spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig meidd út árið

Sunna Rannveig meidd út árið

Sunna Rannveig Davíðsdóttir mun ekkert berjast meira á þessu ári. Sunna er að glíma við handarmeiðsl og þarf að taka sér nokkurra mánaða hvíld áður en hún getur snúið aftur í búrið.

Sunna Rannveig sigraði Kelly D’Angelo á Invicta FC 24 þann 15. júlí. Eftir bardagann greindi Sunna frá því að hún hefði átt við handarmeiðsli að stríða og færi í nánari skoðun. Nú er komið í ljós að Sunna verður ófær um að berjast næstu mánuði.

„Þetta er bólga í beininu á handarbeininu en þetta gerðist sem sagt í bardaganum gegn Mallory Martin [í mars] og síðan þá hefur verið mikið álag á höndinni í langan tíma. Ég er búin að vera sködduð síðan og tímabært að taka smá hvíld,“ segir Sunna.

„Eftir Mallory Martin bardagann hélt ég bara áfram að æfa með hægri höndina meidda. Ég var þá dottin í camp fyrir Kelly D’Angelo bardagann en höndin var orðin þannig að ég gat ekkert kýlt. Ég var þá farin að taka hanskana af mér á æfingum til að minna mig á að vera ekki að kýla með höndinni. Ég fór í röntgen myndatöku sem sýndi ekkert brot og ákvað því að fara í bardagann þrátt fyrir að höndin væri slæm.“

Eftir bardagann gegn Angelo var hönd Sunnu nánast tvöföld að stærð og þurfti hún því að bíða í nokkra daga með að fara aftur í röntgen myndatöku. Sú myndataka sýndi ekkert heldur og var þá ákveðið að fara í segulómun.

„Sigurður Sölvi sjúkraþjálfari tók mig að sér og byrjaði á því að setja mig í spelku frá Eirberg þannig að ég gat sett kælingu og liðkað höndina eftir að hafa verið í gifsi. Ég fór svo í 3. myndatökuna sem var tölvusneiðsmynd til að staðfesta niðurstöðurnar úr segulómunina og kom í ljós að það var bólga í beininu.“

„Læknarnir sögðu að það hefði verið skárra að fá clean brot en núna er ekkert annað að gera nema að hvíla höndina. Ég get ekki sett neitt álag á hana, get ekki tekið armbeygjur, get ekki tekið planka og get ekki einu sinni undið tusku.“

Mynd: Scott Hirano

Það er því ljóst að Sunna mun ekkert berjast meira á árinu en í vikunni greindum við frá því að Gunnar Nelson mun ekki heldur berjast á árinu. Tveir af færustu bardagamönnum þjóðarinnar verða því á hliðarlínunni út árið.

„Það er ekki mín sterka hlið að hvíla en núna þarf ég að vera skynsöm og hvíla almennilega. Ég ætla bara að vera dugleg að styrkja það sem maður er ekki vanur að vinna með; vinna með sjúkraþjálfara, vinna með Ingu Birnu styrktarþjálfara og gera öðruvísi æfingar. Fá meira líkamlegt jafnvægi og stilla toppstykkið þannig að ég verð bara sterkari þegar ég kem til baka.“

„Þetta á eftir að taka svona 4-8 mánuði segir læknirinn en ég ætla að gera allt 100% rétt til að komast sem fyrst til baka. Ég mun halda mér í formi og set nýtt álag á líkamann en svo er ég líka byrjuð að vinna með Hafrúnu [Kristjánsdóttur] íþróttasálfræðingi og það á eftir að hjálpa mér klárlega.“

Sunna var nýlega ráðin sem yfirþjálfari í Kickbox kennslu Mjölnis og mun því ekki sitja á auðum höndum þrátt fyrir meiðslin.

Sunna er 3-0 í Invicta bardagasamtökunum eftir að hafa tekið sinn fyrsta atvinnubardaga í september. Sunna tók þrjá bardaga á tíu mánuðum en þarf að fylgjast með frá hliðarlínunni að þessu sinni.

„Þetta verður svona fram að áramótum og þá vona ég að ég verði komin í þannig stand að byrja að skoða bardaga þá. Mig langaði að taka fjóra til fimm bardaga á árinu en þetta ár bauð ekki upp á meira. Ég er samt þakklát fyrir bardagana tvo og að þeir hafi gengið vel. Það er langt síðan ég hvíldi almennilega og mun ég koma til baka hungruð og sterkari en nokkru sinni fyrr.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular