Sunna Rannveig Davíðsdóttir sigraði sinn fyrsta atvinnubardaga um síðustu helgi. Við spjölluðum við Sunnu í gær um bardagann, stuðninginn, framhaldið og fleira.
Sunna Rannveig bar sigur úr býtum gegn Ashley Greenway á Invicta FC 19 bardagakvöldinu í Kansas síðasta föstudag. Sigurinn var í raun aldrei í hættu og var Sunna mjög örugg allan bardagann.
Sunna segir að það hafi komið sér á óvart hve róleg hún hafi verið í skæru ljósunum í bardaganum. „Það kom mér óvart hvað það var mikið af ljósum, mikið bjartari ljós, mun meira af áhorfendum, camerur í andlitinu á manni, þetta var svona umfangsmeira en maður er vanur. Bjóst við að ég yrði aðeins stressaðri. Ég var stressuð í aðdragandanum, á media deginum þá var ég mjög stressuð. En þarna í búrinu leið mér rosalega vel, taugarnar góðar og ég var í mjög góðu zone-i, andlega vel stemmd. Tilbúin. Media dagurinn var miklu erfiðari en bardaginn sjálfur,“ segir Sunna.
Sunna var gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn en reyndi að forðast samfélagsmiðla síðustu daga fyrir bardagann. Það sem hún sá gaf henni þó mikinn kraft og hvatningu. „Ég er alveg orðlaus yfir stuðningnum sem ég hef fundið fyrir. Að vera með alla þjóðina við bakið á sér að styðja mann og hvetja mann áfram er ólýsanlegt. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Fyrir bardagann fann ég fyrir þessu í hjartanu.“
Sunna kom úr bardaganum ekki með skrámu á sér og er tilbúin að berjast aftur fljótlega. Viðtalið við Sunnu má sjá hér að neðan.