Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Þorgrímur Þórarinsson (UFC 216)

Spámaður helgarinnar: Þorgrímur Þórarinsson (UFC 216)

UFC 216 fer fram annað kvöld í Las Vegas. Spámaður helgarinnar að þessu sinni er Þorgrímur Þórarinsson en hann er einmitt að berjast í London sama kvöld.

Bardagakvöldið er nokkuð spennandi en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Tony Ferguson og Kevin Lee. Þorgrímur hefur æft MMA um nokkurt skeið og fylgist vel með MMA heiminum. Þorgrímur mætir Dalius Sulga (4-3) frá Litháen annað kvöld á FightStar bardagakvöldinu en þetta verður annar áhugamannabardagi Þorgríms. Gefum honum orðið.

Léttvigt: Beneil Dariush gegn Evan Dunham

Fyrsti bardagi Dariush eftir martraðar rothöggið á móti Edson Barboza. Spurning hvernig hann hefur jafnað sig á því, ekki síst andlega. Dunham er á flottu róli og fullur sjálfstrausts og hann kemur pottþétt grimmur inn í þennan bardaga. Mikið rúm hefur myndast í léttvigtinni eftir að dos Anjos og Cerrone fóru upp og spurning með Khabib. Mikilvægt fyrir þessa gaura að koma með alvöru statement um helgina og negla sér ofar í umræðunni í deildinni. Dunham tekur þetta eftir klofna dómaraákvörðun.

Fluguvigt kvenna: Mara Romero Borella gegn Kalindra Faria

Viðurkenni að ég veit ekkert um þær. Báðar að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC og ég ætla ekki að þykjast þekkja þær. Mér er sagt að Borella sé svartbeltingur í júdó og BJJ og hafi átt flotta frammistöðu á Invicta 24, sama kvöld og Sunna Rannveig barðist við Kelly D‘Angelo. Faria er brasilísk og með góðan slatta af submission sigrum. Hún er einnig með tap eftir klofna dómaraákvörðun gegn Karolinu Kowalkiewicz undir beltinu. Væri flott að sjá þær fara í gólfið en þetta mun líklegast ráðast á því hvor er betri striker. Segi að Faria taki þetta með TKO í 3. lotu.

Þungavigt: Fabricio Werdum gegn Derrick Lewis

Lewis er kominn í salatið og byrjaður að æfa eins og maður í fyrsta sinn á ferlinum. Það væri gríðarlega sterkt hjá honum að rota Werdum en ég tel það vera eina möguleika hans á sigri í þessum bardaga. Werdum er orðinn fertugur og hann á ekki mörg ár eftir en hann er samt ennþá hrikalegur. Þó Lewis sé búinn að vera að æfa vel er þetta of stuttur tími til að hann sé orðinn að cardio vél. Hann vill lenda snemma og steinrota Werdum, sem hefur sýnt að hann getur verið kærulaus. Líklegra tel ég þó að Werdum sýni klærnar, leyfi Lewis að sprengja snemma og þreyti hann. Því lengri sem þessi bardagi verður, því betra fyrir Werdum. Lykillinn að sigri hjá honum er þolinmæði. Werdum tekur þetta með uppgjafartaki í 3. lotu.

Titilbardagi í fluguvigt: Demetrious Johnson gegn Ray Borg

Borg segist vilja vinna Johnson meira en nokkur annar. Það þarf hins vegar mun meira til að sigra meistarann og Borg þarf að byrja á að klára cuttið, sem hann hefur verið í mestu vandræðum með á sínum ferli. Takist honum það tel ég samt að Johnson muni leika sér að honum. Þetta verður önnur rós í hans hnappagat þó það væri yndislegt að sjá Borg setja smá fútt í þennan þyngdarflokk með óvæntum sigri. Það væri í raun það besta sem gæti komið fyrir DJ því hann þarf svo innilega á smá drama að halda. Ef Borg vinnur verður rematchið milli þeirra mögulega PPV main event sem væri hægt að selja öðrum en topp 1% hörðustu MMA áhugamönnum veraldar. Sé það hins vegar ekki gerast. Johnson klárar þetta með TKO í 2. lotu.

Bráðabirgðartitilbardagi í léttvigt: Tony Ferguson gegn Kevin Lee

Virkilega áhugaverður bardagi. Ef Kevin Lee tekst að sigra þennan bardaga stendur hann með pálmann í höndunum. Sigur á Ferguson myndi þýða að hann gæti fyrir alvöru farið að pressa á að fá að berjast við McGregor og ekki ólíklegt að Íranum þætti það álitlegur kostur. UFC mun ekki hika við að skella honum fram fyrir menn eins og Khabib og Diaz í þeirri röð svo það er mikið undir hjá honum. Ferguson er hins vegar, að mínu mati, hættulegasti maðurinn í þessari deild og býst ég við engu öðru en að þetta verði erfitt kvöld fyrir Lee. Ferguson mun ekki bara sigra hann heldur gjörsamlega berja hann í klessu áður en hann klárar hann með vondu uppgjafartaki sem enginn hefur áður séð. Ferguson klárar þetta með uppgjafartaki í 3. lotu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular