Ekkert verður af bardaga John Lineker og Jimmie Rivera á UFC 219 um helgina. Lineker er með tannsýkingu og getur ekki barist eins og til stóð.
UFC hefur reynt að finna staðgengil fyrir John Lineker en án árangurs. Rivera fær því ekkert að berjast á laugardaginn en bardaginn átti að vera á aðalhluta bardagakvöldsins á UFC 219.
Meiðsli Lineker eru þó ekkert stórkostlega alvarleg en hann er með tannsýkingu en þetta kemur fram á vef MMA Fighting. Í síðustu viku fann hann fyrir tannpínu og taldi hann að það stafaði af tannrótargöngunum (e. root canal) sem hann fékk fyrir þremur vikum síðan. Sýkingin kom þó í ljós eftir að hann var kominn til Las Vegas þar sem UFC 219 fer fram. Sársaukinn varð sífellt verri og mat læknirinn sem svo að hann væri ófær um að berjast.
Lineker hélt heim til Brasilíu í morgun og fór strax í aðgerð í dag. Hann býst við að geta hafið æfingar að nýju eftir einungis 15 daga og hugsanlega verður bardaginn settur aftur á laggirnar fljótlega.
UFC 219 fer fram á laugardaginn og hefur bardagi Marc Diakiese og Dan Hooker verið færður upp á aðalhluta bardagakvöldsins í stað bardaga Lineker og Rivera.