spot_img
Thursday, November 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeInnlentReykjavík MMA undirbýr víkingaför

Reykjavík MMA undirbýr víkingaför

Það styttist í síðustu ferð Reykjavík MMA á Caged Steel í Doncaster á árinu. Þessi viðburðaríku kvöld eru orðin fastur liður í bardagasenu og menningu okkar Íslendinga og því alltaf gaman að fylgjast með hvernig undirbúningurinn þróast. Eins og staðan er í dag hefur Reykjavík MMA fengið staðfesta þrjá bardaga en þjálfarar gera sér vonir um að sá fjórði sigli í höfn og verði staðfestur von bráðar.

Reykjavík MMA hefur skipulagt ferðir til Doncaster síðan 2018 og þróuðust góð vinatengsl við eiganda keppninnar, Dominic Gibbs sem ætlar sjálfur að leggja leið sína til landsins fyrir keppnina og kynnast landinu og klúbbnum betur. Reykjavík MMA hefur náð gríðarlega miklum árangri á Caged Steel og hafa bardagamenn frá klúbbnum unnið sér til mikilla vinsælda í bænum.

Næsta kvöld mun fara fram 7. desember og er búið að draga upp ágæta sviðsmynd af kvöldinu.

Jhoan Salinas berst upp á léttvigtarbeltið

Þetta er líklega síðasti bardagi Jhoan Salinas í áhugamannaflokki. Salinas hefur nýtt sér áhugamannabardagana til þess að létta sig og fara niður í þyngd hægt og bítandi. Jhoan Salinas byrjaði að berjast í millivigtinni en mun í þetta skipti berjast í léttvigt. Salinas, sem er oftast einfaldlega kallaður „Salli“, mun mæta heimamanninum Mason Yarrow um á Caged Steel-léttvigtarbeltinu.

Salli sigraði síðast Shyrron Burke á Caged Steel 36 með glæsilegum kneebar í fyrstu lotunni. Salli varð þá 5 – 1 sem áhugamaður í MMA og telur sig tilbúinn til þess að taka stóra skrefið yfir atvinnumennskuna eftir viðureignina gegn Mason Yarrow. Mason virðist einnig vera mjög hæfileikaríkur og efnilegur bardagamaður. Hann er sjálfur 5 – 1 sem áhugamaður og er á þriggja bardaga sigurgöngu. Mason barðist síðast gegn Alex Dintiu á Caged Steel 37 og vann viðureignina með glæsilegu KO!

Þeir sem vilja kynnast Mason Yarrow, næsta andstæðingi Jhoan Salinas, geta nýtt sér hlekkinn hér fyrir neðan.

Engar bremsur á Aroni

Aron Leó Jóhannsson mun stíga inn í búið í þriðja skiptið á þessu ári og keppa sinn þriðja atvinnubardaga! Í þetta skiptið mætir hann Jonny Brockleby upp á veltivigtartitilinn. Jonny Brockleby er 37 ára gamall heimamaður og myndu sumir lýsa honum sem „sterahaus“. Maðurinn er vígalegur í útliti en ef við horfum til síðustu bardaga má gera ráð fyrir að það séu gloppur í bardagagetu hans.

Brockleby er 5 – 2 sem atvinnumaður í MMA. Hann sigraði síðasta bardagann sinn gegn Richie Bonallie í Rise & Conquer á einróma dómaraákvörðun en hafði þar á undan tapað tveimur bardögum í röð.

Þetta er frábær andstæðingur fyrir Aron sem hefur litið ótrúlega vel út síðan hann tók skrefið í atvinnumennsku. Aron sló aldeilis í gegn þegar hann rotaði Bradley Tedham eftir 10 sekúndur á Caged Steel 36 en Aron þurfti að hafa aðeins meira fyrir hlutunum gegn Gavin Lofts í september. Brockleby er stór, reynslumikill og grjótharður andstæðingur sem ætti að geta boðið Aroni upp á ný vandamál til að leysa.

Hákon Örn mætir erkifjanda sínum

Hákon Örn hefur átt hrikalega öflugt undirbúningstímabil til þessa og hefur lagt mikið kapp á reynslu og keppnir utan MMA. Hákon sýndi flotta frammistöðu á haustbikarmóti HNÍ áður en hann hélt svo út til Wales þar sem hann hreppti gullið á ADCC Open í Nogi-glímu.

Í desember mætir Hákon erkifjanda sínum Jack Stevenson sem er gjarnan kallaður „Steve-O“.  Jack og Hákon mættust á Caged Steel 30 í desember 2022 og sigraði Hákon þá með einróma dómaraákvörðun. Þó nokkuð mikil orðaskipti hafa farið á milli þeirra en Jack Stevenson hefur átt í hótunum undir rós við Hákon alveg síðan að þeir mættust árið 2022.

Þetta er hrikalega spennandi viðureign þar sem þeir mætast núna loksins aftur og má búast við miklum hita og spennu í búrinu þegar þeir stiga inn.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular