Invicta tilkynnti í gær að sigurvegari útsláttarmótsins í maí verði nýr strávigtarmeistari Invicta. Sunna segir þetta vera óvæntan glaðning og hefur lengi beðið eftir slíku tækifæri.
Þann 3. maí verður Invicta með 8-kvenna útsláttarmót í 115 punda strávigt á einu kvöldi. Invicta eru stærstu kvennabardagsamtök heims en þetta er í fyrsta sinn sem bardagasamtökin halda slíkt mót. Fari keppendur alla leið í úrslit geta þær átt von á því að berjast þrjá bardaga á einu kvöldi. Fyrstu tveir bardagarnir eru þó aðeins ein fimm mínútna lota á meðan úrslitabardaginn er hefðbundnar þrjár lotur.
Invicta greindi frá því í gær að sigurvegari mótsins verði nýr strávigtarmeistari Invicta. Strávigtarmeistari Invicta, Virna Jandiroba, samdi nýverið við UFC og hefur því látið beltið af hendi. Beltið er því laust og er því enn meira í húfi í mótinu núna.
„Ég hafði grun um að það yrði óvæntur glaðningur fyrir sigurvegara mótsins að fá beltið þar sem eigandi þess hefur nýlega yfirgefið það og gert samning við UFC. Stuttu síðar komst ég að því að þetta var raunin og hjartað tók kipp og því sé ég fyrir mér að draumur minn sé í þann mund að rætast. Allt sem á undan hefur gengið er alveg eins og það átti að vera og gerast. Síðan ég var í Tælandi árið 2013 og tók minn fyrsta áhugamannabardaga í blönduðum bardagalistum og byrjaði að fylgjast með Invicta hef ég séð þetta fyrir mér. Ég var staðráðin í því að gerast atvinnukona og berjast fyrir Invicta og einn daginn eignast þetta belti. Núna er ég að fá tækifærið sem ég hef verið að bíða eftir og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að beltið komi með mér heim,” segir Sunna er fram kemur í fréttatilkynningu.
Í gær var svo greint frá því hverjar mætast í fyrstu umferð mótsins en Sunna mætir fyrrum UFC-bardagakonunni Kailin Curran.
„Kailin Curran er verðugur fyrsti andstæðingur og ég hlakka til að mæta henni. Annars skiptir það mig engu máli hverri þeirra ég mæti fyrst. Þær eru allar góðar og ég þarf að geta sigrað hverja einustu þeirra til þess að eiga beltið skilið. Ég hef trú á getu minni og er full af jákvæðri orku og eftirvæntingu til þess að fá að láta ljós mitt skýna á ný og ég hef það á tilfinningunni að 3. maí verði bjartur og góður dagur,” segir Sunna að lokum.
Invicta mótið fer fram þann 3. maí í Kansas en bardagakvöldið verður sýnt á Stöð 2 Sport.