem finnur leiðir til að sigra. Henry á eftir að ná að loka fjarlægðinni vel og Cruz á ekki eftir finna nein svör við glímunni hans Cejudo. Henry Cejudo vinnur eftir einróma dómarákvörðun.
Henry Cejudo: Pétur, Óskar, Halldór
Dominick Cruz: Guttormur
Þungavigt: Francis Ngannou gegn Jairzinho Rozenstruik
Pétur Marinó Jónsson: Ég er smá hræddur um að þetta gæti orðið helvíti leiðinlegur bardagi. Ngannou á það til að sitja til baka og countera með fáránlega þungum höggum en ef Jairzinho ætlar ekki að leiða dansinn þá gæti þetta orðið störukeppni. Ég held að þetta verði þannig þangað til Ngannou nær að hitta í 2. lotu og rotar Jairzinho. Rothögg í 2. lotu.
Óskar Örn Árnason: Epic bardagi á milli rotara. Ég held að sneggri og reyndari maðurinn taki þetta. Ngannou sigrar með rothöģgi í fyrstu lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Ngannou er betri en hjá þessum stóru strákum er það samt svo mikið coin toss oft hver vinnur. Segjum Rozenstruik með rothögg í fyrstu.
Halldór Halldórsson: Þessi bardagi fer úr núll upp í hundrað samstundis, báðir jakuxarnir munu sveifla á sér hrömmunum mjög geyst og Ngannou á eftir að verða fyrstur til að hitta. Nagannou K.O. í 1. lotu eftir 23 sekúndur.
Francis Ngannou: Pétur, Óskar, Halldór
Jairzinho Rozenstruik: Guttormur
Fjaðurvigt: Calvin Kattar gegn Jeremy Stephens
Pétur Marinó Jónsson: Stephens náði ekki vigt í gær og það gæti gefið til kynna að æfingabúðirnar hans hafi verið lélegar í faraldrinum. Það er samt hundur í Stephens og held að hann gæti verið mjög góður bardagamaður þó hann myndi ekki æfa neitt. Renato Moicano hakkaði lappir Kattar með lágspörkum þegar þeir mættust og Stephens gæti gert það sama. Ég vona að Kattar hafi lært af því og nái að vera hreyfanlegur, stick and move og vinnur eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Frábær bardagi, Stephens skeit á sig í vigtuninni en ég held að það hafi ekki áhrif á bardagann. Kattar er tæknilega betri og sigrar á stigum.
Guttormur Árni Ársælsson: Stephens kom inn of þungur og er mjög mistækur. Ég held að Kattar sé betri og sigri á stigum.
Halldór Halldórsson: Þessir tveir kappar eru á mismunandi vegferð. Kattar á uppleið og Stephens á niðurleið. Stephens klikkaði allhressilega á niðurskurðinum og gæti það gefið til kynna um að hausinn á Stephens sé ekki rétt skrúfaður á fyrir þennan bardaga. Kattar sigrar 1. lotu örugglega og klárar svo bardagann með tæknilegu rothöggi um miðja 2. lotu.
Calvin Kattar: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Jeremy Stephens: ..
Þungavigt: Greg Hardy gegn Yorgan de Castro
Pétur Marinó Jónsson: Yorgan de Castro er frekar óskrifað blað ennþá en náði góðri sleggju í 1. lotu í sínum fyrsta bardaga í UFC. Greg Hardy hefur ekki sýnt neitt stórkostlega takta og held að þetta verði fremur leiðinlegur bardagi. Hardy sigrar eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Hardy með annað tilgangslaust KO í fyrstu lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Hardy kremur aðra dós í fyrstu.
Halldór Halldórsson: Það er eitthvað sem segir manni að fólk innan raða ESPN sjái hag sinn í því að hafa Greg Hardy í sviðsljósinu. Báðir bardagamenn munu koma til með að virða höggþunga hvors annars og verður það til þessi bardagi verður ekkert augnakonfekt. Greg Hardy vinnur á stigum eftir einróma dómaraákvörðun.
Gerg Hardy: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Yorgan de Castro: ..
Heildarstig ársins:
Óskar: 13-2 *2019 meistarinn
Guttormur: 11-4
Pétur: 10-5
Arnþór: 5-5