spot_img
Friday, December 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÞorgrímur: Kem heim með tvö belti og glóðarauga

Þorgrímur: Kem heim með tvö belti og glóðarauga

Þorgrímur
Þorgrímur Þórarinsson.

Þorgrímur Þórarinsson er einn af fjórum Íslendingum sem keppir á Caged Steel FC bardagakvöldinu í Doncaster á laugardaginn. Þorgrímur er að takast á við nýja áskorun um helgina í nýjum þyngdarflokki.

Þorgrímur er 2-1 sem áhugamaður en hingað til hefur hann barist í veltivigt (77 kg). Í þetta sinn fer hann upp í millivigt og mætir hann þá Matt Hodgson um millivigtartitil (84 kgflokkur) Caged Steel FC. Þorgrímur er nú þegar veltivigtarmeistari bardagasamtakanna eftir sigur á Jonny Brocklesby í mars.

„Það var alltaf planið að prufa millivigtina og sjá hvernig mér líður þar. Mér hefur liðið mjög vel allt campið og það er óneitanlega gott að þurfa ekki að eyða orku í að létta mig. Það fer óhjákvæmilega mikill fókus á það þegar maður er að standa í því og ég er feginn að geta beint minni orku frekar að öðrum þáttum undirbúningsins. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig mér líður svo í bardaganum sjálfum,“ segir Þorgrímur.

Matt Hodgson hefur tvívegis áður mætt Íslendingi og tapað í bæði skiptin. „Hann er striker, fílar að slugga og sækir í rothöggið. Ég býst bara við honum grjóthörðum og hungruðum. Hlakka mikið til að takast á við hann.“

Bardaginn í mars var erfiður en þar sýndi Þorgrímur mikla seiglu og þrautseigju. Þorgrími tókst að svæfa andstæðinginn í 3. lotu eftir harðan bardaga og tryggði sér þar með veltivigtarbeltið. „Bardaginn fór í raun alveg eins og við áttum von á. Mig minnir að ég hafi sagt í viðtali við ykkur að ég myndi þreyta hann og klára í þriðju lotu, sem varð síðan niðurstaðan. Það var margt sem ég hefði getað gert betur en þetta var alvöru hetju finish, svo ég er ánægður með hvernig þetta fór.“

„Ég lærði mikið af þessu og þá aðallega að sigur eða tap skiptir mig engu máli og þessir bardagar eru hvorki upphaf né endir neins. Maður bindur oft vonir við að allt muni breytast og verða geggjað þegar maður nær einhverju markmiði – kaupa sér nýjan bíl, vinna belti, græða peninga o.s.fr. Hamingjan kemur innan frá og þessir utanaðkomandi þættir hafa ekkert með hamingjuna að gera. Ef mín framistaða er góð og ég geri mitt besta er ég hamingjusamur, sigur eða tap mun ekki breyta því.“

Eftir síðasta bardaga hefur Þorgrímur haldið áfram á sömu braut þar sem hann hægt og rólega síar út þá hluti sem þjóna ekki hans markmiðum. Einbeitingin verður þar með skýrari og skýrari og ætlar Þorgrímur að koma heim með tvö belti í farteskinu eftir sigur á laugardaginn.

„Ég gæti þurft að henda mér í skó nautabanans í bardaganum á laugardaginn. Vera skrefinu á undan og refsa nautinu þegar það gerir mistök. Ef Guð vill fer allt að óskum og ég kem heim með tvö belti og glóðarauga.“

Þorgrímur berst á morgun ásamt þeim Magnúsi ‘Loka’ Ingvarssyni, Aron Kevinssyni, Benedikt Gabríel Benediktssyni en allir koma þeir frá RVK MMA. Hægt verður að kaupa streymi á bardagann hér en nánari upplýsingar um tímasetningar bardaganna koma á laugardaginn.

Tobbi

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular