Veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley hótaði því á mánudaginn að hann myndi leka viðkvæmum upplýsingum ef Dana White, forseti UFC, myndi ekki biðja sig opinberlega afsökunar. Þeir Woodley og Dana ræddu málin í gær.
Bardagi Tyron Woodley og Demian Maia um helgina var harðlega gagnrýndur þar sem bardaginn þótti ekki skemmtilegur. Dana White var meðal gagnrýnenda og var Woodley ekki sáttur með þá gagnrýni.
„Ég á skilið að fá afsökunarbeiðni. Þú [Dana White] þarft að biðja mig afsökunar opinberlega. Ef ég fæ það ekki mun ég fara að leka ýmsu sem þú vilt ekki að verði opinbert. Og ég er ekki að grínast,“ sagði Woodley í The MMA Hour á mánudaginn.
Þeir ræddu hins vegar málin í gær og virðast hafa náð sáttum.
„Það var smá um öskur fram og til baka. Mér leið þó nokkuð vel í lok samtalsins. Samtalið endaði á jákvæðum nótum. Tveir menn geta rætt málin í síma og þó þeir séu ekki alltaf sammála geta þeir virt hvorn annan,“ sagði Woodley í samtali við ESPN.
„Mér finnst samt að hann ætti að biðjast afsökunar opinberlega en ég reikna ekki með því og mun ekki bíða eftir því. Samtalið endaði með virðingu í garð hvors annars og það var markmiðið. Dana veit allt um það að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Ætlaði ég að leka einhverju? Sennilega ekki. En á þeim tíma var ég reiður og það hljómaði vel.“
Woodley er ekki sammála gagnrýnendum sem segja hann leiðinlegan bardagamann. Nú hafa tveir bardagar hans í röð þótt leiðinlegir en Woodley er sáttur með sínar frammistöður.
„Ég berst ekki varfærnislega, ég berst skynsamlega. Ég hef horft á bardagann nokkrum sinnum núna og mér líður eins og þegar ég gekk úr búrinu.“