Saturday, April 27, 2024
HomeErlentSteve Erceg berst um beltið á UFC 301

Steve Erceg berst um beltið á UFC 301

Ástralinn Steve “Astroboy” Erceg fær risastórt tækifæri þegar hann mætir fluguvigtarmeistaranum Alexandre Pantoja í titilbardaga á UFC 301 í Rio, Brasilíu 4. maí þar sem sá síðarnefndi er að sjálfsögðu á heimavelli. 

Pantoja tók beltið af Brandon Moreno í júlí í fyrra og varði það gegn Brandon Royval í desember, bæði í Las Vegas, en fær núna að berjast og verja beltið sitt í annað skipti fyrir framan þjóð sína.

Það getur vel verið að Steve Erceg hafi flogið undir radar, jafnvel hjá fólki sem er vel að sér um UFC og MMA, en það er minna en ár síðan hann þreytti frumraun sína í UFC. Það var í júní í fyrra en síðan þá hefur hann barist þrisvar sinnum, unnið alla þá bardaga og situr núna í 10. sæti styrkleikalistans.

Hann setti sig á kortið fyrr í þessum mánuði þegar hann steinrotaði Matt Schnell í Apex-inu en Erceg, sem er með 12-1 atvinnumanna feril, hefur núna unnið 11 bardaga í röð. Þó Erceg hafi vissulega kraft í höndunum til að rota menn eins og hann sýndi okkur um daginn er hann 2. gráðu svartbeltingur og hafa flestir sigrarnir á atvinnumanna ferlinum komið eftir uppgjafartök, 6 talsins.

Margir hafa furðað sig á því að Erceg fái þetta skot á titilinn þar sem 9 aðrir bardagamenn ættu að vera á undan í röðinni en ef við skoðum styrkleikarlistann í fluguvigtinni kemur eitt og annað í ljós. Efstu tveir eru Brandon Royval og Brandon Moreno. Þeir nafnar eru nýbúnir að berjast við hvorn annan í 5 lotur og ólíklegt að þeir yrðu tilbúnir aftur á svo stuttum tíma. Pantoja er líka nýbúinn að vinna þá báða. Amir Albazi hefur verið að díla við hálsmeiðsli og er nýkominn úr aðgerð, hann vann Kai Kara-France í síðasta bardaga sínum sem er næstur í röðinni en hann átti bókaðan bardaga gegn Manel Kape á UFC 293 sem hann þurfti að draga sig útúr vegna heilahristings og spurning hvort það sé enn að halda honum frá.

Manel Kape og Matheus Nicolau sem sitja í 5. og 6. sæti styrkleikalistans eiga bókaðan bardaga við hvorn annan í lok apríl og næstir á eftir þeim eru Muhammad Mokaev og Alex Perez sem mættust á sama kvöldi og Erceg rotaði Schnell. Muhammad Mokaev vann þann bardaga, en bara rétt svo, á meðan að Erceg átti eftirminnanlega frammistöðu og sigraði á svakalegu rothöggi.

Eini maðurinn eftir fyrir ofan Erceg á styrkleikarlistanum er Tim Elliot en þrátt fyrir að hafa litið ágætlega út undanfarið er hann 37 ára gamall og tapaði t.a.m. fyrir Mokaev nýlega.

Þó að það virki skrítið að bardagamaður í 10. sæti styrkleikalistans fái tækifæri á titilbardaga er það svosem alveg skiljanlegt þegar maður skoðar dæmið nánar. Steve Erceg gæti vel komið á óvart í þessum bardaga. Eins og komið hefur fram hefur hann mikinn kraft í höndunum og það gæti reynst Pantoja erfitt að ná tappinu frá Ástralska svartbeltingnum.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular