spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentT.J. Dillashaw: Ég svindlaði

T.J. Dillashaw: Ég svindlaði

Það hefur lítið farið fyrir T.J. Dillashaw eftir að hann féll á lyfjaprófi fyrr á árinu. Dillashaw mætti í hlaðvarp Chael Sonnen á dögunum þar sem hann tjáði sig um lyfjaprófið.

T.J. Dillashaw var bantamvigtarmeistari UFC og freistaði þess að fara niður í fluguvigt til að skora á Henry Cejudo. Dillashaw ætlaði að verða meistari í tveimur flokkum á sama tíma en Cejudo rotaði hann á aðeins 32 sekúndum.

Rúmum mánuði eftir bardagann kom í ljós að Dillashaw hefði fallið á lyfjaprófi sem tekið var daginn sem bardaginn fór fram. EPO fannst í lyfjaprófinu en um er að ræða hormón sem örvar framleiðslu líkamans á rauðum blóðkornum sem eykur þar af leiðandi flutning á súrefni og eykur þol. Dillashaw lét bantamvigtarbeltið af hendi þegar hann vissi að hann hefði fallið á lyfjaprófi. Cejudo tókst á dögunum að verða tvöfaldur meistari með því að sigra Marlon Moraes og er því fluguvigtar- og bantamvigtarmeistari UFC.

„Þetta hafa verið erfiðustu tímar lífs míns og besti tími lífsins. Ég á 17 mánaða son og hann hefur verið frábær truflun fyrir mig. Þetta hefur verið erfitt fyrir mig og er ég afar þakklátur fyrir son minn. Það hefur verið erfitt að láta sjá sig,“ sagði Dillashaw.

Dillashaw var á Bellator 222 um síðustu helgi með liðsfélaga sínum, Juan Archuleta, en það var í fyrsta sinn sem hann hefur mætt á MMA viðburð eftir tapið gegn Cejudo. „Ég hef verið í felum. Ég hef ekki gert nein viðtöl, ég hef bara verið í felum. Það er ýmislegt sem ég hef viljað segja en vildi ekki vera með neinar afsakanir.“

Dillashaw skar niður í fluguvigt fyrir bardagann gegn Cejudo og var það hans fyrsti bardagi í fluguvigt. Dillashaw sagði fyrir bardagann að niðurskurðurinn væri afar vísindalegur og gengi vel en annað hefur komið á daginn. Dillashaw náði vigt og var tágrannur.

„Í fyrsta lagi þá svindlaði ég. Það er engin leið framhjá því. Ég vildi ekki vera með neina afsakanir, svona var þetta bara. Ég gerði þetta og vil vera heiðarlegur með það.“

„Ég var svo æstur í að gera eitthvað sem enginn hafði gert áður. Mig langaði að sanna að ég væri bestur í heimi. Ég fór niður um þyngdarflokk og lét eins og það væri ekkert mál en ég gekk fram af líkamanum. 6 vikum fyrir bardagann byrjaði líkaminn að brotna niður og ég fór að þreytast. Mig langaði ekki vakna fyrir æfingar.“

„Ég mæli og prófa allt. Ég gerði prófanir á hárinu til að kanna möguleg eiturefni, ég geri prófanir á munnvatni mínu til að sjá hvernig hormónakerfið mitt er. Ég vil vera besti íþróttamaður sem ég get mögulega orðið og ég byrjaði að hrynja. Ég gerði mælingar á blóðkornahlutfalli mínu og ég var mjög lár þar, í kringum 30 en ég er vanur að vera í kringum 45. Ég var á mörkum þess að þjást af blóðskorti.“

Þegar Dillashaw sá mælingarnar á blóðkornaflutfallinu ákvað hann að taka ólöglega efnið Procrit sem hann vissi að væri bannað.

„Ég ákvað að taka efni sem ég vissi að væri bannað. Procrit er lyf gegn blóðskorti sem myndi hjálpa mér að ná vigt en myndi líka hjálpa mér að vera ég sjálfur á æfingum. Ég er ekki reiður yfir að hafa tekið efnið því annars hefði ég ekki getað tekið bardagann. Ég viðurkenni augljóslega svindlið og var gripinn í landhelgi.“

Dillashaw var harðlega gagnrýndur af bardagaaðdáendum, bardagamönnum, fyrrum æfingafélögum en umfram allt fyrrum andstæðingum. „Það var erfitt. Það er erfitt að hata sig ekki smá, þetta er erfitt.“

Dillashaw talar um svindlið sitt hér að neðan en neðst má sjá allt viðtalið í heild sinni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular