Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaTopp 10 MMA fréttir ársins

Topp 10 MMA fréttir ársins

Fyrir MMA var þetta mjög viðburðaríkt og almennt gott ár. Árið 2012 var erfitt út af tíðum meiðslum sem meðal annars urðu til þess að UFC hætti í fyrsta skipti við heilt bardagakvöld, þ.e. UFC 151. Á þessu ári hafa flestir stóru bardagarnir átt sér stað. Cain Velasquez barðist við Junior dos Santos og gerði út af við umræðuna um hver væri bestur í þungavigt. Anthony Pettis fékk að berjast við Ben Henderson aftur eftir að T.J. Grant fékk heilahristing og gat ekki keppt. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði Henderson í fyrstu lotu með „armbar“ en Henderson var nýkominn með svart belti í jiu jitsu. Upphaflega átti 2013 að vera ár ofurbardaganna en sá eini sem komst nálægt þeirri skilgreiningu var José Aldo vs. Frankie Edgar. Sumir héldu líka að þetta yrði ár Alistair Overeem en hann var rotaður í tvígang og þarf nú að vinna sig upp aftur. Fyrir Íslendinga stóð upp úr bardagi Gunnars Nelson við Jorge Santiago í febrúar. Eins innkoma Íslandsvinarins Conor McGregar sem gerði allt vitlaust í UFC. Förum yfir það helsta sem gerðist á árinu í númeraröð.

fallon foxnick_newellgarrett

10.   Óvenjulegir og umdeildir keppendur

Það er til marks um hversu ung íþrótt MMA er að það eru alltaf að koma upp alveg nýjar aðstæður. Allt sem er öðruvísi er umdeilt og oft ekki að ástæðulausu. Á árinu var mikið talað um Fallon Fox sem er kynskiptingur, þ.e. karlmaður sem breytti sér í konu og barðist við konur í MMA. Það þótti ósanngjarnt þar sem hún var enn með styrk karlmanns þó hún væri orðin kona. Reyndar tapaði hún fyrir konu í október, eftir það hefur lítið verið talað um Fox. Svo er það hinn einhenti Nick Newell sem er fatlaður en berst eins og hver annar og er ósigraður í 11 bardögum. Sennilega mun UFC þó aldrei gefa honum tækifæri. Umdeildari er reyndar saga Garrett Holve sem er með Down syndrome en berst í MMA. Nú fyrir stuttu bárust svo fréttir frá Brasilíu um fyrirhugaðan bardaga á milli konu og karlmanns en það var sem betur fer hætt við það. Það má búast við áframhaldi af fréttum sem þessum en það má kannski líta á þetta sem þroskaskeið sem íþróttin þarf að ganga í gegnum.

Rousimar-Palhares

9.       Umdeild atvik

Á árinu voru nokkur umdeild atvik sem vöktu athygli. Í október var fótalásasérfræðingurinn ógurlegi Rousimar „Toquinho“ Palhares sem sigraði Mike Pierce á hálfri mínútu með hælkrók. Palhares var hins vegar rekinn úr UFC fyrir að sleppa ekki takinu nógu fljótt en hann hafði gerst sekur um svipað brot áður.

Eins og árið áður var mikið talað um TRT (Testosterone Replacement Therapy). Þetta er vandamál sem verður að leysa en þar til það gerist verður haldið áfram að tala um það. Í grófum dráttum snýst þetta um að bardagamenn fá sérstakt leyfi til að sprauta í sig testosteroni, sem er í raun ekkert annað en leyfðir sterar. Síðast var það Antonio „Bigfoot“ Silva sem var gómaður fyrir að hafa tekið of stóran skammt. Það verður að fara að banna þetta.

askren

8.       Ben Askren losnar frá Bellator en kemst ekki í UFC

Það vakti mikla athygli á árinu hvernig farið var með Ben Askren þegar samningi hans lauk á árinu. Fyrir þá sem ekki vita þá var Askren einn besti meistari Bellator, ósigraður í tólf bardögum. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að vera einhæfur og leiðinlegur en það skal ekki af honum tekið að hann er einn sá besti í sínum þyngarflokki í heiminum, þ.e. veltivigt. Það kom því á óvart að Bellator ákvað að endurnýja ekki samninginn við hann og það sem verra var vildi UFC ekki gefa honum tækifæri heldur. Það er einhver rígur á milli UFC og Bellator en útskýring Dana White var sú að Askren hefði ekki sannað sig nóg til að komast í UFC. Sú útskýring er einfaldlega bull þar sem miklu óreyndari menn hafa komist í sambandið. Það spilar kannski inn í að Askren er erfiður að eiga við og dálítill þverhaus. Á endanum samdi hann við lítið asískt samband sem heitir ONE FC. Spurningin er hvort við munum einhverntíman heyra frá kappanum aftur.

alexander-gustafsson-jon-jones

7.       Langlífir UFC meistarar finna verðuga andstæðinga

Á árinu var eins og það lægi einhver breyting í loftinu. Eftir langa sigurgöngu sterkustu UFC meistaranna fóru hlutir að breyast og allt í einu virtist allt vera mögulegt. Í júlí var langlífasti meistari sambandsins frá upphafi, Anderson Silva, rotaður á eftirminnilegan hátt í annarri lotu. Í ágúst tapaði svo Ben Henderson titlinum í léttvigt fyrir Anthony Pettis í fyrstu lotu. Í september mætti svo Jon Jones Svíanum Alexander Gustafsson. Í einum besta bardaga ársins börðust þeir eins og hundur og köttur þar til dómararnir gáfu Jones sigurinn. Í nóvember var svipaða sögu að segja af einum vinsælasta og sigursælasta meistara UFC, George St-Pierre, þegar hann mætti Johny Hendricks. Það voru auðvitað undantekningar á þessari þróun. José Aldo, Demetrious Johnson, Renan Barão, Ronda Rousey og Cain Velasquez afgreiddu öll sína áskorendur af öryggi.

bellator-106-large

6.       Bellator PPV sem aldrei varð

Bellator er næst stærsta MMA samband í heimi en er þó talsvert langt frá UFC veldinu. Sambandið er byggt þannig upp að menn berjast í útsláttarkeppni um réttinn til að skora á ríkjandi meistara. Bellator ákvað hins vegar að bregða út af vananum á árinu og hafði uppi áform um að láta tvo fyrrverandi UFC meistara, Tito Ortiz og Quinton Jackson, berjast í bardaga sem var ekki í útsláttarkeppni og ekki um titil. Kvöldið átti að vera á “pay per view” (PPV), það fyrsta í sögu Bellator, en þegar Tito Ortiz meiddist var kvöldinu breytt í hefðbundnara Bellator kvöld. Að vísu var kvöldið hlaðið af bestu bardagaköppum Bellator en úrslitin urðu meira og minna öll óvænt. King Mo Lawal tapaði í annað skipti fyrir hinum óþekkta Emanuel Newton. Pat Curran tapaði titlinum í fjaðurvigt fyrir Daniel Straus og Eddie Alvarez kom til baka eftir langa fjarveru og sigraði hinn sterka Michael Chandler í einum besta bardaga ársins.

faber

5.       Gamlir refir minna á sig

Þetta var stórt ár fyrir tvo fyrrverandi meistara sem margir voru búnir að afskrifa. Vitor Belfort tapaði fyrir Jon Jones í lok árs 2012 og margir gerðu ráð fyrir að hans bestu ár væru að baki enda hefur hann barist síðan 1996. Á þessu ári hefur hann hins vegar komið til baka eins og villidýr. Í janúar rotaði hann Michael Bisping í fyrstu lotu með sparki í höfuðið. Í maí rotaði hann fyrrverandi Strikeforce meistara Luke Rockhold með „spinning heel kick“ og í nóvmber rotaði hann sjálfan Dan Henderson á rétt rúmri mínútu. Næst á dagskrá fyrir Belfort er sigurvegarinn úr Silva vs. Weidman 2.

Eftir töp fyrir ríkjandi meisturum José Aldo, Dominick Cruz og Renan Barão áttu margir von á að Urijah Faber væri búinn. Á þessu ári er hann hins vegar búinn að sigra fjóra bardaga í röð og klára þrjá af þeim. Faber mun sennilega berjast við sigurvegarann af Cruz vs. Barão og hann á það svo sannarlega skilið.

Cormier

4.       Innrás Strikeforce í UFC

Það var í lok árs 2011 sem UFC keypti næst stærsta MMA samband í heimi, Strikeforce. Í fyrstu voru skilaboðin þau að ekkert myndi breytast. Það trúði því auðvitað enginn og það var á þessu ári sem bardagamenn úr Strikeforce fengu að spreyta sig í UFC. Útkoman kom mörgum óvart. Ronda Rousey var gerð að UFC meistara í 135 punda flokki kvenna. Daniel Cormier sigraði bæði Frank Mir og Roy Nelson. Gilbert Melendez var hársbreidd frá því að sigra UFC meistarann í léttvigt, Ben Henderson. Robbie Lawler sigraði Josh Koscheck, Bobby Voelker og Rory MacDonald. Josh Tomson rotaði Nate Diaz og Ronaldo „Jacare“ Souza sigraði bæði Chris Camozzi og Yushin Okami. Pat Healy sigraði svo Jim Miller í rosalegum bardaga (sama hvað marjúana í blóði segir). Sá sem kom kannski mest á óvart var Bobby Green sem sigraði bæði Jacob Volkmann og Pat Healy á árinu (James Krause telst varla með). Aðrir góðir sem vert er að nefna eru Gegard Mousasi, Josh Barnett, Adlan Amagov, Miesha Tate og Tyron Woodley.

Það gekk þó ekki jafn vel hjá öllum. Nick Diaz tapaði fyrir George St-Pierre, Luke Rockhold var jarðaður af Vitor Belfort og Jordan Mein lenti í Matt Brown. Caros Fodor hefur verið rekinn eins og Ryan Couture og Bobby Voelker var afhausaður af Robbie Lawler. Svo ekki sé minnst á Alistair Overeem sem var rotaður af Antonio „Bigfoot“ Silva og Travis Browne.

gsp

3.       GSP hættir, lætur beltið frá sér

George St-Pierre var búinn að gefa litlar vísbendingar um að þetta væri í vændum en það trúði því enginn fyrr en það gerðist. Eftir sjö ár sem meistari ákvað hann að gefa beltið frá sér og hætta í óákveðinn tíma. Af hverju veit í raun enginn en kappinn virðist einfaldlega vera útbrunninn og þreyttur. Kannski skiljanlegt miðað við álagið. Það er hugsanlegt, jafnvel líklegt, að hann komi aftur en hann þarf þess ekki. Hann á næga peninga og arflegð hans er örugg.

USP MMA: UFC 162-SILVA VS WEIDMAN S OTH USA NV

2.       Anderson Silva rotaður

Augnablik og áfall ársins var án efa þegar Chris Weidman staðsetti fullkominn vinstri krók á hægri kinn Anderson Silva með stórkostlegum afleiðingum. Silva hafði aldrei tapað áður í UFC í sextán bardögum. Slíkt er fáheyrt í erfiðustu íþrótt í heimi. Silva virtist ósigrandi en varð mannlegur á augabragði eftir að hafa sýnt andstæðingi sínum vanvirðingu með látbragði og sýndarmennsku. Tilfinningin var sú að hann fékk það sem hann átti skilið en enginn átti von á þessum úrslitum. Þessir tveir berjast aftur annað kvöld í stærsta bardaga ársins.

UFC_157poster_large

1.       Konur í UFC

Fyrsti kvennabardaginn í UFC (Ronda Rousey vs. Liz Carmouche) fór fram á árinu. Í sögulegu samhengi er innkoma kvenna í sambandið stærsta og mikilvægasta frétt ársins. Í fyrstu var það bara 135 punda flokkur (bantamvigt) sem var komið á kopp en nú stendur til að bæta við 115 punda flokk (strávigt) en sigurvegari úr móti í gegnum The Ultimate Fighter verður krýnd meistari. Þátttaka kvenna í The Ultimate Fighter þáttunum á árinu og innkoma þeirra í sambandið var eins og ferskur blær sem er bæði spennandi og mikilvæg viðurkenning fyrir bardagakonur. Það má búast við sprengingu af hæfileikaríkum konum á næstu árum líkt og gerðist eftir fyrstu seríu af The Ultimate Fighter. Það eina sem vantar er Cristiane „Cyborg“ Santos en hún kemur kannski þegar UFC bætir við 145 punda flokki og hún hættir að hlusta á Tito Ortiz.

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular