UFC on Fox 19 bardagakvöldið fer fram eftir 11 daga og aðalbardaginn var að detta út. Tony Ferguson átti að mæta Khabib Nurmagomedov í aðalbardaga kvöldsins en hefur nú Tony Ferguson þurft að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.
Það er óhætt að segja að Khabib Nurmagomedov hafi ekki átt sjö dagana sæla undanfarin tvö ár. Síðast sáum við Nurmagomedov gjörsigra núverandi meistara, Rafael dos Anjos, í apríl 2014. Síðan þá hefur hann barist við hin ýmsu meiðsli, ekkert barist og benti allt til þess að við myndum loksins fá að sjá hann aftur í búrinu þann 16. apríl.
Í þetta sinn hefur andstæðingur hans, Tony Ferguson, meiðst en Ferguson er með vökva/blóð í lungunum. Þessu greindi hann frá á Twitter fyrr í kvöld.
Usually I can Power thru small Bumps & Bruises. Doc Said I have Fluid/Blood in my Lung #UFCTampa I Will Heal Up. I Will be Back.#TeamElCucuy
— Tony Ferguson (@TonyFergusonXT) April 5, 2016
Bardagi Glover Teixeira og Rashad Evans verður þess í stað aðalbardagi kvöldsins en óvíst er hvort að Khabib Nurmagomedov verði áfram á bardagakvöldinu gegn nýjum andstæðingi. Michael Chiesa og Beneil Dariush mætast fyrr um kvöldið í spennandi léttvigtarslag og gæti UFC fært annan hvorn þeirra í stærri bardaga gegn Nurmagomedov.