spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSpámaður helgarinnar: Helgi Rafn Guðmundsson

Spámaður helgarinnar: Helgi Rafn Guðmundsson

Helgi Rafn
Helgi Rafn

Spámaður helgarinnar að þessu sinni er Helgi Rafn Guðmundsson, BJJ yfirþjálfari Sleipnis í Keflavík. Helgi fylgist vel með MMA og því vel við hæfi að fá hann til að spá fyrir um eitt stærsta bardagakvöld ársins. Við gefum Helga orðið.

Það eru mikil forréttindi fyrir MMA áhugamann að fá að gefa spá sína fyrir eitt stærsta kort ársins. Á þessu korti verður það sem margir tala um sem “stærsta rematch allra tíma í MMA” og er það að sjálfsögðu bardagi Anderson Silva gegn Chris Weidman.

Millivigt: Chris Weidman (c) vs. Anderson Silva – Titilbardagi

Crish Weidman rotaði Anderson Silva í fyrri bardaga þeirra eins og frægt er orðið og voru það einhver óvæntustu úrslit í sögu UFC. Það er ekki endilega vegna þess að Weidman sigraði, heldur hvernig, en Silva hefur aldrei tapað bardaga á rothöggi. Silva var (og er) af mörgum talinn besti sparkboxarinn í MMA.

Það er erfitt að velja sigurvegara í svona bardaga. Weidman er ósigraður og virðist hafa alla færni sem þarf til að sigra Silva, sérstaklega í glímumiðuðum bardaga. Í fyrri bardaga þeirra þá náði Weidman fellu snemma og sótti lása á Silva. Þrátt fyrir að hafa svo náð að rota Silva þá held ég að það væru mistök að halda að það muni gerast aftur. Ef Weidman spilar þetta rétt þá gæti hann farið úr búrinu með beltið sitt.

En hafandi sagt allt það þá er Anderson Silva klárlega einn allra besti MMA keppandi sögunnar. Það að afskrifa hann eða að veðja á móti honum hefur ekki verið mörgum til framdráttar. Ég segi að Silva vinni þennan bardaga á rothöggi/tæknilegu rothöggi í 1. eða 2. lotu. Það mun líka búa til mjög skemmtilegan þríleik þar sem þeir myndu þá klárlega þurfa að keppa einu sinni enn til að ákvarða hvor þeirra er í raun betri bardagamaður.
Bantamvigt kvenna: Ronda Rousey (c) vs Miesha Tate – Titilbardagi

Ronda Rousey og Miesha Tate hafa keppt áður þegar þær voru í Strikeforce. Þá vann Rousey eins og alla sína bardaga á armbar í fyrstu lotu. Ekki bara það heldur var Tate þrjósk við að gefast upp og uppskar brotna hönd fyrir vikið. Það var mjög ljótt brot að horfa á en þrátt fyrir það þá var Tate komin aftur á völlinn eftir aðeins 6 mánuði og átti mjög góða frammistöðu.

Nú fyrir stuttu var að klárast “The Ultimate Fighter” serían þar sem Rousey og Tate voru þjálfararnir. Upphaflega átti Cat Zingano að þjálfa á móti Rousey og keppa svo við hana en þar sem Zingano meiddist þurfti Tate að stíga í skarðið. Það var mikill hiti á milli þeirra og virtist oft ætla að leysast upp í slagsmálum. Það er greinilegt að þessar dömur hafa ekki mikið álit á hvor annarri.

Þessi bardagi held ég fari eins og aðrir bardagar Rousey. Hún kemur með sterka pressu strax frá byrjun og virðist alveg sama um að fá nokkur högg á sig. Þegar Rousey er búin að loka fjarlægðinni og komast í návígið er voða lítið sem flestar konur í heiminum geta gert til að stoppa það sem kemur næst. Rousey nær kasti og byrjar að sækja þaðan. Ég ætla reyndar að gefa Tate það að hún nái að verjast í gólfinu lengur en andstæðingar Rousey hafa hingað til og komast í 2. lotu. Tate er ljónhörð og hefur haft langan tíma til að undirbúa sig. Rousey sigrar á armbar í 2. lotu.
Þunggavigt: Josh Barnett vs Travis Browne

Báðir þessir þungavigtarjötnar eru að koma frá stórum sigrum. Barnett rotaði Frank Mir með hnésparki og Browne rotaði Alistair Overeem frekar óvænt með framsparki. Browne er búinn að safna áhrifamikilli ferilskrá útaðtaðir í rothöggum á ógnvægilegan hátt. Barnett er hins vegar með mun meiri reynslu, næstum tvöfalt fleiri bardaga, og hefur keppt við mörg af stærstu nöfnunum í bransanum.

Barnett er gífurlega ákáfur bardagamaður með þokkalegt sparkbox og mjög góða glímufærni. Browne er með gott sparkbox, góðan kraft í höggum og ágætis gólfgímu, en felluvörnin hans hefur ekki verið uppá sitt besta. Ég tel að Barnett ýti Browne upp við búrið til að taka í burtu sparkboxkið hans og langa faðminn. Þar mun Barnett tudda hann til, fella hann niður og klára með tæknilegu rothöggu í 2. lotu og fylgir því eftir með því að draga þumalinn þvert yfir barkann á sér eins og hann er frægur fyrir.
Léttvigt: Jim Miller vs. Fabrício Camões

Hér er á ferðinni léttvigarbardagi tveggja kraftmikla gólfglímusnillinga. Ég hlakka mikið til að sjá þennan bardaga því ég held að það verði mikið um skemmtilega og tæknilega glímu. Báðir þessir menn eru sterkir og hafa kraft til að rota þrátt fyrir að gólfið sé þeirra sérsvið. Ég held að bardaginn fari allar þrjár loturnar og eitthvað verði um að þeir skiptist á höggum, aðalmálið mun vera gólfbardgainn þar sem ég segi að Camões muni hafa yfirhöndina og sigra á dómaraúrskurð, jafnvel klofnum dómaraúrskurð (split decision).
Fjaðurvigt: Dustin Poirier vs. Diego Brandao

Þessir tveir fjaðurvigtarmenn eru þekktir fyrir ákafa og skemmtilega bardaga. Þeir eru báðir með góða gólfglímu og geta rotað menn standandi. Brandao fór í gegnum “The Ultimate Fighter” seríuna þar sem hann vann. Porier var í WEC samtökunum þar til það sameinaðist UFC. Poirier átti einnig bardaga ársins 2012 við  Jung Chan-Sung að mati margra fjölmiðla þar sem hann tapaði þó með hengingu fyrir “kóreska uppvakningnum”. Ég held að Brandao verði árásargjarn í fyrstu lotu og sigri hana. Þá fer Porier í gang og sigrar næstu tvær. Porier vinnur með dómaraúrskurð 29-28.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular