Einn besti glímumaður heims, Vinny Magalhaes, hefur komið Conor McGregor til varnar eftir bardagann gegn Nate Diaz á laugardaginn. Margir hafa gagnrýnt glímugetu McGregor en Magalhaes er með skýr skilaboð til gagnrýnendanna.
Líkt og þegar Ronda Rousey tapaði hafa margir gagnrýnt hæfileika Conor McGregor. Nokkur „meme“ hafa skotist upp á yfirborðið þar sem netverjar gera grín að McGregor og gagnrýnendur hans segja hann þurfa að læra brasilískt jiu-jitsu.
„Til allra þeirra sem gagnrýna jiu-jitsu hæfileika McGregor; hvað hefðuð þið gert öðruvísi ef þið væruð búin á því, með frábæran svartbelting ofan á ykkur að láta þung högg rigna yfir ykkur? Ég sé marga BJJ iðkendur segja að McGregor ætti að læra BJJ og vörnin hans væri eins og hjá hvítbeltingi. Þið megið nota ykkar IBJJF [alþjóðlegt BJJ-samband] jiu-jitsu stíl í bardaga, reynið að berimbolo einhvern þegar hann er að kýla ykkur og látið mig vita hversu vel ykkur gekk á gólfinu,“ sagði Magalhaes harðorður á Facebook síðu sinni.
„Nate vann ekki bardagann af því McGregor er ömurlegur á gólfinu. Honum tókst fyrst að vanka hann standandi með boxinu sínu sem leiddi til þess að McGregor fór í fellu í örvæntingu sinni. Það sem við sáum kom ekki á óvart þar sem Conor var vankaður og undir frábærum glímumanni sem er klárlega betri en Conor á því sviði. Þú kæri BJJ iðkandi, sem hefur aldrei þurft að nota BJJ í bardaga (hvað þá gegn heimsklassa glímumanni), ert ekki betri glímumaður en Conor eins og þú gætir haldið.“