spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentTvö ár síðan Conor McGregor mætti Floyd Mayweather

Tvö ár síðan Conor McGregor mætti Floyd Mayweather

Í dag eru tvö ár síðan þeir Conor McGregor og Floyd Mayweather mættust í boxbardaga. Það er enn þann dag í dag hálf lygilegt að þetta hafi gerst en rifjum þennan viðburð aðeins upp.

Þetta byrjaði sem einhver fáránleg hugmynd í slúðurmiðlum og virtust báðir bara vera að tala um þetta til að koma nafninu sínu á framfæri. Þessar fáránlegu fréttir voru samt að skila smellum og var áhugi greinilega til staðar. Þegar Dana White, forseti UFC, var allt í einu farinn að tala um þetta sem raunverulegan möguleika fóru hjólin að snúast.

Bardaginn var staðfestur í júní og varð áhuginn strax mikill. Í júlí hélt UFC og Showtime fjóra blaðamannafundi á fjórum dögum í fjórum borgum til að kynna bardagann. Það var mikill skrípaleikur á blaðamannafundunum og varð þetta fljótt þreytt að sjá þá með sömu gömlu skotin á hvorn annan.

Fyrrum atvinnuboxarinn Paulie Malignaggi var fenginn inn sem æfingafélagi fyrir Conor. Stutt myndbrot af Conor að slá Paulie niður vr birt á samfélagsmiðlum Conor og var Paulie síður en svo sáttur með það. Paulie er ennþá að tuða yfir þessu og eru fréttir af honum þær allra þreyttustu í dag. Paulie tókst reyndar að koma sér í bardaga gegn Artem Lobov, æfingafélaga Conor, í Bareknuckle Boxing sem hann tapaði.

Þrátt fyrir að allt umfangið í kringum bardagann hafi verið hálfgerður sirkús var áhuginn gríðarlegur. „Hvað ef Conor vinnur?“ var aðal spurningin fyrir bardagann. Það var samt aðallega hjá þeim sem fylgjast lítið með bardagaíþróttum yfir höfuð. Flestir harðkjarna bardagaaðdáendur voru á því að Conor myndi auðvitað tapa fyrir einum besta boxara allra tíma.

Stuðlarnir breyttust þó gríðarlega sem sýnir hve margir veðjuðu á að Conor myndi sigra Floyd. Þegar fyrst var byrjað að tala um bardagann var stuðullinn á sigri hjá Conor í kringum 10 en stuðullinn endaði í 4. Sérfræðingar í veðmálum höfðu aldrei séð annað eins.

Bardaginn sjálfur var ágætis skemmtun. Floyd tók því rólega fyrstu fjórar loturnar en tók svo yfir bardagann þegar á leið. Floyd kláraði síðan örþreyttan Conor McGregor í 10. lotu og virtust boxaðdáendur og MMA aðdáendur vera nokkuð sáttir með bardagann.

Barist var um svo kallað „Money Belt“ og snérist þetta í raun allt um peninga. Samkvæmt Dana White voru 6,7 milljónir Pay Per View keypt. Conor fékk 30 milljónir dollara og Floyd 100 milljónir dollara samkvæmt uppgefnum launum en báðir fengu meira. Floyd segist hafa fengið í kringum 350 milljónir dollara fyrir bardagann þegar allt er talið upp.

Stærsta spurningin eftir bardagann var hvort Conor myndi snúa aftur í búrið. Það gerði hann í október 2018 þegar hann tapaði fyrir Khabib Nurmagomedov. Hanskarnir hjá Floyd hafa haldist á hillunni fyrir utan óvæntan sýningarbardaga gegn Tenshin Nasukawa í Rizin í fyrra.

26. ágúst 2017 var áhugaverður dagur í bardagaheiminum þó bardaginn sjálfur hafi kannski ekki verið sá merkilegasti.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular