Fyrrum bráðabirgðarmeistarinn í léttvigt, Tony Ferguson, hefur náð fullum bata eftir aðgerð fyrr á þessu ári. Ferguson gæti því barist á þessu ári sem þótti afar ólíklegt í apríl.
Tony Ferguson átti að mæta Khabib Nurmagomedov á UFC 223 í apríl. Aðeins átta dögum fyrir bardagakvöldið datt Ferguson um sjónvarpskapal og meiddist á hné. Ferguson þurfti því að hætta við fyrirhugaðan bardaga og fór í aðgerð skömmu síðar.
Nú fjórum mánuðum eftir aðgerðina hefur hann fengið grænt ljós frá læknum að berjast aftur. Ferguson getur því hafið leit að andstæðingi fyrir haustið en hann hefur ekki barist síðan hann varð bráðabirgðarmeistari (e. interim champion) eftir sigur á Kevin Lee í október 2017. Ferguson var sviptur titlinum þegar hann gat ekki barist gegn Khabib í apríl og vonast eflaust eftir að fá stóran bardaga næst. Það er þó spurning hvort Ferguson vilji berjast án þess að titill sé í boði en hann hefur unnið 10 bardaga í röð.