UFC hefur ákveðið að hætta algjörlega við næstu þrjú bardagakvöld. UFC reyndi að færa þrjú bardagakvöld milli landa og borga en hefur nú ákveðið að gefast upp.
UFC var með þrjú bardagakvöld á dagskrá næstu helgar:
UFC í London þann 21. mars (Edwards vs. Woodley)
UFC í Columbus, Ohio þann 28. mars (Ngannou vs. Rozenstruik)
UFC í Portland, Oregon þann 11. apríl (Overeem vs. Harris)
UFC reyndi að færa öll bardagakvöldin en án árangurs. Dana White, forseti UFC, sendi starfsmönnum UFC bréf í kvöld þar sem fram kom að hætt verði við bardagakvöldin. Samkomubönn eru víða vegna kórónaveirunnar en þegar allir bardagaviðburðir voru bannaðir í Las Vegas var lítil von fyrir UFC.
UFC mun áfram reyna að láta UFC 249 fara fram þar sem þeir Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson mætast en óvíst er hvort það bardagakvöld geti átt sér stað í Brooklyn. UFC 249 fer fram þann 18. apríl.