spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig: Það er hausinn sem vinnur bardaga, ekki skrokkurinn

Sunna Rannveig: Það er hausinn sem vinnur bardaga, ekki skrokkurinn

Sunna Rannveig Davíðsdóttir átti magnaða frammistöðu í nótt gegn Kelly D’Angelo. Sunna sigraði eftir dómaraákvörðun og langar helst að fá tvo bardaga í viðbót á þessu ári.

Sunna vanna allar þrjár loturnar að mati dómaranna en önnur lotan var afar einhliða Sunnu í vil. Sunna er núna 3-0 á atvinnuferlinum og getur vel við unað eftir frábæra byrjun hjá Invicta bardagasamtökunum.

„Þetta var mjög erfiður bardagi og virkilega sterk og öflug stelpa sem ég var að berjast við. Það var mín áætlun allan tímann að ná henni í gólfið og reyna að klára hana þar. Ég vissi að hún væri öflug standandi og ég vissi að hún væri með hættulega hægri hönd. Ég fann að hún reyndi að fá mig til að hefja sóknirnar svo hún gæti svarað með öflugum höggum og þó svo að ég hafi fengið nokkur í mig þá var þetta aldrei neitt sem ég fann mikið fyrir,“ segir Sunna um bardagann er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Ég var mjög meðvituð og ætlaði ekki að ganga inn í þungt högg að óþörfu. Ég þurfti að hafa talsvert fyrir því að ná henni í gólfið. Það tókst samt nokkrum sinnum en hún varðist vel þar. Mig langaði svo mikið að klára þennan bardaga. Fyrri tveir bardagarnir mínir hafa báðir endað með einróma dómaraákvörðun og það er alveg kominn tími á að ég klári með rothöggi eða uppgjafartaki. Fyrst það gerðist ekki núna, þá er á hreinu að ég næ því næst.“

Sunna var ekki mikið að skoða andstæðinginn fyrirfram og lét það í hendur þjálfaranna. Hún hitti hana þó nokkrum sinnum fyrir bardagann og ber mikla virðingu fyrir henni.

„Ég hitti hana nokkrum sinnum núna í vikunni og þetta er bara mjög hlý og almennileg stelpa og maðurinn hennar líka. Ég passaði mig á því að vera ekki of vinaleg því mér hættir til að vingast við flesta sem ég hitti. Það er dálítið óheppilegt að vera að fara að berjast við manneskju sem manni líkar svo vel við að mann langi bara helst að fara með henni í bíó. Við áttum gott spjall núna áðan og við munum í það minnsta adda hvor annarri og hver veit nema við höldum sambandi. Það hefur allavega verið raunin með hinar tvær sem ég er búin að berjast við hjá Invicta. Kelly á alla mína virðingu. Hún er að blanda því saman að vera slökkviliðskona og atvinnubardagakona og mér finnst það magnað að hún geti gert þetta tvennt og staðið sig svona vel í báðu.“

Sunna klæddist íslensku landsliðstreyjunni í knattspyrnu er hún gekk í búrið en Sunna hitti kvennalandsliðið okkar skömmu áður en hún fór út.

„Þær komu og tóku æfingu með okkur í Mjölni og það var einhver órjúfanleg samheldni og baráttustemmning í þeim sem hreif mig. Þær voru hressar og jákvæðar en á sama tíma grjótharðar og gáfu ekkert eftir á æfingunni. Að æfingu lokinni færðu þær mér þessa treyju sem gjöf, áritaða af öllu liðinu. Mér þótti ofsalega vænt um það og ég ákvað þar og þá að ég myndi ganga inn í henni. Þessi treyja gerir mig stolta. Stolta af landinu mínu og stolta af stelpunum okkar. Ég ætlaði einmitt að segja nokkur orð um þetta í viðtalinu á eftir bardaganum en svo var bara svo margt að brjótast um í mér að ég kom því ekki að. Ég og dóttir mín erum heldur betur að fara vera límdar við skjáinn á meðan þær spila á EM og ég hlakka mikið til þess. Áfram Ísland.“

Þrátt fyrir þessa frábæru frammistöðu gekk undirbúningurinn ekki snurðulaust fyrir sig. Sunna var að glíma við ýmis meiðsli en segir að mestu máli skiptir að vera með hausinn í lagi.

„Það er hausinn sem sigrar bardaga, ekki skrokkurinn, og í þessar mínútur sem við erum í búrinu þá finnum við ekkert til. Adrenalíflæðið sér um það. Það voru þeir Bjarki Þór Pálsson og Árni Ísaksson sem sáu um þjálfunina og helsta undirbúning minn fyrir þennan bardaga og það var alveg frábært. Þeir pössuðu vel upp á mig og létu hlutina ganga. Það er búið að vera ferlega gaman hérna úti í Kansas hjá okkur og ég er ofboðslega þakklát fyrir að hafa þá í horninu mínu.“

Sunna stefnir á að skella sér til Tælands á næstunni og setur verðlaunaféð fyrir bardagann beint í þann sjóð. Þetta var hennar annar bardagi á árinu og vill hún helst taka tvo í viðbót á þessu ári.

„Ég kem tiltölulega seint inn í atvinnumennskuna þar sem keppni í íþróttinni er bönnuð heima á Íslandi. Við sem erum í bardagasportinu líðum öll fyrir það og ferilskrá okkar flestra væri mun lengri og enn glæsilegri ef við gætum keppt oftar. Ég er hins vegar á góðu róli núna og þess vegna setti ég mér það markmið að komast í 5-0 á þessu ári.. Ég er með gott fólk í kringum mig, öfluga styrktaraðila og mig langar að nýta þetta tækifæri sem ég hef og fara alla leið,“ segir Sunna að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular