Saturday, May 18, 2024
HomeErlentTravis Fulton hættir eftir 307 MMA bardaga

Travis Fulton hættir eftir 307 MMA bardaga

Hinn 41 árs gamli Travis Fulton hefur lagt hanskana á hilluna eftir 307 skráða MMA bardaga. Fulton lauk ferlinum á undarlegum sigri um síðustu helgi.

Travis Fulton tók sinn fyrsta bardaga í júlí 1996. 22 árum og 306 bardögum síðar hefur hann ákveðið að segja þetta gott. Fulton hefur alltaf viljað berjast mikið og er sennilega duglegasti bardagamaður í sögu MMA. Auk þess hefur hann barist 73 bardaga í boxi! Hann er því samtals með 380 skráða bardaga í MMA og boxi.

Hann barðist tvo bardaga í UFC árið 1999 þar sem hann tapaði einum bardaga og vann einn. Tækifærin urðu ekki fleiri af einhverjum ástæðum en á einum tímapunkti tókst honum að vinna 40 bardaga í röð!

Fulton barðist alla tíð í þungavigt og vann hann 254 bardaga, tapaði 54 og gerði 10 jafntefli. Þá var einn bardagi dæmdur ógildur. Fulton tapaði 11 bardögum eftir rothögg en flesta bardaga vann hann með uppgjafartaki eða 152 talsins.

Á löngum ferli barðist hann við þekkta bardagamenn á borð við Matt Lindland, Vladimir Matyushenko, Pete Williams, Heath Herring, Ian Freeman, Renato ‘Babalu’ Sobral, Evan Tanner, Rich Franklin, Forrest Griffin, Jeremy Horn, Joe Riggs, Ben Rothwell, Ricco Rodriguez, Jeff Monson og Andrei Arlovski. Oftast tapaði hann fyrir þessum þekktari mönnum en náði þó að vinna Wes Sims á sínum tíma. Þá barðist hann fjórum sinnum við Dan Severn sem náði sjálfur 127 bardögum.

Lokabardagi hans um síðustu helgi var gegn Jonathan Ivey sem sjálfur hefur barist 90 MMA bardaga. Fulton er átrúnaðargoð Ivey og var bardaginn ansi óvenjulegur. Ivey var á góðri leið að klára bardagann en þegar hann sá að dómarinn var ekki að fara að stoppa bardagann ákvað hann að hætta sjálfur. Ivey vildi ekki kýla átrúnaðargoðið sitt meira þar sem hann taldi að Fulton væri þegar rotaður. Þess má geta að Ivey er með húðflúr af andliti Fulton á lærinu.

Sjón er sögu ríkari.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular