spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 257

Spá MMA Frétta fyrir UFC 257

UFC 257 fer fram í nótt þar sem Conor McGregor mætir Dustin Poirier í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.

Léttvigt: Dustin Poirier gegn Conor McGregor

Pétur Marinó Jónsson: Ég er ótrúlega spenntur að sjá hvernig Conor lítur út árið 2021. Hann virkar í mjög góðu standi, átti að því virðist góðar æfingabúðir og ætti ennþá að vera á besta aldri verandi bara 32 ára gamall. Hann hefur ekki alltaf lifað eins og íþróttamaður utan búrsins og það gæti tekið sinn toll einn daginn (kannski í dag?). Dustin Poirier er einn af mínum uppáhalds í MMA í dag og kann ekki að vera í leiðinlegum bardögum. Hann er samt ennþá pínu hittable þó hann hafi bætt sig þar á síðustu árum. Dustin á mestan séns ef hann lifir af fyrstu tvær loturnar því þá getur hann gert þetta að stríði. Conor á það til að fjara út ef hann er ekki með stjórn á bardaganum og þá virðist hann þreytast mjög fljótt. Ef Dustin nær að gera þetta að stríði og taka stjórn á bardaganum þegar á líður snarhækka sigurlíkur hans.

Conor er ótrúlega skarpur bardagamaður og virðist vera ótrúlega fljótur að detta í gang, lesa hreyfingar andstæðingsins og komast í sinn takt. Ef Conor er ennþá með hraðann, snerpuna og nákvæmnina í höggunum sínum þá finnur hann hökuna á Dustin. Ég held að það gerist fyrr en síðar og tippa á rothögg hjá Conor seint í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það er þvílík gleði að sjá Conor í svona góðu formi, andlega og líkamlega. Allir búast við einhverju stórkostlegu frá honum, varla hægt annað. Dustin er auðvitað mjög erfiður fyrir alla og gæti hæglega unnið, sérstaklega ef hann kemst yfir fyrstu tvær loturnar. Ég get ekki annað en spáð Conor sigri með rothöggi í fyrstu lotu, finnst það hreinlega líklegasta niðurstaðan.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er svo mikill Conor fanboy að það er hálf vandræðalegt. Það sem maður hefur séð af Conor í aðdraganda bardagans lofar rosa góðu og hann virðist vera í hörku formi. Gunni hefur talað um það að Conor sé hálf manískur þegar hann kemst í þennan ham og það er einmitt tilfinningin sem maður hefur þessa stundina; þ.e. Conor virðist vera algjörlega obsessed á þetta comeback. Dustin er frábær en ég held einfaldlega að Conor verði ekki í vandræðum með að lenda vinstri hendinni að vild og það er game over gegn öllum sem heita ekki Nate Diaz. Ég ætla að spá því að Conor komi inn í svipuðum gír og gegn Cowboy, setji hátt pace frá fyrstu sekúndu og klári Dustin með rothöggi í fyrstu lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Samkvæmt öllu er Conor búinn að vera æfa vel og halda sér í heilsusamlegu líferni fyrir þennan bardaga. Þegar hann er þannig er mjög fátt sem getur stoppað hann. Vegna þess er ég nánast viss um að Conor roti hann í fyrstu eða annarri lotu. Hann er einfaldlega miklu betri en Poirier standandi og ekkert mikið verri í gólfinu. Ég reikna með mjög einhliða bardaga þar sem Porier hefur engin svör við fjölbreyttum árásum Conor. Conor með TKO í 1. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Dustin er reglulega vankaður og Conor er alvöru finisher. Hann er með rétt yfir 1 knockdown í hverjum bardaga sem segir okkur að hann þarf ekki að slá menn oft niður til að klára þá. Conor TKO í 1. lotu.

Páll Snædal Andrason: Conor er í geggjuðu formi og mótiveraður. Ég spái því að hann standi við spána sína og roti Poirier eftir aðeins 48 sekúndur. Conor mun lenda fleiri höggum í þetta skiptið og brýtur Poirier niður líkt og hann gerði við ‘Cowboy’ Cerrone. Ég hef enga trú á öðru en hann hendi sér beint í 5. gír um leið og bjallan hringir.

Dustin Poirier: ..
Conor McGregor: Pétur, Óskar, Guttormur, Sævar, Brynjólfur, Páll

(Photo by Jeff Bottari/Zuffa LLC via Getty Images)

Léttvigt: Dan Hooker gegn Michael Chandler

Pétur Marinó Jónsson: Það verður mjög spennandi að sjá hvernig Chandler plummar sig í UFC. Margir sem hafa komið í UFC frá öðrum bardagasamtökum hafa annað hvort byrjað illa, komið of seint í UFC eða hreinlega floppað eins og Hector Lombard, Ben Askren, Gilbert Milendez, Eddie Alvarez og Will Brooks. Chandler er underdog hjá veðbönkum í fyrsta sinn síðan 2011 sem er áhugavert. Chander er geggjaður wrestler og með gott striking en Hooker er mjög tricky andstæðingur. Hann er langur og er með vel tímasett hnéspörk sem geta smellhitt ef Chandler skítur inn. Ég held að Chandler verði mjög varkár og byrji illa en nái að kreista fram dómaraákvörðun á endanum.

Óskar Örn Árnason: Þá er stóra spurningin, getur Michael Chandler unnið þá bestu í UFC? Dan Hooker er frábær mælistika og mjög erfiður bardagi fyrir Chandler (sem er orðinn 34 ára). Chandler er hættulegur standandi og góður wrestler en ég held að Hooker sé með stílinn til að verjast fellum og refsa honum standandi. Hooker rotar Chandler í þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að Chandler sé svona náungi sem er toppgaur í minni samtökum en algjör meðalmaður í UFC. Dan Hooker mun allavega vera hörku test fyrir hann og ég held að Hooker sigri á stigum eftir striking clinic.

Sævar Helgi Víðisson: Chandler er að færa sig yfir frá Bellator og verður mjög spennandi að sjá hvernig honum mun ganga. Ég hald þó að hann sé kominn yfir sitt besta skeið og þetta UFC ævintýri hjá honum gæti endað mjög illa. Hann er frábær íþróttamaður og góður á öllum sviðum, en hann hefur þó farið í gegnum nokkur stríð og er hann alls ekki með bestu hökuna. Hooker hefur einnig farið í gegnum rosaleg stríð en hakan á honum hefur haldið vel. Helsti gallinn hjá Hooker er hvað hann étur mikið af höggum en ég hef trú á honum og þjálfurunum í City Kickboxing til að bæta það eitthvað. Chandler er með mjög góða glímu, ég reikna samt með að þessi bardagi verði aðallega standandi. Þá verð ég að hallast að Hooker. Hooker klárar hann með höggum í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Chandler er að koma inn ferskur í erfitt próf. Hooker er með góða felluvörn og hné og upphögg til að letja menn frá því að reyna. Chandler hefur einnig átt erfitt með lágspörk og Hooker er einn sá besti í kálfaspörkunum. Chandler er þó í hörkuformi og Hooker hefur orðið þreyttur í erfiðum bardögum. Chandler er einnig með betri fellur en andstæðingar Hooker hingað til. Þetta veltur því mikið á því hvernig Hooker gengur að halda Chandler í fjarlægð. Ég held að Hooker nái að halda Chandler af sér og sigri eftir dómaraákvörðun. Hooker eftir einróma dómaraákvörðun.

Páll Snædal Andrason: Ég held að Hooker sé of mikið fyrir Chandler. Held að Chandler eigi eftir að lenda í vandræðum með að taka Hooker niður og Hooker mun outstrika hann. Hooker með rothöggi í lok 2. lotu.

Dan Hooker: Óskar, Guttormur, Sævar, Brynjólfur, Páll
Michael Chandler: Pétur

Fluguvigt kvenna: Jessica Eye gegn Joanne Calderwood

Pétur Marinó Jónsson: Gjörsamlega þoli ekki Jessica Eye en Joanne Calderwood er topp eintak. Eye nær samt oft að kreista fram dómaraákvörðun og Jojo getur verið lengi í gang. Jojo nær oft líka að koma sér í vandræði í gólfinu sem er pirrandi að sjá. Ég held að þetta verði mjög jafnt en Eye vinnur eftir klofna dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þessi er tricky. Ég held með JoJo en finnur hún leið til að vinna hina hundleiðinlegu Jessica Eye? Ég verð að láta hjartað ráða, JoJo tekur þetta á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held mjög mikið með JoJo í þessum en af einhverri ástæðu finnst mér Eye sigurstranglegri. Eye vinnur eftir dómaraákvörðun í daufum bardaga.

Sævar Helgi Víðisson: JoJo er alger jójó, stundum er hún mjög góð en í öðrum bardögum virðist hún ekki mæta. Ég er eiginlega ekkert spenntur fyrir þessum bardaga og er mikil split decision lykt af þessum þar sem lítið gerist. Ég held þó að Eye taki þetta með nokkrum fellum. Eye eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Íslandsvinkonan JoJo rétt missti titilbardaga milli fingra sér í síðasta bardaga og ég held að henni sé mikið mál að leiðrétta þau mistök og komast aftur á topp deildarinnar. Eye er fullkomni andstæðingurinn til að éta spörkin hennar en hún mun líka reyna að hlaupa inn með högg og refsa JoJo þegar hún er á einum fæti. JoJo er frekar fótahæg og kemur því til með að éta nokkuð af höggum frá Eye en nær að mynda fjarlægð og sigrar að lokum með því að lenda spörkum fyrir utan. Calderwood eftir klofna dómaraákvörðun.

Páll Snædal Andrason: Þetta verður jafn bardagi, Calderwood mun vinna standandi en ég trúi því að Jessica muni taka hana niður nokkrum sinnum og vinni eftir klofna dómaraákvörðun.

Jessica Eye: Pétur, Guttormur, Sævar, Páll
Joanne Calderwood: Óskar, Brynjólfur

Strávigt kvenna: Marina Rodriguez gegn Amanda Ribas

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mjög spenntur fyrir Ribas og held að hún geti blandað sér í toppbaráttuna áður en langt um líður. Rodriguez er góð standandi og Ribas er góð þar en ég held að Ribas taki þetta í gólfið á endanum. Ribas hengir Rodriguez í 2. lotu með rear naked choke.

Óskar Örn Árnason: Rodriguez er góð en Ribas er algjört beast og virðist vera framtíðar stjarna. Held að Ribas taki þetta örugglega, vonandi finish, skýt á sigur Ribas með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ribas er spennandi prospect sem hefur sigrað sterka andstæðinga. Hún tekur Rodriguez á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Rodriguez er sterk standandi og frekar höggþung. Hennar veikleiki hefur þó verið að halda bardaganum standandi. Hún hefur líklega barist við sterkari andstæðinga en Ribas. En ég reikna þó með að Ribas komi með gott plan í þennan bardaga og nái henni niður. Ribas er mjög vel þjálfuð og held ég að það verði herslumunurinn í þessum bardaga. Ribas með uppgjafartaki í 2. lotu. 

Brynjólfur Ingvarsson: Amanda Ribas virðist vera allur pakkinn og hér er fullkomið tækifæri fyrir hana að stimpla sig á meðal þeirra bestu í deildinni. Ég hef trú á að hún geri það og klári bardagann í gólfinu í 2. lotu eftir TKO.

Páll Snædal Andrason: Ég held að Amanda Ribas muni ganga frá henni. Rodriguez er með góða höggþyngd og hörku striker en ég held að Amanda muni taka hana niður snemma í 1. lotu og vinni með armbar í 1. lotu.

Amanda Ribas: Pétur, Óskar, Guttormur, Sævar, Brynjólfur, Páll
Marina Rodriguez:

Millivigt: Andrew Sanchez gegn Makhmud Muradov

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mjög spenntur fyrir Muradov. Hann var á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn þegar Gunni barðist þar og sá ég hann æfa þar nokkrum sinnum. Mér fannst mikið til hans koma þar. Sanchez er reynslumeiri og mun leitast við að wrestla við Muradov. Ég held að Muradov standi þetta af sér þokkalega og vinni eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Sanchez er seigur reynslubolti og Muradov er talsvert óþekktrari stærð. Hann virðist hins vegar vera efnilegur gaur á uppleið. Ég veðja á að Muradov roti Sanchez í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Báðir menn með um 10 ára reynslu sem atvinnumenn og þetta gæti orðið hörku bardagi. Muradov er frá Úsbekistan, búinn að vinna 13 í röð (2 í röð í UFC) og klárar Sanchez með TKO í 3. lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Sanchez er búinn að vera í 5 ár í UFC en hefur lítið þróast síðan hann mætti. Planið hjá honum er alltaf svipað og frekar einfalt. Að ná andstæðingum niður og halda honum þar. Mér finnst alveg líklegt að hann muni ná Muradov eitthvað niður en hann á eftir að eiga erfitt með að halda honum þar. Þá mun hann þreytast og Muradov tekur yfir með því að vera betri standandi. Muradov klárar þetta með höggum í 3. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Muradov kemur inn með litlum fyrirvara en er hungraður eftir að seinustu fjórir andstæðingar hans hafa þurft að hætta við bardagann sem hefur haldið honum frá búrinu í meira en ár. Ég held að hann noti tækifærið með öll augu á sér og opni kvöldið með flottum sigri sem stimplar hann á topp 15 í millivigtinni. Muradov með KO í 1. lotu.

Páll Snædal Andrason: Ég held að Muradov sé töluvert betri en Sanchez. Finnst alltaf jafn leiðilegt að horfa á Sanchez berjast og sérstaklega á móti góðum strikerum. Ætla því að segja að Muradov muni rota hann í 1. lotu.

Andrew Sanchez: ..
Makhmud Muradov: Pétur, Óskar, Guttormur, Sævar, Brynjólfur, Páll

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular