Sunna Rannveig Davíðsdóttir keppti í strávigtarmóti Invicta í kvöld. Sunna féll því miður úr leik eftir tap í fyrstu umferð.
Sunna Rannveig mætti Kailin Curran í fyrstu umferð strávigtarmótsins Phoenix Rising í Kansas í kvöld. Átta konur kepptu um strávigtartitil Invicta í kvöld og þurfti sigurvegarinn að fara í gegnum þrjá bardaga til að verða meistari. Fyrstu tveir bardagarnir voru þó bara ein fimm mínútna lota hvor.
Bardagi Sunnu og Curran hafði allt upp á bjóða sem góður MMA bardagi þarf að hafa og var æsispennandi allan tímann. Curran kýldi Sunnu niður eftir 1:25 í 1. lotu og byrjaði þetta því ekki vel fyrir Sunnu.
Sunna sýndi þó alvöru baráttuhjarta. Hún kom sér aftur upp, náði fellu og var sjálf komin í yfirburðarstöðu 30 sekúndum seinna. Sunna náði að fletja Curran út í gólfinu og lét þung högg dynja á Curran. Curran kom sér úr slæmri stöðu og náði að spyrna Sunnu frá sér og standa upp. Sunna missti því góða stöðu í gólfinu sem reyndist dýrkeypt en Curran gerði vel.
Skömmu eftir að þær stóðu upp náði Curran aftur að kýla Sunnu niður. Aftur sýndi Sunna baráttuvilja og tókst að harka þetta af sér. Sunna náði svo aftur fellu síðustu mínútuna en náði ekki að komast í jafn góða stöðu og í fyrra skiptið. Bardaginn kláraðist þar sem Sunna var ofan á að kýla Curran og voru þetta afar skemmtilegar fimm mínútur.
Bardaginn fór því í dómaraákvörðun og voru dómararnir ósammála um hvor hefði haft betur. Tveir dómarar töldu að Curran hefði sigrað á meðan sá þriðji gaf Sunnu sigurinn. Curran fór því áfram í undanúrslit en henni tókst að kýla Sunnu niður tvisvar sem skilaði henni sigrinum.
Sunna er því 3-1 sem atvinnumaður en gaf allt sem hún átti í þetta þær fimm mínútur sem hún var í búrinu. Það munaði ekki miklu hjá Sunnu í kvöld en þetta var fyrsti bardagi hennar í 21 mánuð.
Kailin Curran vann undanúrslitabardagann einnig og mætti Brianna Van Buren í úrslitum. Sú síðarnefnda var hins vegar besta bardagakona kvöldsins og kláraði Curran með hengingu í 2. lotu. Van Buren var mögnuð í kvöld og lenti ekki í neinum vandræðum með bardagana þrjá. Van Buren gæti verið ný stjarna fædd og hún er því nýr strávigtarmeistari Invicta bardagasamtakanna.
Mótið var afar skemmtilegt og óhætt að segja að þetta hafi verið gríðarlega vel heppnað. Mótið gekk hratt fyrir sig og voru flestir fimm mínútna bardagarnir æsispennandi. Öll úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan:
Strávigt úrslit: Brianna van Buren sigraði Kailin Curran með uppgjafartaki (rear naked choke) eftir 3:49 í 2. lotu.
Strávigt: Magdaléna Šormová sigraði Kay Hansen eftir klofna dómaraákvörðun (28-29, 29-28, 29-28).
Strávigt undanúrslit: Kailin Curran sigraði Sharon Jacobson eftir dómaraákvörðun.
Strávigt undanúrslit: Brianna van Buren sigraði Juliana Lima eftir dómaraákvörðun.
Strávigt varabardagi: Alyssa Krahn sigraði Itzel Esquivel eftir klofna dómaraákvörðun.
Strávigt fjórðungsúrslit: Sharon Jacobson sigraði Amber Brown eftir dómaraákvörðun.
Strávigt fjórðungsúrslit: Brianna van Buren sigraði Manjit Kolekar með uppgjafartaki (armbar) eftir 3:20 í 1. lotu.
Strávigt fjórðungsúrslit: Juliana Lima sigraði Danielle Taylor eftir klofna dómaraákvörðun.
Strávigt fjórðungsúrslit: Kailin Curran sigraði Sunnu Davíðsdóttir eftir klofna dómaraákvörðun.