Friday, April 19, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 261

Spá MMA Frétta fyrir UFC 261

UFC 261 fer fram í kvöld þar sem þrír titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman gegn Jorge Masvidal.

Pétur Marinó Jónsson: Sé ekki að margt hafi breyst frá fyrri bardaganum annað en að Usman hafi bætt sig. Finnst þetta eiginlega vera sísti titilbardagi kvöldsins. Hefði verið skemmtilegra að sjá Masvidal vinna einn bardaga eftir tapið gegn Usman til að búa til meiri áhuga en Usman vildi þennan bardaga og verður áhugavert að sjá hvað þessi bardagi gerir á PPV markaðnum. En að bardaganum þá held ég að þetta verði bara mjög svipað og síðast. Masvidal gæti alltaf náð þessu rothöggi í 1. lotu en finnst miklu líklegra að Usman haldi honum upp við búrið í fimm lotur og Masvidal gerir lítið til að reyna að sleppa.

Brynjólfur Ingvarsson: Það er ekki mikil ástæða til að trúa að þessi verði mikið öðruvísi en fyrsti bardagi þeirra. Usman er góður í langri fjarlægð með stunguna og þegar Masvidal bakkar á búrið getur Usman einfaldlega ýtt honum upp við það. Masvidal er með góð spörk en Usman er góður að grípa þau og þegar Masvidal hleypur inn að reyna höggið sem hann rotaði Till með beygir Usman sig einfaldlega undir hann og tekur hann niður. Usman dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Þetta er leiðinlegt en Usman tekur þetta eftir dómaraákvörðun. Það er alltaf séns á að Masvidal roti hann en ég hef litla trú á að Masvidal fari að bæta sig eitthvað á milli bardaga núna í atvinnubardaga númer 50. Usman hefur þó verið að lenda í veseni í seinustu bardögum en það er á móti betri andstæðingum. Usman dómaraákvörðun

Óskar Örn Árnason: Það verður áhugavert að sjá hvort fullt training camp breyti einhverju fyrir Masvidal. Í fyrsta bardaganum var hann nokkuð góður í fyrstu lotu og ef hann getur teygt það í 3-4 lotur á hann raunverulega séns. Að því sögðu er líklegasta niðurstaðan sú sama og síðast. Usman tekur þetta á stigum í aðeins erfiðari bardaga.

Kamaru Usman: Pétur, Brynjólfur, Sævar, Óskar
Jorge Masvidal: ..

Titilbardagi í strávigt kvenna: Weili Zhang gegn Rose Namajunas

Pétur Marinó Jónsson: Besti bardagi helgarinnar. Weili er sterkari og örugglega höggþyngri en ég held að Rose sé aðeins tæknilegri. ‘Thug’ Rose er mjög hreyfanleg og verður erfitt fyrir Weili að hitta hana fyrst um sinn held ég en svo gætu lágspörkin hjá Weili hægt á Rose. Tippa á að Rose haldi góðri fjarlægð og vinni eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

Brynjólfur Ingvarsson: Namajunas er betri í langri fjarlægð og Zhang er ekki góð að loka fjarlægðinni. Namajunas þreytist samt og dettur meira í að skiptast á höggum og það er hættulegt gegn Zhang sem er með ruglaðan höggþunga. Ég held samt að Namajunas sé með nógu góða fótavinnu til að sigra, líka í miðlungs fjarlægð, og Zhang verði fórnarlamb eigin höggþunga og fari að treysta of mikið á hann. Namajunas dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Þessi bardagi ætti að vera flugeldasýning en báðar eru mjög góðar og skemmtilegar standandi. Ég tel þó að Zhang ætti að taka þetta en hún er betri á innanverðunni og Namajunas mun ekki ná að halda henni í fjarlægð. Zhang mun lendi fleiri og betri höggum og taka frekar þægilega dómaraákvörðun. Einnig ætti Zhang að vera með betra þol og haldi uppi góðum hraða í bardaganum og gæti tekið yfir í seinni hlutanum.

Óskar Örn Árnason: Klárlega besti bardagi kvöldsins á pappírunum. Mjög erfitt að spá. Weili hefur ekki sýnt mikla veikleika en Rose er svo tæknilega góð alls staðar. Þetta verður vonandi stríð en ég held að Weili sé sterkari þegar líður á erfiðan bardaga. Hjartað segir Rose en hausinn segir Weili. Weili sigrar, TKO í þriðju lotu.

Weili Zhang: Sævar, Óskar
Rose Namajunas: Pétur, Brynjólfur

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Jessica Andrade

Pétur Marinó Jónsson: Loksins einhver spennandi andstæðingur fyrir Valentinu. Andrade er með höggþungann til að vera smá scary fyrir Valentinu. Valentina er tæknilega betri en 1. lotan verður mjög áhugaverð. Andrade gæti átt góð augnablik með stífri pressu, skrokkhöggum og fellum en held að gagnárásir Valentinu verði of hættulegar. Ég held að Valentina taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Valentina er of góð að stjórna fjarlægð. Andrade mun vaða inn með höfuðhreyfingarnar og Valentina svara með snörpum gagnárásum og líklega mun hún sparka mikið í höfuð Andrade til að letja höfuðhreyfingarnar. Ef Andrade nær að loka fjarlægðinni held ég að Valentina nái henni niður. Valentina verður of góð alls staðar þrátt fyrir að þetta sé hennar erfiðasta próf og klárar þetta í gólfinu í mounted crucifix. Valentina TKO 3. lota.

Sævar Helgi Víðisson: Þetta er líklegast erfiðasti bardagi Shevchenko í þessum þyngdarflokki. En það er bara bannað að spá henni einhverju öðru en sigri þangað til að hún sýnir okkur eitthvað annað en hún hefur verið að gera. Það er oft frekar erfitt að spá fyrir því hvernig Shevchenko berst en hún bara vinnur. Shevchenko ko/tko 4. lota

Óskar Örn Árnason: Jessica Andrade er líklega erfiðasti andstæðingur sem Valentina gæti mætt í fluguvigt. Hún er með mikla reynslu og auðvitað POWER. Valentina ætti hins vegar að vera tæknilega betri nánast alls staðar. Ég get ekki annað en tekið Valentinu á stigum.

Valentina Shvechenko: Pétur, Brynjólfur, Sævar, Óskar
Jessica Andrade: ..

Millivigt: Chris Weidman gegn Uriah Hall

Pétur Marinó Jónsson: Weidman vann sinn fyrsta bardaga á dögunum í langan tíma. Fannst hann ekkert spes fyrstu tvær loturnar lotu en var góður í 3. lotu. Finnst alltaf eins og hann sé alveg að rotast. Svona eins og að horfa á drukkinn mann labba yfir frosna tjörn. Maður bara bíður eftir því að ísinn brotni undan honum og hann hrynur í tjörnina. Held að Hall klári Weidman með TKO í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Weidman er hræddur við höggin og veit að hann hefur ekki höku lengur. Vegna óttans reynir hann að hlaupa inn þegar hann sækir með höfuðið fyrst og galopnar sig fyrir gagnárásum. Hall bakkar á búrið og býður upp á að andstæðingurinn glími hann við búrið. Hall hikar líka við að toga í gikkinn nema andstæðingurinn nái að gera hann reiðan. Ég held að Weidman nái einhverjum árangri framan af en nái síðan að gera Hall nógu reiðan til að Hall roti sig. Hall TKO 2. lota.

Sævar Helgi Víðisson: Báðir þessir bardagamenn eru ekki alveg með hausinn á réttum stað í augnablikinu og hafa séð betri daga. Weidman á það til að vera að vinna þangað til að hann tapar. Hinu megin er Hall oft að tapa þangað til hann vinnur. Þannig ég býst við því að Weidman byrji vel en Hall rotar hann eftir að hann er búinn á því eftir glímuna.

Óskar Örn Árnason: Þetta er endurat en þeir félagar mættust áður en þeir fóru í UFC árið 2010 en þá sigraði Weidman með rothöggi. Mikið hefur breyst og spurningin núna, hvor er ferskari? Í mínum huga verður svarið að vera Hall sem hefur unnið þrjá í röð á meðan Weidman hefur unnið einn af síðustu þremur. Weidman gæti glímt Hall í drasl en ég held að Hall finni lausn og klári jafnvel Weidman. Hall sigrar, KO í annarri lotu.

Chris Weidman: ..
Uriah Hall: Pétur, Brynjólfur, Sævar, Óskar

Léttþungavigt: Anthony Smith gegn Jimmy Crute

Pétur Marinó Jónsson: Smith er búinn að vera frekar slappur undanfarið og Jimmy Crute er spennandi efni. Held að Crute muni taka Smith niður allar loturnar og vinna eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Crute er aggressívur og lokar fjarlægðinni vel. Hann keðjar vel saman fellurnar og er ungur og hungraður. Smith bakkar oft á búrið og hefur áður verið stjórnað í gólfinu. Ég held samt að það verði mikið scrambl í gólfinu en Crute endi á því að ná að stjórna Smith. Crute dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Anthony Smith er alls ekki frábær bardagamaður en hann er með meira hjarta og viljastyrk en flestir i UFC. Þannig þetta verður erfitt próf fyrir Crute sem er mjög spenanndi efni í UFC og er kominn með þónokkra reynslu í búrinu. Cute mun vera mjög sannfrærandi í þessum bardaga en Smith er grjótharður og endist allar þrjár. Crute dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Jimmy Crute er spennandi efni og hefur bara hikstað á ferlinum á móti Misha Cirkunov. Smith er reynslumikill og hættulegur andstæðingur en ég held að Crute sé bara betri. Crute á stigum.

Anthony Smith: ..
Jimmy Crute: Pétur, Brynjólfur, Sævar, Óskar

Heildarstig ársins:

Brynjólfur: 12-7
Sævar: 12-7
Óskar: 11-8
Pétur: 11-8
Guttormur: 9-10

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular