Eftir 14 ára veru í UFC er Thiago Alves kominn með nýja vinnuveitendur. Alves hefur samið við Bare Knuckle Fighting Championships.
Thiago Alves barðist sinn síðasta bardaga á samningi sínum við UFC í desember þegar hann tapaði fyrir Tim Means. Eftir það ákvað hann að söðla um og mun nú keppa í berhentu boxi hjá Bare Knuckle FC (BKFC).
Alves átti að mæta Gunnari Nelson á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn í september en nokkrum vikum fyrir bardagann dró Alves sig úr bardaganum vegna sýkingar.
Alves vildi kanna markaðinn eftir sinn síðasta bardaga í stað þess að semja aftur við UFC. Hann mun nú berjast á nýjum vettvangi en ekki er vitað hvenær hans fyrsti bardagi hjá BKFC verður.