Bardagi Ian Heinisch og Gerald Meerschaert féll niður í tæpan sólarhring. Bardaginn er hins vegar kominn aftur á dagskrá en talið var að þjálfari Heinisch væri með kórónaveiruna.
Bardagi Heinisch og Meerschaert í millivigt á UFC 250 um helgina féll niður í skamma stund þegar hornamaður og þjálfari Heinisch greindist með kórónaveiruna. UFC brást skjótt við og mátti Heinisch ekki keppa þar sem hann gæti verið smitaður. Anthony Ivy fékk skyndilega samning við UFC og átti að mæta Meerschaert í stað Heinisch.
Þjálfari Heinisch fór í aðra skimun og þar kom í ljós að hann væri ekki með kórónaveiruna eftir allt saman. Bardagi Heinisch var því aftur á dagskrá. Ivy heldur þó samningi sínum við UFC og fær annan bardaga síðar.
UFC 250 fer fram á laugardaginn þar sem Amanda Nunes mætir Felicia Spencer um fjaðurvigtartitil kvenna í aðalbardaga kvöldsins.