spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 256

Spá MMA Frétta fyrir UFC 256

UFC 256 fer fram í kvöld þar sem barist verður upp á fluguvigtartitil UFC. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fluguvigt: Deiveson Figueiredo gegn Brandon Moreno

Pétur Marinó Jónsson: Ég er að detta alveg á Figueiredo vagninn. Hann er svo skemmtilegur í búrinu og er að hamra þessa gæja. Ef hann vinnur hér í kvöld verður hann 100% bardagamaður ársins. Það sem ég hef helst áhyggjur af er hvort hann geti verið upp á sitt allra besta í kvöld eftir að hafa skorið niður tvisvar á þremur vikum. Þetta er stórt cutt og held ég að tíminn muni vinna með Moreno í kvöld. Því lengra sem líður á bardagann því betur mun það henta Moreno. Moreno er góður, villtur og skemmtilegur en ég held að hann sé ekki týpan til að fara varlega í tvær lotur og taka svo yfir. Moreno mun henda í allt frá fyrstu sekúndu og það mun verða honum að falli. Figueiredo klárar hann með TKO í 2. lotu.

Óskar: Þetta er að verða ansi stórt ár fyrir Deiveson Figueiredo. Fyrst vinnur hann Benavidez tvisvar og hirðir beltið sem allir höfðu eyrnamerkt honum. Svo ver hann beltið í nóvember og reynir aftur núna um þremur vikum síðar. Ég elska sjálfstraustið, þessi gæji er á hraðri uppleið. Brandon Moreno verður samt erfiður, hann hefur ekki tapað í tvö ár og virðist til í slaginn. Að því sögðu þá held ég að Figueiredo sé betri en Moreno, held að hann finni leið til sigurs á innan við þremur lotum. Segjum Figueiredo, TKO í annarri lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Sé Figueiredo hafa fleiri leiðir til að sigra. Ef bardaginn klárast trúi ég að það verði Figueiredo sem klári. Það hversu viljugur Moreno er að skiptast á höggum hræðir mig þar sem Figueiredo er með höggþunga á öðru leveli í þessum þyngdarflokki. Mér finnst Moreno líka gefa fleiri færi á sér í gólfinu, m.a. að gefa alltaf á sér bakið til að standa upp. Figueiredo slær Moreno niður og hengir hann þegar Moreno gefur á sér bakið til að standa upp. Figueiredo henging lota 2.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég spáði gegn Figueiredo um daginn og sá eiginlega strax eftir því. Hann leit fáránlega vel út, tók lítið sem engan skaða og er í hörku bardagaformi. Þetta verður erfitt hjá Moreno og ég spái því að Figueiredo roti hann í 2. lotu

Sævar Helgi Víðisson: Figueiredo mætir og reynir að klára bardagann en það á eftir að kosta hann núna. Moreno er eins harður og þeir verða. Figueiredo mun byrja vel en þegar hann nær ekki að klára Moreno eins og hann er vanur mun hann lenda í veseni og Moreno tekur yfir. Moreno eftir dómaraákvörðun.

Halldór Halldórsson: Það eru margir sem telja að Moreno eigi mjög góðan möguleika á því koma á óvart og hreinlega vinna þennan bardaga. Ég er ekki einn af þeim. Í raun finnst mér Figueiredo vera auðveldasta pickið á þessu kvöldi. Figueiredo er búinn að valta yfir andstæðinga sína undanfarið og ég sé enga breytingu á því eiga sér stað í kvöld. Helsti andstæðingur Figueiredo hefur verið niðurskurðurinn en núna virðist sem hann hafi unnið bug á honum líka. Figueiredo er á flugi um þessar mundir og ég bara get ekki séð Moreno vera mikla fyrirstöðu. Figueiredo er stærri og kraftmeiri og það á eftir að vega þungt í þessum bardaga. Hann spáði sjálfur því fyrir að hann myndi subba Moreno í 1. lotu og ég ætla að trúa honum. Figueiredo armbar í þeirri fyrstu.

Deiveson Figueiredo: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Guttormur, Halldór
Brandon Moreno: Sævar

Léttvigt: Tony Ferguson gegn Charles Oliveira

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður geggjaður. Margir eru á því að Tony Ferguson sé búinn en ég hef ennþá trú á kallinum. Charles Oliveira er mjög skemmtilegur bardagamaður en mér finnst alltaf eins og hann geti brotnað. Ég hef reyndar tippað gegn honum oft. Oliveira mun örugglega byrja vel, vanka og blóðga Ferguson en svo kemur Ferguson sterkur til baka og byrjar hægt og rólega að brjóta Oliveira. Ferguson klárar þetta með TKO í 3. lotu.

Óskar: Þetta er klárlega the people´s main event. Stóra spurningin er hvernig Tony Ferguson kemur til baka eftir erfitt tap gegn Gaethje. Spurningin er líka, er Oliveira nógu góður fyrir topp 5 í léttvigt og á hann að fá titilbardaga næst? Þessi bardagi svarar ýmsum spurningum sem gerir hann spennandi fyrir utan stílanna sem eru heillandi, sérstaklega ef bardaginn fer í gólfið. Ég held að Tony sé betri en Charles standandi og nógu sleipur á gólfinu til að forðast uppgjafartökin, það er mikil einföldun en það er niðurstaðan í mínum huga. Ferguson vinnur á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi verður algert stríð. Báðir eru bestir á framfætinum og munu mætast í miðjunni. Oliveira hefur átt erfitt standandi gegn hávöxnum andstæðingum og höggum í skrokkinn. Ferguson mun taka yfir þegar líður á bardagann og brjóta Oliveira með framspörkum og olnbogum þegar Oliveira reynir að loka fjarlægðinni og sækja fellu. Ferguson með TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Tony Ferguson er frábær en ég held að aldurinn gæti farið að segja til sín hjá kallinum. Hann verður 37 ára eftir 2 mánuði, er búinn að vera lengi í bransanum og taka mikinn skaða í bardögum sínum. Þetta safnast allt saman. Oliveira er yngri og er á svaka skriði núna – hefur ekki tapað í síðustu sjö. Það eru fáir með eins spennandi ground game og Oliveira og ég spái guillotine hengingu frá honum í 3. lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Það er mjög erfitt að finna stærri Tony Ferguson aðdáenda en mig þannig að það er ekki séns að ég velji neitt annað en hann. Þrátt fyrir það er Oliveira erfiður andstæðingur en ég sé ekki heim sem hann nær að hengja Tony og ég reikna með að hann brotni undan pressunni hans Tony. Olivera hættir á stólnum eftir 2. lotu.

Halldór Halldórsson: Núna er komið að því að við sjáum Tony Ferguson tapa tveimur bardögum í röð í fyrsta skiptið á ferlinum. Mér finnst ekkert ólíklegt að menn þurfi lengri tíma til að jafna sig eftir aðra eins útreið og Tony fékk gegn Justin Gaethje. En tími er kannski ekki eitthvað sem Tony Ferguson á mikið af. Tony er að verða 37 ára gamall og ég held að hans tími sé liðinn. Charles Oliveira er hérna að fá risastórt tækifæri á að blanda sér loksins almennilega í umræðuna um einhverja titilbardaga. Hann hefur áður fallið á stóra prófinu en núna held ég að hann standist það í kvöld. Tony hefur oft áður haft þann lúxus að geta verið villtur og framkvæmt allskonar hundakúnstir því hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að lenda með andstæðingi sínum í gólfinu. Það er ekkert svoleiðis uppi á teningnum í kvöld, Oliveira er endakall í gólfinu sem gæti hæglega stoppað Tony þar. Ég sé Oliveira kýla Tony niður í annarri lotu og í framhaldinu hengja hann. Oliveira rear naked choke 2. lota.

Tony Ferguson: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Sævar
Charles Oliveira: Guttormur, Halldór

Strávigt kvenna: Mackenzie Dern gegn Virna Jandiroba

Pétur Marinó Jónsson: Þessi er mjög spennandi fyrir strávigtina. Báðar eru svart belti í BJJ og báðar duglegar að klára bardaga sína þar. Ég held samt að Virna sé betri alhliða bardagakona og er með meiri reynslu í MMA. Tippa á að Virna nái að halda sér frá vandræðum í gólfinu, skori meira standandi og vinni eftir dómaraákvörðun.

Óskar: Þessi bardagi ætti að verða áhugaverður fyrir Jiu-Jitsu nörda. Báðar þessar konur eru frábærar í glímunni en á pappírum ætti Dern að vera betri. Mig grunar þær núlli hvor aðra svolítið út og þetta muni snúast um stöðubaráttu. Ég held að Dern verði aðeins sterkari, gef henni þetta á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Báðar eru svartbeltingar í jiu-jitsu og klára flesta sína bardaga á uppgjafartaki. Dern er þó með miklu meiri keppnisárangur sem svartbeltingur og því gef ég henni yfirhöndina í gólfinu. Þær eru báðar stórar fyrir þyngdarflokkinn og sterkar en Jandiroba spái ég að hafi yfirhöndina í fellum og stjórni því hvar bardaginn fer fram. Ég held að hún verði betri standandi og geti varið sig nóg í gólfinu til að koma bardaganum aftur upp. Jandiroba eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Dern er með jiu jitsu í heimsklassa þó að hún virðist stundum ekki taka cardio og vigtina nægilega alvarlega. Ég veit lítið um Jandirobe nema að hún tapaði fyrir Carla Esparza en átti svo performance of the night frammistöðu í águst þegar hún sigraði Felice Herrig með armbar. Segjum Dern með arm triangle í fyrstu lotu

Sævar Helgi Víðisson: Dern er með heimsklassa BJJ en það er það eina sem hún hefur fram yfir Jandiroba og hún er samt með mjög gott BJJ. Ef Dern nennti því að vera atvinnumaður í MMA gæti vel verið að hún væri heimsmeistari. Einnig það að John Crouch hafi hætt að þjálfa hana vegna þess að hún var of löt er mjög stórt rautt flagg. Hins vegar er Jandiroba mjög solid, hún er ekkert rosalega góð standandi en ætti að vera nægilega góð til að vinna Dern. Ég er ekki viss hvernig Dern ætlar að ná bardaganum í jörðina vegna þess að Jandiroba er með betri glímu og hef hún endar ofan á Dern gæti ég alveg séð hana halda Dern niðri þó að ég mæli ekki með því. En til að enda þetta er Jandiroba skynsamari í búrinu og með betra þol og ætta það að vinna bardagann fyrir hana. Jandiroba eftir dómaraákvörðun.

Halldór Halldórsson: Hérna erum við með tvær frábærar glímukonur og þessi bardagi gæti orðið mjög skemmtilegur og teknískur. Ef Dern nær að forðast það að vilja einungis nota boxið sitt, sem er mjög villt, sé ég hana ná að kreista út góðan sigur hér í kvöld. Dern er líkamlega sterkari og meiri íþróttamaður sem á eftir að ríða baggamuninn. Dern eftir einróma dómaraákvörðun.

Mackenzie Dern: Óskar, Guttormur, Halldór
Virna Jandiroba: Pétur, Brynjólfur, Sævar

Millivigt: Kevin Holland gegn Ronaldo ‘Jacare’ Souza

Pétur Marinó Jónsson: Jacare er orðinn 41 árs gamall og gæti lenti í þessum niðurskurði hjá UFC ef illa fer hér í kvöld. Holland er ungur og ferskur en ég held hann hafi aldrei glímt við jafn góðan glímumann og Jacare. Jacare bjargar starfinu með því að klára Holland með uppgjafartaki í 2. lotu.

Óskar: Kevin Holland er ennþá nýliði í UFC en hann er á hraðri uppleið. Á þessu ári er hann búinn að vinna fjóra bardaga og fær hér stóran bardaga gegn Jacare. Souza er ennþá góður þó hann sé búinn að tapa þremur af síðustu fjórum og sé kominn yfir fertugt. Hann hefur ekki barist í heilt ár en síðasti bardaginn var tap gegn ríkjandi meistara í léttþungavigt, Jan Blachowicz, en það var eftir klofinn dómaraúrskurð. Þetta verður erfitt próf en ég held að Holland sé nógu góður til að taka þetta. Holland, TKO í annarri lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi bardagi held ég að velti á því hvernig Holland gengur að stjórna fjarlægðinni og refsa Jacare þegar hann reynir að loka henni. Jacare er harður af sér og getur étið þung högg og ég held að hann nái að loka fjarlægðinni. Hann er talsvert stærri en Holland sem hefur komið inn léttari en hann þarf að vera í vigtun. Jacare er hins vegar að koma niður úr léttþungavigt og er einn besti gólfglímumaður í UFC. Jacare nær fellunni og klárar Holland í gólfinu. Jacare uppgjafartak lota 2.

Guttormur Árni Ársælsson: Minn maður Jacare. Langar virkilega að spá honum sigri en grunar að hann sé kominn á seinasta snúning. Jacare reynir að ná þessu í jörðina, tekst ekki og verður rotaður eftir TKO í 3. lotu

Sævar Helgi Víðisson: Þetta er mjög stórt skref upp á við fyrir Holland og reikna ég ekki með að hann standist prófið. Jacare mun taka hann niður snemma og þá er Holland í slæmum málum. Jacare uppgjafartak lota 1.

Halldór Halldórsson: Ég er búinn að fara svolítið fram og til baka með þennan bardaga. Souza er kominn yfir sitt léttasta skeið og hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum. Ef Souza ætlar að halda bardaganum standandi með Kevin Holland verður hann rotaður og það illa. Hins vegar ef Souza kemur þessu í gólfið verður Holland í miklum vandræðum. Felluvörnin hjá Holland er ennþá frekar stórt spurningamerki. Holland hefur öll vopnin sem þarf til að halda fjarlægðinni og tæta Souza í sundur hægt og rólega. Það má ekki mikið út af bregða hjá Holland annars er hann kominn í gólfið með manni sem hann á ekki séns í. Ég ætla að spá því að Kevin Holland nái að forðast það að gera mistök í kvöld, hann heldur þessu standandi þar sem hann er með yfirhöndina og vinnur eftir dómaraákvörðun.

Kevin Holland: Óskar, Guttormur, Halldór
Jacare Souza: Pétur, Brynjólfur, Sævar

Þungavigt: Junior dos Santos gegn Ciryl Gane

Pétur Marinó Jónsson: Loksins fær Gane bardaga. Ég er mjög spenntur fyrir honum og held að hann geti farið langt í þungavigtinni. Gane heldur sér frá vandræðum, heldur góðri fjarlægð og vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar: UFC er voða mikið að vinna með að láta nýliða spreyta sig gegn goðsögnunum. Það er áhugavert að sjá hvað maður með sex bardaga á bakinu getur gert á móti fyrrverandi meistara með tólf ára reynslu í UFC. Gane er klárlega góður en er hann of grænn? JDS er ennþá hættulegur en er hakan farin eftir þrjú rothögg í röð? Erfitt að segja en ég ætla að taka JDS, held að hann sé of stór biti fyrir Gane á þessum tímapunkti. JDS sigrar á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Stór prófraun fyrir Gane. Gane hefur litið vel út hingað til og ég held að hann standist prófið. Dos Santos hefur orðið lítið höggþol og ég held að Gane nái strax stjórn á bardaganum. Ég held að hann muni nota fjölbreytta árás til að fá Dos Santos til að bakka upp við búrið og klári hann þar með höggum. Gane TKO lota 1.

Guttormur Árni Ársælsson: Gane er mjög spennandi prospect í þungavigtinni (maður getur verið prospect þrítugur í þungavigtinni!). Hann hreyfir sig ekki eins og þungavigtarmaður heldur er hann fimur og með skothelda tækni. Eitthvað sem maður sér ekki oft hjá stóru strákunum. Hann sigrar eftir rothögg í fyrstu lotu og Dos Santos leggur hanskana á hilluna eftir bardagann.

Sævar Helgi Víðisson: Santos búinn að vera rotaður þrjá bardaga í röð en það er móti þeim allra bestu í flokkunum. Á sama tíma er Gane búinn að vera að berjast við frekar slaka andstæðinga. Gane ætti að geta haldið fjarlægðinni og unnið bardagann á stigum. En ef hann rotar Santos þá er það upp við búrið því að Santos lendir oftast í miklu vesen þegar hann er pressaður að búrinu. Gane eftir dómaraákvörðun.

Halldór Halldórsson: Ef Souza er kominn yfir sitt léttasta skeið þá er Junior dos Santos löngu kominn yfir sitt léttasta skeið. Það hefur verið átakanlegt að horfa upp á hann í hans síðustu bardögum þar sem hakan hans er alveg farin. Ciryl Gane mætir alltaf í frábæru líkamlegu standi og þó hann sé ekki sá höggþyngsti í þungavigtinni þá held ég að það komi ekki að sök því Gane rotar JDS í annarri lotu.

Junior dos Santos: Óskar
Ciryl Gane: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Sævar, Halldór

Heildarstig ársins:

Óskar: 38-13
Pétur: 36-15
Guttormur: 35-16
Halldór: 20-11
Arnþór: 15-11
Páll: 8-3
Sævar: 4-2
Brynjólfur: 7-4

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular