spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC greiðir 375 milljónir dala í bætur

UFC greiðir 375 milljónir dala í bætur

Um áratugi eftir að UFC var stefnt fyrir dóm af fyrrum bardagamönnum hefur sátt í málinu verið samþykkt þar sem UFC greiðir 375 milljónir dollara til stefnenda. Í stefnunni fóru bardagamennirnir fram á skaðabætur þar sem þeir töldu UFC hafa hamlað þeim frá því að starfa fyrir önnur bardagasamtök. Þá töldu bardagamennirnir UFC hafa með viðskiptaháttum sínum getað greitt bardagamönnum lægra en ella þ.e ef ekki væri fyrir ágenga viðskiptahætti UFC á markaði og gagnvart öðrum bardagasamtökum gætu bardagamenn fengið hærri greiðslur fyrir sín störf.

Stefnan

Árið 2014 stefndu fyrrum bardagamennirnir Cung Le, Nathan Quarry, Jon Fitch, Brandon Vera, Javer Cazquez og Kyle Kingsbury UFC. Bardagamennirnir töldu samninga UFC vera hamlandi og koma í veg fyrir að þeir hefðu möguleika á því að afla sér tekna og að þeim væru greidd of lág laun. Þá töldu bardagamennirnir UFC hafa tekið yfir mörg önnur bardagasamtök og með því takmarkað samkeppni á markaði og möguleika bardagamanna á að velja sér atvinnurekanda og mynda sér sterka markaðsstöðu þar sem lítil eða jafnvel engin alvöru samkeppni ríkir. Halda bardagamennirnir því fram að UFC hafi nýtt sér stöðu sína á markaði og takmarkaða möguleika þeirra að leita til annarra bardagasamtaka og greitt lægri laun heldur en þeir annars hefðu þurft að gera. Í stefnunni kemur meðal annars fram að á tilgreindu tímabili hafi UFC greitt 20% af heildartekjum sínum til bardagamanna á meðan önnur bardagasamtök hafi greitt talsvert hærra hlutfall af tekjum sínum til sinna bardagamanna. Bardagamenn UFC eru tæknilega séð verktakar en UFC gerir samninga við bardagamenn sína sem eru þess eðlis að þeir mega ekki berjast annars staðar en samningar milli verktaka og verkkaupa eru almennt ekki þess eðlis að verktaka sé ekki heimilt að stunda sína iðn eða hefðbundin störf fyrir annan verkkaupa.

Sú háttsemi sem er talin hamlandi er að UFC gerir verktakasamning við bardagamenn sem hamla þeim að starfa fyrir aðra atvinnurekendur og á sama tíma stunda ágenga viðskiptahætti þar sem UFC kaupir út eða tekur yfir samkeppnisaðila í stórum stíl og með því fækka möguleikum bardagamanna til að finna önnur bardagasamtök til að starfa fyrir, sem er í stefnunni talin búa til einkakeypisstöðu á markaði (e. Monopsony). Í stefnunni kemur fram að háttsemi UFC er talin brjóta gegn ákvæðum 2. hluta Scherman act sem er einn fyrsti lagabálkur þar sem fjallað er um samkeppnisrétt í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.

UFC og bardagamennirnir höfðu áður skrifað undir sátt sem hljóðaði upp á 335 milljónir dollara en dómari málsins neitaði að samþykkja þá sátt þar sem hann vildi sjá fjárhæðir greiddar til stefnenda sem gætu breytt lífi þeirra. Aðilar máls settust því aftur að samningaborðinu og skrifaði dómari málsins undir sátt sem hljóðar upp á 375 milljónir dollara.

Af hverju er UFC að skrifa undir sátt

Það kom nokkuð á óvart þegar UFC ritaði undir sátt um að greiða fyrrum bardagamönnum samtakanna 375 milljónir dollara þar sem lögmenn samtakanna hafa haldið í sama streng og Dana White og neitað því að samtökin hafi gert nokkuð rangt með sínum viðskiptaháttum. Lögmenn UFC hafa ítrekað lagt fram beiðnir um að málinu sé vísað frá en dómari málsins, Richard F. Boulware, hefur aldrei tekið það til greina og leyft málinu að lifa. UFC hefur gefið út að þeir hafi gert sátt í málinu til að komast hjá framtíðarkostnað og óþægindum sem málið hefur í för með sér ásamt þeim áhrifum sem málið hefur haft á ímynd samtakanna. Auk þess er sáttin talsvert öruggari kostur fyrir bardagasamtökin heldur en ef málið færi fyrir dóm. Fyrir það fyrsta geta UFC notað sáttargreiðslu til að lækka skattbyrði sína en auk þess færi málið fyrir dóm og ef UFC tapar eru líkur á að skaðabætur yrðu ákvarðaðar frá 811 milljón dollara til 1,6 milljarða dollara.

Af hverju bardagamennirnir skrifa undir sátt

Það hefur verið fjallað um málið undanfarin ár eins og stefnan byggi á sterkum grunni og þær skaðabætur sem hefðu verið ákvarðaðar væru í minnsta lagi meira en tvöföld sú upphæð sem sáttin hljóðar upp á og í mesta lagi meira en fjórum sinnum hærri. Ef málið hefði endað fyrir dóm og niðurstaða fengin með dómi hefði UFC getað beitt áfrýjunum og öðrum lagaklækjum til að komast hjá því að greiða bætur til bardagamanna samkvæmt niðurstöðu dómsins árum saman. Þá er einnig erfitt að sækja bætur á grundvelli 2. hluta Scherman act þar sem erfitt er að sanna brot og enn erfiðara er að sýna fram á að stefnandi hafi orðið fyrir raunverulegum fjárhagslegum skaða vegna háttsemi hins stefnda. Bardagamennirnir hafa því takmarkað áhættu sína talsvert með því að undirrita sáttina en eftir að bætur hafa verið greiddar til bardagamanna munu 35 bardagamenn fá yfir eina milljón dollara, um fimm hundruð fá yfir 100.000 dollara og nálægt 800 fá yfir 50.000 dollara.

Hefur sáttin áhrif á viðskiptahætti UFC

Þeir sem höfðu vonast til þess að samningar UFC við bardagamenn tækju stórtækum breytingum við undirritun sáttarinnar munu að öllum líkindum verða fyrir vonbrigðum því ólíklegt er að sáttin leiði til mikilla breytinga á samningum UFC við bardagamenn. Þeir sem vilja sjá stórtækar breytingar á samningum milli UFC og bardagamanna þurfa að bíða eftir niðurstöðu úr öðru máli þar sem UFC er einnig stefnt af fyrrum bardagamönnum. Það mál er kallað Johnson-stefnan/málið en það er skammt á veg komið og má reikna með að niðurstaða muni taka einhver ár og þá auðvitað ekki ljóst hvernig málið mun fara.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular