Minna en þrjár vikur eru nú í UFC 249 þar sem Khabib Nurmagomedov mætir Tony Ferguson. Enn er ekki vitað hvar bardagakvöldið mun eiga sér stað.
Dana White, forseti UFC, er harður á því að UFC 249 fari fram þann 18. apríl. Upphaflega átti bardagakvöldið að fara fram í Brooklyn í New York en vegna kórónaveirunnar ríkir samkomubann í New York líkt og víða.
Dana White segist vera með 4-5 staði í huga fyrir bardagakvöldið. Abu Dhabi hefur verið nefnt til sögunnar og þá hefur Flórída óvænt skotið upp kollinum sem líklegur áfangastaður. Laugardaginn 21. mars fór Combat Night MMA fram í Flórida og gaf íþróttasambandið í Flórída grænt ljós á að leyfa Combat Night að halda sitt bardagakvöld þá. Ferðabann ríkir enn frá Evrópu til Bandaríkjanna og er erfitt að sjá hvernig Khabib eigi að komast til Bandaríkjanna.
Á mánudaginn mun síðan Rússland loka landamærum sínum. Khabib var í Bandaríkjunum að æfa fyrir bardagann en hélt til Rússlands þegar samkomubann var sett á í Kaliforníu. Khabib hefur nú aftur farið frá Rússlandi og verður í það minnsta ekki fastur þar á mánudaginn. Landi hans, Magomed Ankalaev, er enn í Rússlandi og óvíst hvort hann geti barist á UFC 249 ef bardagakvöldið fer fram.
Hægt er nú að veðja á hvar bardagakvöldið fari fram en Flórída og Abu Dhabi eru þar líklegustu áfangastaðirnir. Stuðlarnir á Mexíkó, Sádi-Arabíu, Suður-Afríku, Area 51 og Norður-Kóreu eru þó töluvert hærri.
Líkurnar á að bardagakvöldið fari fram eru hverfandi. Fjórum sinnum hefur UFC reynt að setja saman bardaga Khabib og Tony Ferguson saman en alltaf hefur eitthvað komið upp á.