Á laugardaginn fer fram fyrsta bardagakvöld UFC í Suður-Kóreu. Stærsta stjarna landsins í MMA, Dong Hyun Kim, berst á bardagakvöldinu sem og hinn óþekkti Dong Hyun Kim.
Það verða því tveir Dong Hyun Kim í eldlínunni á laugardaginn. Báðir berjast þeir í veltivigt og mætti halda að um mistök væri að ræða en svo er ekki.
Sá þekktari Dong Hyun Kim mætir Dominic Waters í veltivigt í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Upphaflega átti Kim að mæta Jorge Masvidal en Masvidal berst við Ben Henderson vegna meiðsla Thiago Alves. Dong Hyun Kim er í 7. sæti styrkleikalista UFC og sigraði síðast Josh Burkman á UFC 187.
Sá óþekktari Dong Hyun Kim mætir Dominique Steele einnig í veltivigt en þetta verður fyrsti bardagi laugardagsins. Þetta er frumraun Kim í UFC en hann hefur sigrað 13 bardaga, tapað sex og gert þrjú jafntefli.
Það verður að teljast ansi áhugavert að tveir alnafnar frá Suður-Kóreu skulu báðir berjast í UFC og það á sama bardagakvöldi í sama þyngdarflokki. Vonandi munu þeir þó aldrei mætast í búrinu enda væri það erfitt verk fyrir lýsendur.
Bardagakvöldið á laugardaginn er á góðum tíma hér á Íslandi. Fyrsti bardagi dagsins hefst kl 10 en aðalhluti bardagakvöldsins kl 13. Allir bardagarnir verða í beinni útsendingu á Fight Pass rás UFC.