spot_img
Saturday, November 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentTvær hliðar Khabib

Tvær hliðar Khabib

Khabib Nurmagomedov er einn vinsælasti bardagamaður UFC í dag. Ótrúlegir yfirburðir hans í búrinu hafa hlotið verðskuldaða athygli en eftir því sem hann verður þekktari hafa skoðanir hans komið betur í ljós.

Þegar Khabib Nurmagomedov kom fyrst í UFC var hann þessi dæmigerði ískaldi Rússi sem var hvergi banginn og sýndi aldrei veikleika. Eftir því sem sigrarnir urðu fleiri fengum við að kynnast Khabib betur og jók það svo sannarlega vinsældir hans.

Frægt var þegar myndband af ungum Khabib að glíma við bjarnarhún fór eins og eldur um sinu á veraldarvefnum. Khabib var aðeins 9 ára þá en pabbi hans setti upp æfinguna til að kanna karakter sonarins. Eins stórfurðulegt og þetta var þá var þetta athyglisvert. Það var eitthvað svo rússneskt og einkennilegt við að sjá þennan atvinnubardagamann glíma við bjarnarhún sem barn.

Ímynd hans sem ískaldur Rússi varð svo enn kaldari þegar hann var spurður út í rómantískar gamanmyndir. Setningar eins og „kvikmyndir gera menn veikgeðja“ vöktu furðu en samt áhuga.

Khabib átti að mæta Eddie Alvarez í titilbardaga en UFC ákvað þess í stað að gefa Conor bardagann. Khabib var síður en svo sáttur með það og var pirraður bæði fyrir bardagann og eftir bardagann. Frægar setningar eins og „Nr. 1 bullshit“ festu sig í sessi og lét hann Conor heyra það í viðtalinu eftir bardagann.

„I wanna fight with your chickhen, because this is nr. 1 easy fight in lightweight division.“

Þessi ræða hans kom eftir sannfærandi sigur gegn Michael Johnson þar sem hann bæði talaði við andstæðinginn og Dana White á meðan hann var að lúskra á Johnson. Það eru sjaldséðir yfirburðir.

Það vakti síðan athygli að Khabib eignaðist sitt annað barn sama dag og hann barðist við Edson Barboza. Khabib hélt því gjörsamlega út af fyrir sig og gagnrýndi Conor fyrir að taka góða pásu á meðan Conor eignaðist sitt fyrsta barn.

Það er eitthvað undarlega heillandi við þessa ísköldu Rússa sem virðast varla mannlegir. Það eina sem skiptir máli er að vinna bardagana, leggja hart að sér og taka ekki þátt í neinu kjaftæði. Þetta eru einhverjar bardagavélar sem minna á Ivan Drago í Rocky 4. Það er auðvelt að heillast af því en Khabib á sér líka aðra hlið sem hann sýnir frekar heima í Rússlandi.

Khabib var ósáttur við rapptónleika sem fóru fram heima í Dagestan og lýsti andúð sinni á samfélagsmiðlum. Khabib, sem er strangtrúaður múslimi, er ekki aðdáandi tónlistar sem inniheldur texta sem er ekki í samræmi við hans trúarskoðanir. Þessi færsla hans vakti upp miklar deilur á samfélagsmiðlum í Rússlandi og víðar. Deilurnar eru sagðar hafa átt stóran þátt í aflýsingu tónleika rapparans Igor Krid í höfuðborg Dagestan, Makhachkala, í september 2018. Tónleikahaldarar hættu við tónleikana vegna öryggisráðstafana og rapparinn Krid segist aldrei hafa fengið jafn margar hótanir áður.

Khabib hefur líka nokkrum sinnum sést með Ramzan Kadyrov, einræðisherra Tjetseníu. Kadyrov er gríðarlega umdeildur maður sem hefur hneppt fjölda manns í heimalandinu vegna kynhneigðar þeirra. Að sögn BBC eiga sér stað mjög alvarleg mannréttindabrot í landinu. Tugir manna eru sagðir hafa verið handteknir og pyntaðir vegna kynhneigðar sinnar og að minnsta kosti tveir drepnir. Kadyrov hefur vísað þessu á bug og sagt að samkynhneigð þekkist ekki í ríkinu. Það er ekki samasem merki milli þess að Khabib hafi sömu skoðanir og Kadyrov en Khabib er í það minnsta ekki feiminn við að pósta myndum af sér með svona mönnum.

Þá hefur Khabib óskað eftir því að leikrit í Dagestan sem innihélt kynferðislegan undirtón yrði bannað. Hann undraði sig á því hvers vegna ríkisstjórn Dagestan „leyfði svona viðbjóð“ og fékk leikstjóri leikritsins hundruði hótana eftir að Khabib hafði lýst yfir sinni skoðun. Hann óskaði einnig eftir því að skemmtistaðir ættu að loka enda ekkert nema svartur blettur á samfélaginu.

Í desember 2018 sat hann fyrir svörum aðdáenda á viðburði í Sádi-Arabíu. Ein kona í salnum spurði hann hvaða ráð myndi hann gefa konum sem vilja hasla sér völl í bardagaheiminum. Khabib var með einföld ráð:

„Ég hef einfalt ráð fyrir konur; vertu bardagakona heima fyrir. Og eitt enn, kláraðu manninn þinn ávallt,“ sagði Khabib og uppskar hlátrasköll meðal viðstaddra.

Khabib sýnir sjaldan þessa íhaldssömu hlið í bandarískum viðtölum en eftir því sem hann verður stærra nafn kemur sú hlið betur og betur í ljós. Það er magnað að sjá hann í búrinu og gaman að sjá fyndna frasa með rússneskum hreim en eftir því sem menn verða þekktari því betur koma gallarnir kannski í ljós ef þeir eru til staðar. „Því hærra sem apinn klífur upp tréð, því betur sést rassgatið á honum,“ eins og orðatiltækið segir.

Þegar hann kom fyrst í UFC vildu aðdáendur vita meira – við vildum vita allt. Allir vilja vita sem mest um hetjurnar sínar en svo er það kannski ekki í samræmi við eigin væntingar. Núna vitum við svo sannarlega meira um manninn og það er ekki allt blóm og rósir.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular