Umdeilt atvik átti sér stað á UFC bardagakvöldinu síðasta laugardag. Eftir tvær lotur vildi Max Rohskopf hætta en þjálfarinn neitaði í fyrstu. Mikið hefur verið deilt um ákvörðun þjálfarans og bardagamannsins.
Max Rohskopf (5-1) mætti Austin Hubbard (12-4) á laugardaginn en þetta var fyrsti bardagi Max í UFC. Max tók bardagann með fimm daga fyrirvara en eftir tvær lotur vildi hann hætta á stólnum.
Þjálfari hans, Robert Drysdale, neitaði að stöðva bardagann og reyndi að stappa stálinu í sinn mann. Max var harður á því að hætta en starfsmaður íþróttasambandsins heyrði í Max og kallaði til dómarann og lækni. Dómarinn spurði Max hvort hann vildi halda áfram og neitaði Max aftur sem gerði það að verkum að dómarinn stöðvaði bardagann.
Inside the corner of Max Rohskopf before the fight is called off at #UFCVegas3 pic.twitter.com/hZrfnaMObt
— ESPN MMA (@espnmma) June 20, 2020
Drysdale hefur verið gagnrýndur fyrir að bregðast ranglega við. Max er 25 ára, tiltölulega óreyndur og var að tapa 20-17 hjá öllum dómurum eftir tvær lotur. Hann var orðinn þreyttur og átti lítinn séns á sigri í 3. lotunni. Í MMA eru bardagar sjaldnar stöðvaðir af horninu en það er mun algengara í boxi.
Íþróttasambandið í Nevada, NSAC, mun skoða atvikið. „Við gætum þurft að refsa þjálfurum hans. Þetta hljómar ekki eins og þeir séu að hugsa um hagmuni bardagamnnsins. Hann vildi augljóslega ekki halda áfram og berjast,“ sagði Bob Bennett við ESPN.
Drysdale hefur síðan á laugardaginn varið ákvörðun sína. „Ég sé ekki eftir neinu. Ég gerði það rétta í stöðunni og myndi gera það aftur. Ég hefði átt að vera ákveðnari við hann þar sem hann var ekki meiddur eða vankaður. Það er starf þjálfarans að ýta bardagamanninum út í ystu æsar. Hann missti hausinn aðeins, var þreyttur og ég ætlaði að koma honum áfram,“ sagði Drysdale við MMA Fighting.
„Ég er þarna til að ýta mönnum áfram. Ég geri það á hverjum degi á æfingu. Ef hann hættir við fyrsta mótlæti er ég ekki að sinna starfinu mínu. Þetta er ekki gagnrýni heldur ást. Ég vil bara það besta fyrir þá og ætlast til að þjálfari minn myndi gera það sama. Ekki leyfa mér að gefast upp.“
Dominick Cruz og Micheal Bisping, sem lýstu bardaganum, voru sammála Drysdale.
UFC bardagamaðurinn Dan Hooker kallaði Max sykurpúða en hann eyddi síðar færslunni.
Dana White, forseti UFC, sýndi ákvörðun Max skilning. „Þegar þú segist vera búinn í þessari íþrótt, þá ertu búinn! Þú átt að geta hætt. Ég veit að það er litið hornauga en allir sem gagnrýna eru ekki þarna að berjast. Það er auðvelt að gagnrýna en það sem þessir íþróttamenn gera er á allt öðru getustigi,“ sagði Dana.
Dana var ekki viss hvort Max fái annað tækifæri í UFC. „Hann hafði hreðjarnar í að taka bardaga með skömmum fyrirvara í UFC. Hann þarf að kíkja í spegilinn og átta sig á því hvað hann vill gera. Það er enginn skömm í því að átta sig á því að þetta er ekki eitthvað sem þú vilt gera. Þú gafst þessu tækifæri og það gekk ekki. Það eru örfáir sem þora að gera það sem hann gerði.“
Næstu skref Max verða áhugaverð en hann er aðeins 25 ára og búinn með sex bardaga á ferlinum.